Náttúrufræðistofnun varðveitir milljónir sýna og eintaka af tegundum lífvera, steingervingum, bergi, steindum, seti og borkjörnum í vísindasöfnum. Safnkosturinn hefur bæði vísindalegt og menningarsögulegt gildi en margir gripanna eru sjaldgæfir eða jafnvel horfnir úr íslenskri náttúru. Skiptist hann í þrjá meginhluta: jarðfræðisafn, plöntu- og sveppasafn og dýrasafn.
Jarðfræðisafn
Steinasafn
Steinasafninu er ætlað að vera viðmiðunarsafn allra þekktra íslenskra steinda og bergtegunda úr mismunandi jarðmyndunum. Við lok árs hafði safnið að geyma tæplega 29.000 skráð sýni, þar af 6.500 steindasýni og um 22.500 bergsýni. Steinasafnið er undirstaða flestra rannsókna á íslenskum steintegundum því þar er að finna góð sýni sem oft eru ekki aðgengileg í náttúrunni eða verða ekki fengin án verulegs kostnaðar. Að auki er steinasafnið mikilvæg forsenda þess að hægt sé að útvega sýni til sýninga eða kennslu með stuttum fyrirvara en á hverju ári eru nokkrir tugir sýna lánaðir til rannsókna eða á sérsýningar. Árið 2024 stóðu yfir viðgerðir á útveggjum í steinaskála. Færa þurfti safngripi frá útveggjunum og einangra safnkostinn með plastveggjum meðan á þessu stóð. Almenn umsýsla, skráningar og skipulagning safnsins bíður því til ársins 2025. Greint er frá rannsóknum tengdum steinasafninu undir kaflanum „Berg og steindir”. Steingervingasafn
Á Náttúrufræðistofnun eru varðveitt eintök steingervinga sem hafa fundist í jarðlögum landsins. Rannsóknir á steingervingum veita mikilvægar upplýsingar um fornvistkerfi og gera kleift að meta umhverfisaðstæður á þeim tíma jarðsögunnar þegar steingervingalögin mynduðust, þar á meðal fornloftslag. Í steingervingasafni stofnunarinnar eru skráð og varðveitt tæplega 7.500 eintök steingervinga úr jarðlögum frá flestum þekktum fundarstöðum á landinu, sem nýtast til margvíslegra rannsókna og greininga. Að auki eru þar varðveitt tæplega 1.800 erlend eintök. Engin vinna fór fram í steingervingasafninu á árinu þar sem enginn steingervingafræðingur er starfandi á stofnuninni. Borkjarnasafn
Náttúrufræðistofnun hefur það hlutverk að varðveita borkjarna sem falla til við jarðboranir víða um land við framkvæmdir eða í rannsóknaskyni. Borkjarnar gera jarðfræðingum mögulegt að skoða þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar og veita mikilvægar upplýsingar um gerð og uppbyggingu berggrunnsins á viðkomandi svæði. Borkjarnasafn stofnunarinnar er varðveitt á Breiðdalsvík og er starfrækt í nánu samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Safnið geymir samkvæmt nýjustu útreikningum um 100 kílómetra af borkjörnum auk borsvarfs úr borholum sem samtals eru yfir 470 km að lengd. Telur gagnagrunnur safnsins nú tæplega 11 þúsund kassa af borkjörnum úr um 1.800 borholum, sem og um 5.000 bakka af borsvarfi úr um 2.300 borholum. Í safninu er einnig talsverður fjöldi sýna sem tekin hafa verið úr borkjörnum og varðveitt aðskilin frá meginhluta kjarnanna.
Reglubundin verkefni, svo sem móttaka og skráning nýrra borkjarna og aðstoð við rannsakendur sem vilja nálgast sýni úr safnkostinum, fóru fram með hefðbundnum hætti. Rannsakendur nýttu sér borkjarna úr 32 borholum á árinu; tekin voru alls 22 sýni úr 4 borkjörnum og 30 kjarnar nýttir í heildstæða greiningu. Kjarni úr fjórum borholum er auk þess í láni hjá jarðvísindadeild Háskóla Íslands og nýttur við kennslu í námskeiðum um jarðskorpuhreyfingar. Borkjarnar voru einnig á meðal viðfangsefna ástralskar listakonu, sem sótti safnið og Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík heim á árinu og dvaldi þar við listsköpun.
Árið 2024 var áhersla lögð á yfirferð og endurskipulagningu borsvarfs í safninu. Í árslok 2023 voru settar upp hillur undir svarfið og fór stór hluti vinnu ársins 2024 í að yfirfara svarfbakka, leiðrétta skráningu þeirra í gagnagrunn og raða þeim skipulega eftir uppruna í nýjar hillur. Hillurnar eru nú fullar og rúma um 3.000 bakka af svarfi.
Á árinu var einni hafist handa við kerfisbundna ljósmyndun safnkostsins. Ný ljósmyndaaðstaða á safninu var nýtt til að mynda innihald um 1.700 borkjarnakassa, eða 16% safnkostsins. Samhliða ljósmynduninni var unnið að þróun á stafrænum innviðum til að setja myndirnar í gagnagrunn, miðla þeim á vef og tengja við jarðfræðikortasjá svo hægt sé að skoða myndir af borkjörnum beint í gegnum vef stofnunarinnar. Vinna við bakenda þessara innviða var langt komin í árslok og verður lokið við tenginguna á árinu 2025.
Á árinu tók Náttúrufræðistofnun við safni skyggna og ljósmynda af borkjörnum frá Orkustofnun. Safnið var skannað og er nú varðveitt rafrænt í ljósmyndasafni stofnunarinnar.
Í ársbyrjun var lokið við tengingu gagna um borkjarnahluta borkjarnasafnsins við EPOS (European Plate Observing System), samevrópska gagnaþjónustu sem miðlar mikilvægum jarðvísindagögnum og þjónustum um álfuna. Tengingin verður þróuð áfram á komandi árum.
Framkvæmdir Fjarðabyggðar á húsnæði borkjarnasafnsins héldu áfram á árinu 2024. Lokið var við frágang á skrifstofu og starfsmannaaðstöðu og hún tekin í gagnið.
Mynd úr borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar á Breiðdalsvík. Ljósm. María Helga Guðmundsdóttir.