Fjölbreytt verkefni og framtíðarsýn
Náttúrufræðistofnun hefur mjög víðtækt hlutverk samkvæmt lögum nr. 54/2024, um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur. Þar kemur fram að stofnunin skuli sinna undirstöðurannsóknum á náttúru Íslands, safna og vinna landfræðilegar grunnupplýsingar og reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn. Í lögunum er jafnframt fjallað ítarlega um verkefni og starfsemi stofnunarinnar og er ljóst að verkefnin verða bæði fjölmörg og krefjandi á komandi árum.
Til að mæta þessum áskorunum þarf að endurskoða aðferðir, skilgreina betur verkefni og innleiða nýja tækni og lausnir til að ná markmiðum. Stefnumótunarvinna nýrrar stofnunar er þegar hafin og hefur allt starfsfólk hefur komið að þeirri vinnu. Í kjölfarið var sett fram ný framtíðarsýn sem lýsir vel þeim metnaði sem stofnunin hefur að leiðarljósi:
Náttúrufræðistofnun er í fremstu röð sem ábyrg vísinda- og fræðastofnun, þar sem vöktun og rannsóknir á náttúru Íslands og áreiðanlegar landupplýsingar skapa grundvöll þekkingar í þágu samfélagsins.
Með þessari framtíðarsýn er lögð áhersla á að stofnunin sé vísindastofnun þar sem þekking á íslenskri náttúru er leiðarljósið. Þessum markmiðum verður náð með því að vinna af fagmennsku, leggja áherslu á samvinnu og tryggja gott aðgengi að áreiðanlegum gögnum.
Unnið verður að mótun rannsóknaráætlana fyrir helstu verkefni stofnunarinnar. Þannig má tryggja enn frekar að nauðsynleg þekking á náttúru Íslands sé ávallt til staðar, s.s. við ákvarðanatöku í umhverfis- og skipulagsmálum. Þá verður áhersla lögð á miðlun gagna og góðu samskipti við almenning, fagfólk og nærsamfélag, enda skiptir slíkt samráð sköpum þegar unnið er að sameiginlegum verðmætum náttúrunnar.
Horft um öxl
Á árinu 2024 voru unnin mörg fjölbreytt og mikilvæg verkefni hjá þeim stofnunum sem nú mynda Náttúrufræðistofnun. Hjá RAMÝ lauk Árni Einarsson störfum sem forstöðumaður í febrúar vegna aldurs eftir áratugalangt og farsælt starf. Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands tók við stjórn stöðvarinnar en Árni hélt þó áfram í hlutastarfi og gegndi áfram mikilvægu hlutverki, enda með dýrmæta reynslu og hálfrar aldar þekkingu á málefnum stöðvarinnar og náttúru Mývatns. Hefðbundin rannsóknaverkefni voru unnin hjá RAMÝ á árinu en tveir sérstakir viðburðir stóðu upp úr: Í júní var haldið upp á 50 ára afmæli stöðvarinnar og í september var haldin ráðstefna um Mývatns- og Laxárrannsóknir og vöktun síðustu hálfrar aldar. Báðir viðburðirnir voru vel sóttir og verkefnum stöðvarinnar, sem og samstarfi við fjölmarga aðila, gerð góð skil. Skipulag ráðstefnunnar var í höndum Háskólans á Hólum og eiga skipuleggjendur þakkir skildar. Ljóst er að mikið hefur áunnist með víðtækri vöktun og rannsóknum á svæðinu síðustu áratugi og er um einstakar vistkerfisrannsóknir á heimsvísu að ræða og eru þekkingin og gögnin mikill styrkur fyrir sameinaða stofnun.