Fara í innihald

Grunngerð landupplýsinga

Lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar voru samþykkt á Alþingi árið 2011. Markmið laganna er að byggja upp og tryggja aðgengi að stafrænum landupplýsingum á vegum stjórnvalda. Lögin tengjast INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins sem var sett fram til að bæta aðgengi að landupplýsingum í opinberri eigu í Evrópu. Í samræmi við tilskipunina kveða íslensku lögin á um að grunngerð landupplýsinga skuli samanstanda af tækni, stefnum, stöðlum og mannauði sem nauðsynlegur er til söfnunar, vinnslu, miðlunar og almennrar notkunar stafrænna landupplýsinga.

Landupplýsingagátt

Kortagluggi grunngerðarverkefnisins er svonefnd Landupplýsingagátt, sem geymir opinber landupplýsingagögn frá fjölmörgum aðilum, þar á meðal ríkisstofnunum, sveitarfélögum og opinberum fyrirtækjum, og gerir þau aðgengileg á einum stað. Úr henni eru tenglar á Lýsigagnagátt, þar sem finna má upplýsingar um gögnin sjálf og gæði þeirra, auk ítarefnis eins og tengla á opnar skoðunar- og niðurhalsþjónustur, kortasjár sem tengjast viðkomandi gögnum, skýrslur og fleira.
Landupplýsingagáttin byggir á kortasjárkerfi sem skrifað hefur verið innan Náttúrufræðistofnunar og er það í stöðugri þróun; meðal annars er unnið að því að aðlaga kerfið að gögnum sem upphaflega voru ekki ætluð sem landupplýsingar, til dæmis px-vef Hagstofu Íslands sem birtir tölfræðigögn. Kerfið byggir á opnum hugbúnaðarsöfnum. Ýmsar stofnanir og ráðuneyti hafa nýtt sér kortasjárkerfið til birtingar eigin gagna, svo sem Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Byggðastofnun og forsætisráðuneytið.
Á árinu 2024 var unnið að því að bæta nýjum gögnum við Landupplýsingagáttina og í árslok geymdi hún upplýsingar um alls 352 gagnalög frá 31 stofnun. Í nóvember var hafist handa við hönnun á nýju útliti og flokkun á sjánni undir vinnuheitinu „Kortagluggi Íslands“. Í nýjum Kortaglugga verður lögð áhersla á einfalda og aðgengilega flokkun gagna og orðalag á mannamáli til að höfða til víðari markhóps.
Frá því að grunngerðarverkefnið var sett á laggirnar með lagasetningunni hafa verið haldnir reglubundnir fundir með stofnunum sem tengjast grunngerð landupplýsinga hér á landi. Fundirnir eru haldnir tvisvar á ári; fyrri fundur ársins 2024 fór fram í mars og sá síðari í október. Markmið fundanna er að efla tengsl stofnana sem vinna með landupplýsingar, stuðla að samlegðaráhrifum, miðla reynslu og þekkingu og þannig styðja við samræmingu í landupplýsingaverkefnum svo gögn stofnana nýtist sem flestum. Fundirnir eru með óformlegu sniði og jafnan vel sóttir. Þátttakendur eru tengiliðir frá stofnunum sem vinna með landupplýsingar.

Rammaáætlun

Náttúrufræðistofnun tekur þátt í Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Stofnunin veitir sérfræðiaðstoð á sviði landupplýsingakerfa, gerir staðbundnar greiningar og sér um kortagerð fyrir vinnuhópa áætlunarinnar, ráðuneyti og stjórn verkefnisins.
Sem hluti af verkefninu hafa verið þróaðar þrjár kortasjár. Sú fyrsta er aðgangsstýrð kortasjá fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og vinnuhópa áætlunarinnar sem inniheldur yfir 136 landfræðilegar þekjur. Önnur er opin kortasjá sem veitir skýrar og aðgengilegar upplýsingar um valkosti í vindorku. Sú þriðja er þrívíddarlíkan sem líkir eftir áhrifum veðurs, dagsbirtu og skyggnis fyrir vindorkuver sem eru til mats í 5. áfanga verkefnisins.

Umbrotasjá

Í kjölfar eldsumbrota á Reykjanesskaga á síðustu árum hefur Umbrotasjá Náttúrufræðistofnunar orðið mikilvægur vettvangur til að miðla upplýsingum úr ýmsum áttum um þróun atburða á gosstöðvunum. Í Umbrotasjá eru birtar nýjustu loftmyndirnar, hæðarlíkön og kort, unnin út frá myndum teknum úr flugvél eða með dróna, auk annarra gagna sem varpa ljósi á hraunrennsli, landslagsbreytingar og þróun gosstöðva.
Neyðaraðilar, framkvæmdaaðilar og vísindamenn fá aðgang að frumgögnum nokkrum klukkustundum eftir að mælingar eru gerðar. Fyrir almenning eru afurðirnar gerðar aðgengilegar í gegnum Umbrotasjá og Sketchfab, þar sem birt eru þrívíddarlíkön af gossvæðum og hraunum. Með þessu fær almenningur betri innsýn í jarðfræðilega ferla sem geta á stuttum tíma haft veruleg áhrif á bæði náttúru og samfélag. 

Loftmyndasjá

Loftmyndasjá er kortasjá með sögulegum loftmyndum úr safni Náttúrufræðistofnunar. Hún var formlega opnuð árið 2023 og eru myndirnar einnig til niðurhals, án gjaldtöku. Með loftmyndasjánni má greina breytingar á landslagi og þéttbýli, svo sem hopun jökla, hraunflæði eða útbreiðslu gróðurs. Hún nýtist til kennslu, til dæmis til að sýna nemendum áhrif loftslagsbreytinga, sem og við rannsóknir, skipulagsvinnu og sögulega greiningu. Hún getur jafnframt nýst jarðeigendum til að sjá breytingar á landi sínu. Loftmyndasjáin býður þannig upp á innsýn í þróun landsins í tímans rás, bæði til fróðleiks og gagns.  
Á árinu voru skannaðar 50.255 myndir, bæði heilar ljósmyndafilmur og klipptar filmur, og nemur heildarfjöldi skannaðra mynda nú  76.784 myndum, sem samsvarar 99,9% af öllu safninu.  Af þeim hefur verið unnið með 54.169 myndir, nánar tiltekið:  
  • 30.546 myndaramma frá árunum 1973–2000 (allt landið) 
  • 10.099 myndaramma frá árunum 1945–1946 (AMS-serían, allt landið)  
  • 13.484 myndir frá árunum 1956–1961 (DMA-serían, 80% af landinu)  
  • 40 myndir frá árinu 1980 (Hexagon KH9-PC gervihnattasería, 1x1 m upplausn, 80% af landinu) 
Loftmyndasjáin var kynnt á ráðstefnu EGU (European Geosciences Union) sem haldin var í Vín í apríl 2024. Í tengslum við verkefnið var einnig sett upp þrívíddarlíkan af Surtsey sem þróað var sem tilraunaverkefni. 

Fjarkönnun

Fjarkönnun er aðferð til að afla gagna um yfirborð jarðar með mælingum úr lofti eða geimnum, til dæmis með drónum, flugvélum, gervitunglum eða öðrum fjarkönnunarbúnaði. Tækni á þessu sviði nýtist til vöktunar á náttúru, auðlindum og umhverfisbreytingum. Með fjarkönnun er hægt að greina breytingar á landi, sjó og í andrúmslofti, styðja við stefnumótun og miðla vísindalegum upplýsingum til samfélagsins.
Náttúrufræðistofnun nýtir fjarkönnun í fjölbreyttum verkefnum, meðal annars í gegnum Copernicus, sem veitir aðgang að umfangsmiklum gervihnattagögnum Evrópusambandsins ásamt loftmyndum, sem eru mikilvægur gagnagrunnur til kortlagningar og greiningar á breytingum á íslensku landslagi.Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar, ásamt flugmanni, áður en lagt var af stað í myndmælingaflugStarfsfólk Náttúrufræðistofnunar, ásamt flugmanni, áður en lagt var af stað í myndmælingaflug yfir Hamarsfjörð, Álftafjörð og Lón. Gögnin eru nýtt til gerðar þrívíddarlíkana af svæðinu. Ljósm. Magnús Atli Magnússon.

Copernicus

Náttúrufræðistofnun er fulltrúi Íslands í stýrihóp Copernicus-vöktunaráætlunar Evrópusambandsins sem hefur það hlutverk að fylgjast með stöðu umhverfisins á landi, sjó og andrúmslofti og stuðla um leið að bættu öryggi jarðarbúa. Copernicus er eitt umfangsmesta vöktunarverkefni sambandsins og er Ísland fullgildur aðili þess í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið.
Til að afla nauðsynlegra gagna rekur Copernicus nokkur gervitungl og veitir aðgang að upplýsingum frá þeim, auk annarra mælinga í gegnum fjölmargar vefþjónustur. Ísland hefur fullan aðgang að þessum þjónustum, sem veita upplýsingar um stöðu og þróun ýmissa umhverfisþátta, svo sem sjávar, andrúmslofts, náttúruvár, landnotkunar og loftslagsbreytinga. Öll gögn og þjónustur Copernicus eru gjaldfrjáls. 
Náttúrufræðistofnun tekur þátt í tveimur verkefnum á vegum Copernicus, FPCUP og CAMS NCP. FPCUP-verkefnið miðar að því að auka notkun og aðgengi að Copernicus-gögnum í Evrópu, meðal annars með fræðslu, þjálfun og þróun innviða fyrir betri nýtingu gervihnattaupplýsinga. CAMS NCP-verkefnið beinist að loftgæðum og samsetningu andrúmslofts og stuðlar að betra aðgengi og aukinni notkun Copernicus-gagna á Íslandi. 
Á vegum FPCUP-verkefnisins var Copernicus-áætlunin kynnt á Vísindavöku Rannís í lok september 2024, auk þess sem vinnustofur með um 60 þátttakendum voru haldnar dagana 1.–4. október. Þar fengu þátttakendur þjálfun í notkun gervihnattagagna sem tengjast landi, sjó og andrúmslofti. Vinnustofurnar hófust á kynningu sérfræðinga Evrópusambandsins á Copernicus-þjónustum en í kjölfarið voru kynnt dæmi um notkun gagna á Íslandi. Að lokum var fengu þátttakendur tækifæri til að vinna sjálfir með raunveruleg gögn og verkefni. Þátttaka var góð, bæði á stað- og fjarfundum. Á vegum CAMS NCP-verkefnisins var unnið að verkefni sem snýr að loftgæðum og loftgæðaspám sem má sjá í Loftgæðasjá. Framundan verður sérstök áhersla lögð á áframhaldandi þróun loftgæðakorts í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Loftmyndir

Í ársbyrjum 2024 voru undirritaðir samningar við fyrirtækin Meixner og Hexagon um öflun nýrra loftmynda af öllu Íslandi í kjölfar útboðs á vegum Ríkiskaupa og Landmælinga Íslands. Markmið verkefnisins er afla nákvæmra loftmynda í 25x25 cm upplausn fyrir landið allt og 10x10 cm upplausn á höfuðborgarsvæðinu og á stóru svæði í kringum Keflavíkurflugvöll, í þeim tilgangi að útbúa nákvæmt og heildstætt loftmyndakort af öllu landinu.
Myndirnar verða aðgengilegar öllum í gegnum kortasjár og vefþjónustur til notkunar í GIS-hugbúnaði. Notendur munu einnig getað halað myndum niður án endurgjalds.
Gert er ráð fyrir að myndatakan taki þrjú ár (2024–2026). Veðurskilyrði sumarið 2024 voru óhagstæð til myndatöku og náðist því aðeins að mynda um 2,5% landsins. Stefnt er að því að bæta það upp á síðari árum verkefnisins.
Loftmynd af Nesjavöllum og NesjavallavirkjunLoftmynd af Nesjavöllum og Nesjavallavirkjun. Ljósm. Náttúrufræðistofnun.

Örnefni

Örnefni eru sérnöfn yfir staði og fyrirbæri í landslagi, eins og bæi, fjöll og ár. Þau endurspegla oft landnotkun, náttúrufar og sögu þjóðarinnar og eru mikilvægur hluti menningararfsins. Skráning og varðveisla þeirra tryggir að þessi dýrmæta þekking glatist ekki.
Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með gagnagrunni yfir örnefni Íslands, ber ábyrgð á uppfærslu hans og viðheldur landupplýsingum um örnefni úr grunninum. Verkefnið er unnið í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er örnefnateymi stofnunarinnar í góðum samskiptum við sérfræðinga þar varðandi vafaatriði sem upp koma.
Örnefni eru staðsett í gagnagrunninum af starfsfólki stofnunarinnar en einnig fer fram mikil og ómetanleg vinna hjá fólki sem er búsett um allt land og hefur þekkingu á örnefnum í sínu umhverfi. Fólk með staðbundna þekkingu getur tekið þátt í verkefninu með því að fá sendar myndir til að teikna inn og afmarka örnefni eða með því að nota sérstakan örnefnaritil til að skrá örnefni beint inn í grunninn. Grunnheimildir fyrir skráningu örnefna eru örnefnalýsingar og eldri kort.
Í lok árs 2024 höfðu um 189 þúsund örnefni verið staðsett á landinu en á hverju ári eru staðsett á bilinu 10–15 þúsund örnefni í grunninn. Samtals voru gerðar rúmlega 50 þúsund leiðréttingar og nýskráningar. Örnefnagrunnurinn er gefinn út fjórum sinnum á ári til niðurhals en yfirlesin örnefni eru uppfærð vikulega í kortasjám og vefþjónustum stofnunarinnar.
Loftmynd úr HvalfjarðarsveitHorft yfir Glammastaðavatn og Eyrarvatn í Hvalfjarðarsveit. Í fjarska má sjá Hvalfjörð til vinstri, Akrafjall í miðju og Grunnafjörð til hægri. Ljósm. Guðni Hannesson.

Samgöngugrunnur

Verkefnið Samgöngunet er unnið í samstarfi við Vegagerðina og hefur það að markmiði að koma á fót heildstæðum samgöngugrunni fyrir Ísland. Gagnagrunnurinn mun nýtst meðal annars við leiðsögu, kortagerð og til umferðarstjórnunar. Hann mun innihalda alla vegi landsins með tengingum við flugvelli og hafnir en í náinni framtíð bætast við tengingar við göngu- og hjólastíga, auk reiðvega.
Samgöngunetið gerir mögulegt að miðla rauntímaupplýsingum um færð, umferð eða ástand vega beint til vegfarenda. Jafnframt fylgja gögnunum allar nauðsynlegar upplýsingar til leiðsögu mismunandi farartækja, eins og um hámarkshraða, yfirborð vegar, hæðartakmarkanir og aksturstefnur.
Verkefnið hefur staðið í tæp tvö ár og er ágætlega á veg komið. Stefnt er að því að megnið af gögnunum verði komið í grunninn í júlí 2025 þannig að unnt verði að hefja markvissar prófanir. Náttúrufræðistofnun vinnur náið með Vegagerðinni og sveitafélögum að uppbyggingu og viðhaldi gagnagrunnsins. Gert er ráð fyrir að sveitafélög viðhaldi þeim hluta gagnanna sem þau bera ábyrgð á, annað hvort með því að senda uppfærslur til Náttúrufræðistofnunar eða breyta gögnum sjálf í gegnum notendagátt. Markmiðið er að Samgöngunet verði ávallt uppfært þannig að leiðsögutæki fái upplýsingar um breytingar á vegkerfinu skömmu eftir að þær eiga sér stað.