Fornar strandlínur á Íslandi
Á árinu 2024 hófst nýtt verkefni um kortlagningu fornra strandlína á Íslandi, með styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Verkefnið er unnið í samstarfi sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Fornar strandlínur veita mikilvægar upplýsingar um hörfun jökla í lok síðasta jökulskeiðs og við upphaf nútíma, ásamt breytingum á sjávarstöðu í kjölfarið. Tilgangur verkefnisins er að kortleggja fornar strandlínur á Íslandi, meta ástand þeirra og verndargildi í samræmi við viðmið laga um náttúruvernd. Með því verður til heildstætt yfirlit um útbreiðslu þessara jarðmyndana og hvaða svæði eru sérstaklega mikilvæg til verndar fyrir jarðvísindi. Slíkt yfirlit hefur ekki verið til áður.
Á árinu var safnað saman upplýsingum um fornar strandlínur af jarðfræðikortum og úr vísindagreinum, gögnin voru samræmd og hnituð inn í landupplýsingakerfi. Mikill munur er á gæðum fyrirliggjandi gagna og var notast við loftmyndir, gervitunglamyndir og ArcticDEM-hæðarlíkan til að fá sem mesta nákvæmni í staðsetningu og útbreiðslu strandlína. Viðmiðunarkvarði kortlagningar er 1:25 000. Farnar voru fjórar vettvangsferðir á árinu til að safna gögnum á svæðum þar sem upplýsingar voru takmarkaðar. Þar voru strandmyndanir GPS-mældar, ljósmyndaðar og verndargildi þeirra metið.
Niðurstöður verkefnisins munu gagnast breiðum hópi sérfræðinga úr ýmsum fræðagreinum, styðja við stjórnsýslu varðandi vernd og nýtingu náttúruauðlinda, nýtast við skipulagsmál sveitarfélaga og veita framkvæmdaraðilum mikilvægar upplýsingar um efnistökusvæði við gerð matsáætlana. Jafnframt mun kortlagningin hafa mikið fræðslugildi fyrir almenning og menntakerfið og styrkja umræðu um áhrif loftslagsbreytinga á strandsvæði.
Áætlað er að kortlagningu fornra strandlína ljúki árið 2026. Niðurstöðurnar verða birtar í kortasjá Náttúrufræðistofnunar og landupplýsingagögn verða gerð aðgengileg fyrir alla sem hafa áhuga eða not fyrir þau.
Vísindamenn við kortlagningu fornra strandlína á Íslandi. Ljósm. Skafti Brynjólfsson.