Fara í innihald
Nákvæmar landmælingar eru ein af grunnstoðum samfélagsins og skipta lykilmáli í fjölmörgum verkefnum, allt frá skipulags- og framkvæmdaáætlunum til náttúruvöktunar og rannsókna. Náttúrufræðistofnun annast rekstur grunnmælikerfa landsins, þ.e. landshnitakerfis og landshæðarkerfis. Kerfin byggja á umfangsmiklum mælingum sem safnað hefur verið í gegnum langt tímabil og er þeim viðhaldið árlega með nýjum mælingum, ásamt rekstri síritandi jarðstöðva sem tilheyra ICECORS-kerfinu.

Jarðstöðvakerfið (ICECORS)

Jarðstöðvakerfið ICECORS er landshnitakerfi sem samanstendur af 33 jarðstöðvum sem dreifast um landið með um 70–100 kílómetra millibili. Hver stöð samanstendur af síraritandi GNSS-tæki, loftneti og fjarskiptabúnaði. Hlutverk kerfisins er að bæta landmælingar, bæði við framkvæmdir og við vöktun náttúru og umhverfis. Á grundvelli mælikerfanna býður Náttúrufræðistofnun upp á leiðréttingaþjónustu án endurgjalds fyrir þá sem vinna að landmælingum og eykur hún verulega bæði nákvæmni og afköst í mælingavinnu.
Á árinu 2024 var unnið að endurnýjun búnaðar á nokkrum jarðstöðvum til að auka enn nákvæmni kerfisins. Þá var einnig veittur tímabundinn aðgangur að leiðréttingargögnum frá fjórum stöðvum á Reykjanesskaga í tengslum við eldsumbrotin þar. Þessar stöðvar nýtast bæði við rannsóknir og framkvæmdir á svæðinu.

Landhæðarkerfið

Náttúrufræðistofnun ber ábyrgð á uppbyggingu og viðhaldi sameiginlegs hæðarkerfis fyrir Ísland. Slíkt kerfi er forsenda áreiðanlegra hæðarmælinga og nýtist víða í samfélaginu, meðal annars við hönnun mannvirkja, skipulagsvinnu og rannsóknir á náttúruvá.
Á Íslandi skiptir nákvæmt hæðarkerfi sérstaklega miklu máli vegna jarðskorpuhreyfinga sem fylgja eldvirkni en ekki síður vegna áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem hækkandi sjávarstöðu og bráðnunar jökla. Með reglulegu viðhaldi og vöktun tryggir stofnunin að hæðargögn séu nákvæm, samræmd og aðgengileg öllum þeim sem á þurfa að halda.

Viðmiðunarpunktar

Viðmiðunarpunktar eru punktar með þekktum hnitum. Punktarnir eru 60x60 cm að stærð og annað hvort bræddir eða málaðir á fast yfirborð. Þar sem slíkt yfirborð er ekki fyrir hendi eru notaðar gúmmíhellur sem festar eru niður. Í sumum tilvikum eru einnig nýttir náttúrulegir punktar sem sjást vel úr lofti.
Í tengslum við útboð á loftmyndatöku var ákveðið að setja út viðmiðunarpunkta um allt land til að bæta nákvæmni loftmynda og annarra fjarkönnunargagna, svo sem gervitunglamynda. Í heildina verða um 600 viðmiðunarpunktar settir upp og árið 2024 voru 180 punktar mældir, aðallega á stöðum sem erfitt er að ná til. Alls hafa nú verið mældir 550 punktar og stefnt er að því að ljúka verkefninu sumarið 2025.