Fara í innihald

Kaflaskil - Ávarp forstjóra

Fjölbreytnin er styrkur

Náttúrufræðistofnun tók til starfa þann 1. júlí 2024 eftir sameiningu þriggja öflugra stofnana: Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Vilji umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að sameina stofnanir innan ráðuneytisins kom fram árið 2022 og eftir víðtækt samráð og undirbúningsvinnu var ákveðið að sameina starfsemi þessara þriggja stofnana. Alþingi samþykkti lög um sameininguna þann 14. maí 2024 og tóku þau gildi þann 1. júlí sama ár.
Sameiningin markaði upphaf nýrrar heildar þar sem þrjár sterkar stofnanir með skýr hlutverk sameinuðu krafta sína. Strax á fyrstu mánuðum nýrrar stofnunar tók starfsfólk að blandast í verkefnum þar sem fagsviðin studdu við hvert annað. Í sameiginlegum rekstri urðu til ýmis tækifæri til hagræðingar, svo sem betri nýting á bílakosti stofnunarinnar og tilfærsla starfsfólks milli starfsstöðva en með því styttist m.a. ferðatími.
Sameiningin kostaði þó einnig fjármuni. Mikil vinna fór í samþættingu og frágang skjala, mótun nýrrar ásýndar og samræmingu mannauðsmála og tæknilausna.
Góður andi og jákvætt viðmót starfsfólks til sameiningarinnar skiptu sköpum við framkvæmd hennar. Þar kom einnig fram helsti styrkleiki nýrrar stofnunar, sem er starfsfólkið og viðhorf þess til þeirra mikilvægu verkefna sem bíða hennar.

Fyrirmyndarstofnun 2024

Að sameina stofnananir og byggja upp nýja heild er umfangsmikið verkefni. Það reynir á starfsfólk á öllum sviðum, daglegt verklag breytist, starfsumhverfi þróast og vinnumenning mótast upp á nýtt. Þessar óumflýjanlegu breytingar krefjast aðlögunar og geta raskað hefðbundinni vinnurútínu sem oft hefur verið í föstum farvegi í langan tíma.
Því var það sérlega ánægjulegt að Náttúrufræðistofnun skyldi hljóta viðurkenninguna Fyrirmyndarstofnun í ársbyrjun 2025. Mælingarnar sem lágu þar til grundvallar fóru fram meðal starfsfólks í lok árs 2024. Það er langt frá því sjálfgefið að fólk upplifi góðan starfsanda og öruggt vinnuumhverfi í miðri sameiningu og enn síður að hann styrkist. Þessi niðurstaða er því skýr vísbending um sterkan grunn í þeim stofnununum sem sameinuðust. Landmælingar Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands höfðu síðustu ár verið ofarlega í könnuninni og það er ánægjulegt að sú jákvæða þróun haldi áfram í nýrri stofnun, þar sem traust, fagmennska og vellíðan starfsfólks eru höfð í fyrirrúmi.

Fjölbreytt verkefni og framtíðarsýn

Náttúrufræðistofnun hefur mjög víðtækt hlutverk samkvæmt lögum nr. 54/2024, um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur. Þar kemur fram að stofnunin skuli sinna undirstöðurannsóknum á náttúru Íslands, safna og vinna landfræðilegar grunnupplýsingar og reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn. Í lögunum er jafnframt fjallað ítarlega um verkefni og starfsemi stofnunarinnar og er ljóst að verkefnin verða bæði fjölmörg og krefjandi á komandi árum.
Til að mæta þessum áskorunum þarf að endurskoða aðferðir, skilgreina betur verkefni og innleiða nýja tækni og lausnir til að ná markmiðum. Stefnumótunarvinna nýrrar stofnunar er þegar hafin og hefur allt starfsfólk hefur komið að þeirri vinnu. Í kjölfarið var sett fram ný framtíðarsýn sem lýsir vel þeim metnaði sem stofnunin hefur að leiðarljósi:
Náttúrufræðistofnun er í fremstu röð sem ábyrg vísinda- og fræðastofnun, þar sem vöktun og rannsóknir á náttúru Íslands og áreiðanlegar landupplýsingar skapa grundvöll þekkingar í þágu samfélagsins. 
Með þessari framtíðarsýn er lögð áhersla á að stofnunin sé vísindastofnun þar sem þekking á íslenskri náttúru er leiðarljósið. Þessum markmiðum verður náð með því að vinna af fagmennsku, leggja áherslu á samvinnu og tryggja gott aðgengi að áreiðanlegum gögnum.
Unnið verður að mótun rannsóknaráætlana fyrir helstu verkefni stofnunarinnar. Þannig má tryggja enn frekar að nauðsynleg þekking á náttúru Íslands sé ávallt til staðar, s.s. við ákvarðanatöku í umhverfis- og skipulagsmálum. Þá verður áhersla lögð á miðlun gagna og góðu samskipti við almenning, fagfólk og nærsamfélag, enda skiptir slíkt samráð sköpum þegar unnið er að sameiginlegum verðmætum náttúrunnar.

Horft um öxl

Á árinu 2024 voru unnin mörg fjölbreytt og mikilvæg verkefni hjá þeim stofnunum sem nú mynda Náttúrufræðistofnun. Hjá RAMÝ lauk Árni Einarsson störfum sem forstöðumaður í febrúar vegna aldurs eftir áratugalangt og farsælt starf. Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands tók við stjórn stöðvarinnar en Árni hélt þó áfram í hlutastarfi og gegndi áfram mikilvægu hlutverki, enda með dýrmæta reynslu og hálfrar aldar þekkingu á málefnum stöðvarinnar og náttúru Mývatns. Hefðbundin rannsóknaverkefni voru unnin hjá RAMÝ á árinu en tveir sérstakir viðburðir stóðu upp úr: Í júní var haldið upp á 50 ára afmæli stöðvarinnar og í september var haldin ráðstefna um Mývatns- og Laxárrannsóknir og vöktun síðustu hálfrar aldar. Báðir viðburðirnir voru vel sóttir og verkefnum stöðvarinnar, sem og samstarfi við fjölmarga aðila, gerð góð skil. Skipulag ráðstefnunnar var í höndum Háskólans á Hólum og eiga skipuleggjendur þakkir skildar. Ljóst er að mikið hefur áunnist með víðtækri vöktun og rannsóknum á svæðinu síðustu áratugi og er um einstakar vistkerfisrannsóknir á heimsvísu að ræða og eru þekkingin og gögnin mikill styrkur fyrir sameinaða stofnun.
Landmælingar Íslands áttu einnig árangursríkt ár. Flutningum í nýtt húsnæði á Akranesi lauk árið 2023 og hafði stofnunin náð góðu jafnvægi á starfsemi sinni á ný og starfsánægja var mikil. Verkefni ársins voru hefðbundin en áhersla var lögð á að efla grunngögn landsins enn frekar og bæta aðgengi að landupplýsingum. Meðal stærri verkefna var stuðningur við gagnaaðgengi nefndar um rammaáætlun, uppbygging vegagagnagrunns, mælingar á viðmiðunarpunktum vegna loftmyndatöku og vöktun á landshæðar- og hnitakerfi landsins. Stærsta verkefnið var þó útboð á loftmyndatöku af Íslandi en skrifað var undir verksamninga í ársbyrjun. Forstjóri stofnunarinnar, Gunnar H. Kristinsson, kom jafnframt að undirbúningi sameiningarinnar og vann náið með forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til að tryggja farsæla framkvæmd.
Náttúrufræðistofnun Íslands átti gott ár árið 2024. Unnið var að vöktun á lífríki og jarðfræði landsins, líkt og undanfarin ár. Meðal stærstu verkefna ársins var uppsetning veiðistjórnunarlíkans fyrir rjúpu. Með því skapaðist ákveðið jafnvægi við mat á veiðidögum rjúpu, sem löngum hefur verið þrætuepli. Vinna við líkanið var leidd af Umhverfisstofnunin og unnin í samvinnu við hagsmunaaðila. Á árinu bar mikið á fuglaflensu og sýndu vöktunar- og talningarniðurstöður töluverð áhrif hennar á stofnstærðir fugla. Vöktun á skörfum sýndi hins vegar góðan viðsnúning í stofnstærð, sem var ánægjulegt. Fjölmörg önnur mikilvæg verkefni voru unnin, þar á meðal gerð þrívíddarlíkana af eldstöðvum, uppsetning sjálfvirks frjókornagreinis í Urriðaholti í Garðabæ, vöktunarferð til Surtseyjar og rannsóknir á framandi tegundum á háhitasvæðum.

Horft fram á við

Ný framtíð blasir við sameinaðri Náttúrufræðistofnun. Breytingar á alþjóðlegu umhverfi eru farnar að setja mark sitt á starfsemi opinberra stofnana og hefur þessi breytta heimsmynd þegar haft áhrif á ýmsa þætti, eins og miðlun gagna, kortagerð og fjárveitingar almennt.
Í þessu breytta landslagi verður vöktun á náttúru Íslands og miðlun traustra gagna enn mikilvægari en áður. Náttúrufræðistofnun þarf m.a. áfram að standa vörð um ábyrgðartegundir fugla, veita upplýsingar um breytingar á landi, miðla upplýsingum um breytingar á lífríki í tengslum við loftslagsbreytingar og vakta hreyfingar á landi í tengslum við jarðhræringar. Jafnframt þarf stofnunin að leita nýrra, tæknilega fullkomnari leiða til að safna, vinna úr og miðla upplýsingum sem byggja á sterkum faglegum grunni. Umfram allt verður meginmarkimið áfram skýrt og óbreytt: að efla og viðhalda þekkingu á náttúru Íslands.
Gunnar Haukur Kristinsson, fyrrverandi forstjóri Landmælinga ÍslandsEydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Náttúrufræðistofnunar og fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Árni Einarsson, fyrrverandi forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn
Gunnar Haukur Kristinsson, fyrrverandi forstjóri Landmælinga Íslands, Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Náttúrufræðistofnunar og fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Árni Einarsson, fyrrverandi forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Ljósm. Unnur Jökulsdóttir.