Fjarkönnun
Fjarkönnun er aðferð til að afla gagna um yfirborð jarðar með mælingum úr lofti eða geimnum, til dæmis með drónum, flugvélum, gervitunglum eða öðrum fjarkönnunarbúnaði. Tækni á þessu sviði nýtist til vöktunar á náttúru, auðlindum og umhverfisbreytingum. Með fjarkönnun er hægt að greina breytingar á landi, sjó og í andrúmslofti, styðja við stefnumótun og miðla vísindalegum upplýsingum til samfélagsins.
Náttúrufræðistofnun nýtir fjarkönnun í fjölbreyttum verkefnum, meðal annars í gegnum Copernicus, sem veitir aðgang að umfangsmiklum gervihnattagögnum Evrópusambandsins ásamt loftmyndum, sem eru mikilvægur gagnagrunnur til kortlagningar og greiningar á breytingum á íslensku landslagi.
Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar, ásamt flugmanni, áður en lagt var af stað í myndmælingaflug yfir Hamarsfjörð, Álftafjörð og Lón. Gögnin eru nýtt til gerðar þrívíddarlíkana af svæðinu. Ljósm. Magnús Atli Magnússon. Copernicus
Náttúrufræðistofnun er fulltrúi Íslands í stýrihóp Copernicus-vöktunaráætlunar Evrópusambandsins sem hefur það hlutverk að fylgjast með stöðu umhverfisins á landi, sjó og andrúmslofti og stuðla um leið að bættu öryggi jarðarbúa. Copernicus er eitt umfangsmesta vöktunarverkefni sambandsins og er Ísland fullgildur aðili þess í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Til að afla nauðsynlegra gagna rekur Copernicus nokkur gervitungl og veitir aðgang að upplýsingum frá þeim, auk annarra mælinga í gegnum fjölmargar vefþjónustur. Ísland hefur fullan aðgang að þessum þjónustum, sem veita upplýsingar um stöðu og þróun ýmissa umhverfisþátta, svo sem sjávar, andrúmslofts, náttúruvár, landnotkunar og loftslagsbreytinga. Öll gögn og þjónustur Copernicus eru gjaldfrjáls.
Náttúrufræðistofnun tekur þátt í tveimur verkefnum á vegum Copernicus, FPCUP og CAMS NCP. FPCUP-verkefnið miðar að því að auka notkun og aðgengi að Copernicus-gögnum í Evrópu, meðal annars með fræðslu, þjálfun og þróun innviða fyrir betri nýtingu gervihnattaupplýsinga. CAMS NCP-verkefnið beinist að loftgæðum og samsetningu andrúmslofts og stuðlar að betra aðgengi og aukinni notkun Copernicus-gagna á Íslandi. Á vegum FPCUP-verkefnisins var Copernicus-áætlunin kynnt á Vísindavöku Rannís í lok september 2024, auk þess sem vinnustofur með um 60 þátttakendum voru haldnar dagana 1.–4. október. Þar fengu þátttakendur þjálfun í notkun gervihnattagagna sem tengjast landi, sjó og andrúmslofti. Vinnustofurnar hófust á kynningu sérfræðinga Evrópusambandsins á Copernicus-þjónustum en í kjölfarið voru kynnt dæmi um notkun gagna á Íslandi. Að lokum var fengu þátttakendur tækifæri til að vinna sjálfir með raunveruleg gögn og verkefni. Þátttaka var góð, bæði á stað- og fjarfundum. Á vegum CAMS NCP-verkefnisins var unnið að verkefni sem snýr að loftgæðum og loftgæðaspám sem má sjá í Loftgæðasjá. Framundan verður sérstök áhersla lögð á áframhaldandi þróun loftgæðakorts í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Landbúnaðarháskóla Íslands. Loftmyndir
Í ársbyrjum 2024 voru undirritaðir samningar við fyrirtækin Meixner og Hexagon um öflun nýrra loftmynda af öllu Íslandi í kjölfar útboðs á vegum Ríkiskaupa og Landmælinga Íslands. Markmið verkefnisins er afla nákvæmra loftmynda í 25x25 cm upplausn fyrir landið allt og 10x10 cm upplausn á höfuðborgarsvæðinu og á stóru svæði í kringum Keflavíkurflugvöll, í þeim tilgangi að útbúa nákvæmt og heildstætt loftmyndakort af öllu landinu.
Myndirnar verða aðgengilegar öllum í gegnum kortasjár og vefþjónustur til notkunar í GIS-hugbúnaði. Notendur munu einnig getað halað myndum niður án endurgjalds.
Gert er ráð fyrir að myndatakan taki þrjú ár (2024–2026). Veðurskilyrði sumarið 2024 voru óhagstæð til myndatöku og náðist því aðeins að mynda um 2,5% landsins. Stefnt er að því að bæta það upp á síðari árum verkefnisins.
Loftmynd af Nesjavöllum og Nesjavallavirkjun. Ljósm. Náttúrufræðistofnun.