Fara í innihald
Náttúrufræðistofnun varðveitir milljónir sýna og eintaka af tegundum lífvera, steingervingum, bergi, steindum, seti og borkjörnum í vísindasöfnum. Safnkosturinn hefur bæði vísindalegt og menningarsögulegt gildi en margir gripanna eru sjaldgæfir eða jafnvel horfnir úr íslenskri náttúru. Skiptist hann í þrjá meginhluta: jarðfræðisafn, plöntu- og sveppasafn og dýrasafn.

Jarðfræðisafn

Steinasafn

Steinasafninu er ætlað að vera viðmiðunarsafn allra þekktra íslenskra steinda og bergtegunda úr mismunandi jarðmyndunum. Við lok árs hafði safnið að geyma tæplega 29.000 skráð sýni, þar af 6.500 steindasýni og um 22.500 bergsýni. Steinasafnið er undirstaða flestra rannsókna á íslenskum steintegundum því þar er að finna góð sýni sem oft eru ekki aðgengileg í náttúrunni eða verða ekki fengin án verulegs kostnaðar. Að auki er steinasafnið mikilvæg forsenda þess að hægt sé að útvega sýni til sýninga eða kennslu með stuttum fyrirvara en á hverju ári eru nokkrir tugir sýna lánaðir til rannsókna eða á sérsýningar. Árið 2024 stóðu yfir viðgerðir á útveggjum í steinaskála. Færa þurfti safngripi frá útveggjunum og einangra safnkostinn með plastveggjum meðan á þessu stóð. Almenn umsýsla, skráningar og skipulagning safnsins bíður því til ársins 2025. Greint er frá rannsóknum tengdum steinasafninu undir kaflanum „Berg og steindir”.

Steingervingasafn

Á Náttúrufræðistofnun eru varðveitt eintök steingervinga sem hafa fundist í jarðlögum landsins. Rannsóknir á steingervingum veita mikilvægar upplýsingar um fornvistkerfi og gera kleift að meta umhverfisaðstæður á þeim tíma jarðsögunnar þegar steingervingalögin mynduðust, þar á meðal fornloftslag. Í steingervingasafni stofnunarinnar eru skráð og varðveitt tæplega 7.500 eintök steingervinga úr jarðlögum frá flestum þekktum fundarstöðum á landinu, sem nýtast til margvíslegra rannsókna og greininga. Að auki eru þar varðveitt tæplega 1.800 erlend eintök. Engin vinna fór fram í steingervingasafninu á árinu þar sem enginn steingervingafræðingur er starfandi á stofnuninni.

Borkjarnasafn

Náttúrufræðistofnun hefur það hlutverk að varðveita borkjarna sem falla til við jarðboranir víða um land við framkvæmdir eða í rannsóknaskyni. Borkjarnar gera jarðfræðingum mögulegt að skoða þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar og veita mikilvægar upplýsingar um gerð og uppbyggingu berggrunnsins á viðkomandi svæði.
Borkjarnasafn stofnunarinnar er varðveitt á Breiðdalsvík og er starfrækt í nánu samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Safnið geymir samkvæmt nýjustu útreikningum um 100 kílómetra af borkjörnum auk borsvarfs úr borholum sem samtals eru yfir 470 km að lengd. Telur gagnagrunnur safnsins nú tæplega 11 þúsund kassa af borkjörnum úr um 1.800 borholum, sem og um 5.000 bakka af borsvarfi úr um 2.300 borholum. Í safninu er einnig talsverður fjöldi sýna sem tekin hafa verið úr borkjörnum og varðveitt aðskilin frá meginhluta kjarnanna.
Reglubundin verkefni, svo sem móttaka og skráning nýrra borkjarna og aðstoð við rannsakendur sem vilja nálgast sýni úr safnkostinum, fóru fram með hefðbundnum hætti. Rannsakendur nýttu sér borkjarna úr 32 borholum á árinu; tekin voru alls 22 sýni úr 4 borkjörnum og 30 kjarnar nýttir í heildstæða greiningu. Kjarni úr fjórum borholum er auk þess í láni hjá jarðvísindadeild Háskóla Íslands og nýttur við kennslu í námskeiðum um jarðskorpuhreyfingar. Borkjarnar voru einnig á meðal viðfangsefna ástralskar listakonu, sem sótti safnið og Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík heim á árinu og dvaldi þar við listsköpun.
Árið 2024 var áhersla lögð á yfirferð og endurskipulagningu borsvarfs í safninu. Í árslok 2023 voru settar upp hillur undir svarfið og fór stór hluti vinnu ársins 2024 í að yfirfara svarfbakka, leiðrétta skráningu þeirra í gagnagrunn og raða þeim skipulega eftir uppruna í nýjar hillur. Hillurnar eru nú fullar og rúma um 3.000 bakka af svarfi.
Á árinu var einni hafist handa við kerfisbundna ljósmyndun safnkostsins. Ný ljósmyndaaðstaða á safninu var nýtt til að mynda innihald um 1.700 borkjarnakassa, eða 16% safnkostsins. Samhliða ljósmynduninni var unnið að þróun á stafrænum innviðum til að setja myndirnar í gagnagrunn, miðla þeim á vef og tengja við jarðfræðikortasjá svo hægt sé að skoða myndir af borkjörnum beint í gegnum vef stofnunarinnar. Vinna við bakenda þessara innviða var langt komin í árslok og verður lokið við tenginguna á árinu 2025.
Á árinu tók Náttúrufræðistofnun við safni skyggna og ljósmynda af borkjörnum frá Orkustofnun. Safnið var skannað og er nú varðveitt rafrænt í ljósmyndasafni stofnunarinnar.
Í ársbyrjun var lokið við tengingu gagna um borkjarnahluta borkjarnasafnsins við EPOS (European Plate Observing System), samevrópska gagnaþjónustu sem miðlar mikilvægum jarðvísindagögnum og þjónustum um álfuna. Tengingin verður þróuð áfram á komandi árum.
Framkvæmdir Fjarðabyggðar á húsnæði borkjarnasafnsins héldu áfram á árinu 2024. Lokið var við frágang á skrifstofu og starfsmannaaðstöðu og hún tekin í gagnið.
Mynd úr borkjarnasafni NáttúrufræðistofnunarMynd úr borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar á Breiðdalsvík. Ljósm. María Helga Guðmundsdóttir.

Plöntu- og sveppasafn

Í plöntu- og sveppasöfnum Náttúrufræðistofnunar eru varðveitt um 200 þúsund eintök sem skiptast eftir lífveruhópum í safn æðplantna, mosa, fléttna, sveppa og þörunga. Tilgangur safnanna er að tryggja varðveislu eintaka af öllum íslenskum plöntu- og sveppategundum til að sýna breytileika þeirra og útbreiðslu.
Æðplöntu- og mosasafnið er að mestu varðveitt í safnaskála stofnunarinnar í Garðabæ en megnið af sveppasafninu (að meðtöldum fléttum), ásamt hluta æðplöntusafnsins, er varðveitt á starfsstöð stofnunarinnar á Akureyri.
Á árinu 2024 var unnið áfram að því að mynda allt plöntusafnið í Garðabæ og koma því á stafrænt form. Teknar voru ljósmyndir af plöntusýnum í hárri upplausn, sem verða skráðar í gagnagrunn og gerðar aðgengilegar, meðal annars í GBIF. Stafrænt aðgengi að safninu dregur úr álagi á sýnin og gerir vísindamönnum um allan heim kleift að rannsaka plöntueintök stofnunarinnar án þess að þurfa að ferðast til Íslands.
Nokkur sýni af nýjum sveppategundum bættust við sveppasafnið á árinu, sem stuðla að frekari þekkingu á fungu landsins.
Mynd af hvítri bláklukkuHvít bláklukka. Ljósm. Olga Kolbrún Vilmundardóttir.

Dýrasöfn

Dýrasöfn Náttúrufræðistofnunar geyma yfir 300 þúsund tegundasýni, sem nýtast meðal annars til rannsókna á breytileika tegunda, flokkun og útbreiðslu. Eldri safneintök veita mikilvægar upplýsingar um þróun lífríkis og áhrif umhverfisbreytinga, meðal annars með samanburði á efnamengun í núlifandi dýrum. Safnið veitir einnig aðgang að sjaldgæfum sýnum og lánar eintök til rannsókna og sýninga samkvæmt reglum stofnunarinnar.

Hryggdýrasafn

Í fuglasafninu eru varðveittir um 14.500 fuglshamir, auk uppstoppaðra gripa, beina, eggja og hreiðra. Á árinu 2024 var unnið fjölmörgum verkefnum tengdum söfnun, skráningu og varðveislu slíkra gripa.
Unnið var að skráningu dýralífs í Breiðafjarðareyjum, meðal annars með því að skrá varpfugla, selalátur og útbreiðslu spendýra, þ.e. refs, minks og hagamúsar. Hreinsaðar voru 42 fuglabeinagreindur og gengið frá þeim til varðveislu. Unnir voru 23 hamir í hamasafn stofnunarinnar og átta fuglar stoppaðir upp fyrir safnkostinn. Blásið var úr 30 eggjum sem fóru í eggjasafnið, þar á meðal eggjum frá örnum og fálkum. Þá voru 15 fuglshamir og tvær tófur hreinsaðar og saltaðar og sendar erlendis í skiptum fyrir rjúpur frá öðrum löndum.
Áfram var unnið að skráningu eldri sýningarmuna, sem og skráningu gripa sem bárust frá Umhverfisstofnun vegna CITES-samningsins. Um var að ræða muni sem höfðu verið haldlagðir af Tollinum á Keflavíkurflugvelli og um borð í Norrænu. Einnig var veitt aðstoð við greiningu fuglabeinagrinda í samstarfi við fornleifafræðinga.
Gerð var úttekt á ástandi fugla sem fundust dauðir víða um land; krufðir voru 36 svartfuglar, 19 máfar og 22 auðnutittlingar. Einnig var lokið við að hreinsa og ganga frá tveimur hvalabeinagrindum í safnaskála.
Í september var hvítabjörn felldur á Höfðaströnd í Jökulfjörðum. Náttúrufræðistofnun tók á móti dýrinu í samstarfi við Hafrannsóknastofnun til rannsókna og varðveislu og voru sýni tekin úr honum í samstarfi við dýrafræðing frá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Í ljós kom að um var að ræða karldýr, líklega á öðru ári.
Á árinu voru öll eintök af leðurblökum í safninu tekin saman, auk tveggja nýrra eintaka sem bættust við, með það að markmiði að taka lífsýni úr þeim. Sýnin verða send í DNA-greiningu til tegundagreiningar.
Að auki var brugðist við fjölda fyrirspurna í síma og tölvupósti og tekið á móti gestum.

Sjávarhryggleysingjar

Í árslok 2024 voru í gagnagrunni sjávarhryggleysingja tiltækar upplýsingar um ýmsa umhverfisþætti á 19.551 sýnatökustað botnlægra sjávardýra; á árinu 2024 bættust því við gögn um 833 stöðvar. Heildarfjöldi skráðra tegunda og stærri flokkunarheilda á þessum stöðum var 164.945, þar af voru 12.030 skráðar á árinu.
Í árslok 2024 var skráður fjöldi sjávardýrategunda í grunninum 3.971, þar af 3.606 tegundir hryggleysingja og 365 fiskategundir. Af þessum fjölda voru 494 tegundir sjávarhryggleysingja nýskráðar á árinu, einkum úr eldri rannsóknum á grunnsævi (<200 m).
Alþjóðlegi gagnabankinn WoRMS er nýttur til að staðla skráningu latneskra vísindaheita, þannig er hver tegund skráð með viðurkennt vísindaheiti (accepted names) ásamt samheitum (synonyms) eða misheitum (homonyms) sömu tegundar. Sama gildir um stærri flokkunarheildir (fylkingar, flokkar, ættbálkar, ættir og ættkvíslir), auk þess sem samsvarandi íslenskar nafngiftir eru skráðar. Í árslok 2024 voru slíkar upplýsingar tiltækar fyrir 8.353 heiti. Þar af voru 519 heiti nýskráð á árinu, auk þess sem 114 áður skráð nöfn voru endurskoðuð og leiðrétt.
Mynd af rákönd í FossvogsdalRákönd í Fossvogsdal. Ljósm. Erling Ólafsson.

Smádýrasafn

Smádýrasafn Náttúrufræðistofnunar geymir um 800.000 eintök landhryggleysingja. Markmið safnsins er að varðveita eintök af öllum tegundum sem hafa fundist á Íslandi, bæði þeim sem eiga hér náttúruleg heimkynni, þeim sem berast til landsins af sjálfsdáðum og þeim sem slæðast hingað með fólki og varningi. Jafnframt er lögð áhersla á að varðveita eintök frá sem flestum svæðum landsins til að staðfesta fundarstaði og auka þekkingu á útbreiðslu, en útbreiðslumynstur eru mismunandi eftir lífsháttum og þörfum hverrar og einnar tegundar.
Vinna við smádýrasafnið er stöðug og skráning nýrra eintaka á sér stað nær daglega. Eintökin eru afrakstur skilgreindra rannsóknaverkefna en einnig safnast sýni af tegundum sem skordýrafræðingar stofnunarinnar rekast á við störf sín eða berast frá einstaklingum sem vilja fá greiningu á dýrum.
Á árinu 2024 bárust stofnuninni 463 fyrirspurnir og beiðnir um smádýragreiningar frá einstaklingum og fyrirtækjum, sem er svipaður fjöldi og árið á undan. Sýni eru greind niður á tegund og niðurstöður sendar í tölvupósti eða veittar símleiðis, ásamt upplýsingum um lifnaðarhætti viðkomandi tegundar og leiðbeiningum um viðbrögð ef þess er þörf. Aukin samskipti um smádýragreiningar fara nú fram á samfélagmiðlum og í skilaboðaforritum. Slík mál eru afgreidd eftir getu en eru ekki skráð með sama hætti og beiðnir sem berast stofnuninni samkvæmt skilgreindum ferlum. Þjónustan veitir mikilvægar upplýsingar um útbreiðslu tegunda, nýjar tegundir á landinu og tegundir sem berast til landsins með varningi.
Smádýrafræðin er síbreytileg og reglulega á sér stað endurskoðun á tegundaskilgreiningum og skyldleikatengslum. Stundum koma í ljós rangfærslur og röng skilgreining tegunda, eða að tegundir eru sameinaðar eða skipt upp í fleiri tegundir. Af þessum sökum er brýnt að varðveita eintök í vísindasöfnum, þar sem þau eru skráð í gagnagrunna með öllum tilheyrandi upplýsingum og aðgengileg til frekari rannsókna og endurskoðunar.