Fara í innihald

Kristinn Haukur Skarphéðinsson – minning

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun lést þann 16. nóvember 2024. Með fráfalli hans missti starfsfólk stofnunarinnar traustan félaga og íslenskt samfélag öflugan fræðimann og ötulan talsmann náttúruverndar.
Kristinn Haukur hóf störf hjá Náttúrufræðistofnun Íslands árið 1976, samhliða námi í líffræði við Háskóla Íslands. Hann lauk meistaraprófi í dýravistfræði í Bandaríkjunum og í framhaldinu starfaði hann samfellt á stofnuninni frá árinu 1993 til æviloka. Hann vann fyrst sem sérfræðingur og síðar sem yfirmaður fagsviðs dýrafræði og stýrði ýmsum lykilrannsóknum.
Fuglar voru Kristni Hauki hugleiknir. Hann skráði og kortlagði varpútbreiðslu íslenskra fugla, skilgreindi mikilvæg fuglasvæði og verndargildi þeirra, og mat fuglastofna á válista. Hann leiddi um árabil rannsóknir á íslenska hafarnarstofninum og var þekktur langt út fyrir landsteina sem arnafræðingur í fremstu röð. Ástríða hans fyrir viðfangsefninu var mikil og þekkingin einstök; árlega heimsótti hann öll arnaóðul landsins, hann þekkti óðalsfuglana persónulega — hafði oftar en ekki merkt þá sem unga í hreiðri einhverjum árum áður — gat rakið ævisögu þessara einstaklinga og líka afkomenda þeirra er kynslóð tók við af kynslóð í samfélagi arnanna. Allar þessar upplýsingar voru skráðar niður, en Kristinn Haukur lagði þær líka á minnið og á góðum stundum gat hann þulið þær utan að. Meistaraverkefni Kristins Hauks á sínum tíma fjallaði um hrafna og hann var oft fenginn af fjölmiðlum til að ræða um líf og hegðun hrafna og vægi tegundarinnar í þjóðtrú Íslendinga. Á síðustu áratugum hafa hrafnar numið land á höfuðborgarsvæðinu og þessir borgarhrafnar byggja sér laupa bæði í trjám og á mannvirkjum. Kristinn Haukur skráði landnám hrafna í borginni og hvert vor hélt hann út á „mörkina“ þessara erinda, jafnvel vorið 2024 — þorrinn krafta vegna erfiðra veikinda — fór hann til fundar við þessa vini sína.
Kristinn Haukur deildi þekkingu sinni á fræðunum af örlæti, bæði í ræðu og riti, og eftir hann liggja fjölmargar greinar og bókakaflar. Hann var eftirsóttur fyrirlesari sem miðlaði jafnt til sérfræðinga sem almennings með skýrum og aðgengilegum frásögnum. Nýtt starfsfólk á Náttúrufræðistofnun naut leiðsagnar hans, enda fór hann aldrei í manngreiningarálit og var ómetanleg fyrirmynd í samstarfi og fræðslu. Kristinn Haukur var afburðagreindur með víðtæka þekkingu á ýmsum sviðum. Hann naut þess að miðla, hvort sem það var á kaffistofunni eða á skipulögðum viðburðum. Með skemmtilegum og lifandi frásögnum, fullum af húmor og innsæi, átti hann auðvelt með að heilla áheyrendur. 
Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar kveður kæran félaga með djúpri virðingu og söknuði.
Mynd af Kristni Hauk Kristinn Haukur við arnamerkingar í júlí 2022.Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.