Fara í innihald
Kaflaskil - sagan

Yfirlit yfir sögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Við stofnun hinnar sameinuðu Náttúrufræðistofnunar 1. júlí 2024 sameinuðust þrjár rótgrónar og sérhæfðar stofnanir með mikilvægt hlutverk hver á sínu sviði: Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Saga þessara stofnana spannar áratugi og í hverri þeirra hefur byggst upp mikilvæg þekking, fagleg hefð og samfélagslegt hlutverk. Hér er í stuttu máli rakin saga hverrar stofnunar fyrir sig, sem nú mynda sameinaða heild með sameiginlega framtíðarsýn.

Náttúrufræðistofnun Íslands

Lógó Náttúrufræðisstofnun íslands
Saga Náttúrufræðistofnunar Íslands á rætur að rekja til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) var stofnað með það að markmiði að koma á fót íslensku náttúrugripasafni í Reykjavík. Strax fyrsta árið eignaðist félagið talsvert af náttúrugripum sem mynduðu fyrsta vísinn að safninu og jókst safnkosturinn smám saman þar sem margir lögðu safninu lið með gjöfum. Safnið var í fyrstu nefnt Safn Hins íslenska náttúrufræðifélags en fljótlega tók það að ganga undir heitinu Náttúrugripasafnið eða Náttúrugripasafnið í Reykjavík.
Hið íslenska náttúrufræðifélag rak Náttúrugripasafnið í nærri 60 ár, allt þar til það var afhent ríkinu í ársbyrjun 1947. Á þeim tíma hafði starfsemi safnsins mætt margvíslegum hindrunum, einkum vegna aðstöðuleysis, og flutti safnið sex sinnum fyrstu 18 árin. Mikil breyting varð þegar það fékk aðstöðu í nýbyggðu Safnahúsi við Hverfisgötu árið 1908. Þar hófst blómaskeið sem stóð til ársins 1960. Á þeim rúmu 50 árum festist safnastarf í sessi, starfsfólki og deildum fjölgaði og fræðsla, útgáfa, rannsóknir og vettvangsferðir urðu burðarásar í starfseminni.
Árið 1951 voru fyrstu lögin um safnið sett og hlaut það heitið Náttúrugripasafn Íslands. Þar var starfssvið þess skilgreint nánar: að safna náttúrugripum, annast fuglamerkingar, vinna að rannsóknum á náttúru Íslands, reka opinbert sýningarsafn og sinna verkefnum fyrir ríkisstjórnina. Safnið skyldi skiptast í þrjár deildir; dýrafræðideild, grasafræðideild og jarð- og landfræðideild. Starfsemin efldist hratt með fjölgun starfsfólks, söfnin stækkuðu, rannsóknum fjölgaði og starfssviðið víkkaði. Meðal starfsfólks voru brautryðendur í náttúruvernd, þeir Finnur Guðmundsson og Sigurður Þórarinsson, sem áttu ríkan þátt í setningu fyrstu laga um náttúruvernd árið 1956.
Haustið 1959 flutti safnið í skrifstofuhúsnæði við Hlemmtorg og árið 1960 var sýningarsafninu í Safnahúsinu lokað. Sýningarhald lá niðri næstu sjö árin en árið 1967 var sett upp sýning í húsnæðinu við Hlemm sem upphaflega var hugsuð sem bráðabirgðalausn. Hún stóð þó allt til ársins 2008.
Árið 1965 voru sett ný lög um safnið þar sem því var falið að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins, auk þess sem aukin áhersla var lögð á ráðgjöf til stjórnvalda. Nafni stofnunarinnar var breytt í Náttúrufræðistofnun Íslands en jafnframt hélt nafnið Náttúrugripasafn lífi áfram í daglegu tali, einkum í tengslum við sýningarhlutverkið.
Fram til ársins 1990 heyrði stofnunin undir menntamálaráðuneytið en þá var hún færð undir nýstofnað umhverfisráðuneyti. Áratugina eftir 1965 þróaðist starfsemi stofnunarinnar jafnt og þétt, með fjölgun verkefna, uppbyggingu vísindasafna og vaxandi áherslu á náttúruvöktun og gagnasöfnun.
Árið 1992 voru samþykkt ný lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, sem tóku gildi 1. janúar 1994. Þau leiddu til verulegra breytinga á skipulagi og stjórn stofnunarinnar. Deildaskipting var afnumin og stofnuninni var heimilað að starfa á allt að fimm setrum á landinu. Hvert setur skyldi hafa sinn forstöðumann en forstjóri yrði yfirmaður stofnunarinnar í heild. Setrin urðu þó aldrei nema tvö, Akureyrarsetur og Reykjavíkursetur.
Akureyrarsetrið átti rætur að rekja til stofnunar Náttúrugripasafnsins á Akureyri árið 1952. Árið 1987 var rekstri þess breytt og til varð Náttúrufræðistofnun Norðurlands, sem einbeitti sér að rannsóknum á náttúru Norðurlands. Um áramótin 1993–1994 sameinaðist sú stofnun Náttúrufræðistofnun Íslands og varð þar með formlega hluti af henni. Fyrir sameininguna var þó samstarf og ákveðin verkaskipting á milli stofnananna, til dæmis um rannsóknir á sveppum og fléttum landsins sem eingöngu fóru fram á Akureyri. Starfsemi Akureyrarseturs var fyrst til húsa að Hafnarstræti 81, í gömlu húsnæði Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Árið 1996 fluttist setrið í verslunar- og þjónustukjarnann Krónuna að Hafnarstræti 97 en árið 2004 flutti það í rannsóknarhúsið Borgir við Norðurslóð. Þar voru starfsaðstæður stórbættar og hefur starfsstöð Náttúrufræðistofnunar á Akureyri verið þar til húsa síðan.
Mynd sem sýnir líffræðinga við rannsóknir á heiðargæsum í Þjórsárverum árið 1956Unnið að rannsóknum á heiðargæsum í Þjórsárverum árið 1956. Ljósm. Björn Björnsson.
Eyþór Einarsson grasafræðingur og Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðignur vinna að gróðurrannsóknum í Esjufjöllum í júlí árið 1977.Unnið að gróðurrannsóknum í Esjufjöllum árið 1977. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.
Skordýrum safnað í Esjufjöllum árið 1977. Skordýrum safnað í Esjufjöllum árið 1977. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.
Í lok árs 2005 var ákveðið að breyta stjórnskipulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands í því skyni að gera það einfaldara og skilvirkara. Breytingarnar fólust meðal annars í því að leggja niður setrin sem meginstarfseiningar og taka í staðinn upp skipulag þar sem stofnuninni var skipt í deildir sem tóku mið af helstu hlutverkum hennar. Auk þess var skapaður sameiginlegur vettvangur fyrir grunneiningarnar þrjár: jarðfræði, grasafræði og dýrafræði. Með þessu fyrirkomulagi varð stofnunin ein fagleg og fjárhagsleg heild með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Með lögunum frá 1992 varð hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands afar víðtækt. Hún skyldi stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands, varðveita náttúrugripi og gögn í heimildasöfnum og byggja upp aðgengileg gagnasöfn um náttúru landsins. Hún skyldi skrá kerfisbundið einstaka þætti náttúrunnar og annast útgáfu korta, meðal annars jarðfræðikorta og korta um útbreiðslu tegunda. Þá átti stofnunin að leiðbeina um nýtingu náttúruauðlinda, aðstoða við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja, rannsaka villta stofna fugla og spendýra og annast fuglamerkingar. Einnig skyldi hún birta niðurstöður í fræðiritum, gera grein fyrir helstu þáttum í starfseminni í ársskýrslum, styðja við uppbyggingu sýningarsafna og miðla þekkingu til skóla, fjölmiðla og almennings.
Á starfstíma stofnunarinnar urðu fjölmargar breytingar á starfsháttum og verkefnum. Með Safnalögum árið 2001 var sýningarhlutverkið fært yfir til nýstofnaðs Náttúruminjasafns Íslands undir menntamálaráðuneyti. Lög um Náttúruminjasafnið voru samþykkt árið 2007 og í framhaldi var sýningarsölum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Hlemmi lokað 1. apríl 2008. Stofnunin hélt þá áfram sem rannsóknastofnun með áherslu á náttúruvöktun, ráðgjöf, uppbyggingu vísindasafna og skráningu náttúruminja.
Árið 2010 fluttist starfsemin í nýbyggt hús í Urriðaholti í Garðabæ, þar sem aðstaða til rannsókna, fræðslu og daglegra starfa batnaði verulega. Þar eru fullkomnar geymslur fyrir náttúrugripi og skjöl, rannsóknarstofur, skrifstofur og sérútbúið rannsóknaumhverfi. Höfuðstöðvar stofnunarinnar voru staðsettar þar til sameiningar árið 2024.
Saga Náttúrufræðistofnunar Íslands markast af stöðugri þróun, vaxandi ábyrgð og síbreytilegum áskorunum í umhverfi sem krefst þekkingar, nákvæmni og fagmennsku. Verkefnin á starfstíma hennar voru fjölbreytt og metnaðarfull og ekki er hægt að tíunda þau öll hér. Þó má sérstaklega nefna mikla framþróun á sviði kortagerðar, gagnaöflunar og gagnagrunna þar sem unnið var að því að færa gögn yfir á stafrænt form og þróa opin gagnasöfn og veflausnir.
Eitt mikilvægt verkefni stofnunarinnar var kortlagning vistgerða Íslands í mælikvarðanum 1:25.000 en verkefnið fól í sér að flokka, lýsa og skrá vistgerðir landsins og birta kortið rafrænt í kortasjá. Gögnin nýtast meðal annars við gerð náttúruverndaráætlana, mat á verndargildi svæða og skipulagsvinnu. Auk vistgerðakortsins hafa mörg önnur kortaverkefni verið gefin út í kortasjám: mikilvæg fuglasvæði á Íslandi, jarðfræðileg fyrirbæri, ofanflóð, náttúruminjaskrá, sérstök vernd vistkerfa og jarðminja, selalátur við strendur Íslands, vetrarfuglatalningar, vöktun náttúruverndarsvæða og eldri gróður- og jarðakort. Þá vann stofnunin að gerð líkans fyrir stjórnun rjúpnaveiði, þróun frjókornaeftirlits, sýnatöku vegna sveppagreininga í byggingum, auk fjölbreyttrar náttúruvöktunar.
Með nýjum náttúruverndarlögum nr. 60/2013, sem tóku gildi árið 2015, færðist aukin ábyrgð til stofnunarinnar á ýmsum sviðum náttúruverndar. Henni var meðal annars falið að annast mat á ákjósanlegri verndarstöðu vistgerða og tegunda; hafa umsjón með náttúruminjaskrá, þar með talið skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra og verndarþörf, og gera tillögur um friðlýsingar; bera ábyrgð á heildstæðri vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru; halda skrá og gera yfirlitskort yfir jarðmyndanir, vistkerfi og önnur náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar; og vinna að verndun jarðminja. Til viðbótar þessu fékk stofnunin aukið umsagnarhlutverk við mat á framkvæmdum. Lögin undirstrikuðu mikilvægi samræmdrar skráningar, miðlunar upplýsinga og skipulegrar uppbyggingar verndarsvæða á vísindalegum grunni.
Á löngum starfstíma átti stofnunin í virku samstarfi við fjölda innlendra og erlendra aðila, þar á meðal háskóla, rannsóknastofnanir, sveitarfélög og áhugafólk um náttúruvísindi. Þá tók hún þátt í alþjóðlegu samstarfi, meðal annars á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, loftslagsvöktunar, vöktunar framandi tegunda og náttúruverndar.
Við sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn störfuðu um 50 starfsmenn hjá stofnuninni.
Á meðan Náttúrugripasafnið var rekið af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi voru umsjónarmenn safnsins: Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1889–1900), Helgi Pjeturss (1900–1905), Bjarni Sæmundsson (1905–1940) og Finnur Guðmundsson (1940–1947). Á árunum 1947–1992 skiptu forstöðumenn deilda með sér forstöðumannsstöðu stofnunarinnar: Finnur Guðmundsson, Sigurður Þórarinsson, Eyþór Einarsson, Sveinn Jakobsson og Ævar Petersen.
Forstjórastaða var lögfest árið 1992 og tók Jón Gunnar Ottósson við starfi forstjóra við gildistöku laganna árið 1994. Ævar Petersen gegndi stöðu forstöðumanns á Reykjavíkursetri frá 1994 til 2005 en á Akureyrarsetri var það Hörður Kristinsson sem hafði forstöðu á árunum 1994 til 1999 og Kristinn J. Albertsson frá 1999 til 2005. Eftir að setrin voru lögð niður árið 2005 varð Kristinn J. staðarhaldari starfsstöðvarinnar á Akureyri. Jón Gunnar stýrði stofnuninni til loka árs 2020 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Þorkell Lindberg Þórarinsson gegndi stöðu forstjóra árið 2021 og frá árinu 2022 og fram að sameiningu árið 2024 var Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri.

Landmælingar Íslands

Lógó Landmælingar íslands
Saga landmælinga á Íslandi nær aftur til upphafs 20. aldar, þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins, síðar Geodætisk Institut, hóf kortagerð á landinu. Verkefnið stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900–1940 og skilaði 670 kortatitlum. Þar af voru 227 gefnir út, meðal annars Atlaskortin og Herforingjaráðskortin. Mikilvæg frumgögn eins og teikningar, ljósmyndir og mælingabækur urðu til við vinnuna og voru þau fyrst varðveitt hjá Geodætisk Institut en síðar flutt til Íslands og lauk því ferli árið 1985.
Árið 1951 hófst sérhæfð loftmyndataka til kortagerðar hér á landi. Danir höfðu áður tekið skámyndir árin 1937–1938 til að styðja við kortagerð af hálendinu. Kerfisbundin loftmyndataka stóð yfir til ársins 2000.
Á árunum 1955–1956 framkvæmdi NATO umfangsmiklar landmælingar á Íslandi sem hluta af sameiginlegu mælingaverkefni þjóða við Norður-Atlantshaf. Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins (AMS) stýrði verkefninu hér á landi en samstarfsaðilar voru Landmælingar Íslands og Geodætisk Institut. Afraksturinn var meðal annars þríhyrningamælinetið Hjörsey 1955 og flokkur staðfræðikorta í mælikvarða 1:50.000. Um 200 kortablöð þöktu landið allt.
Landmælingar Íslands voru stofnaðar sem sjálfstæð stofnun árið 1956 og tóku formlega við verkefnum á sviði mælinga, loftmyndatöku og kortagerðar. Fram að þeim tíma heyrði þessi starfsemi undir Vegagerð ríkisins. Helstu verkefni fyrstu árin voru endurskoðun eldri korta og öflun loftmynda fyrir innlend og erlend verkefni.
Árið 1963 hætti Geodætisk Institut kortagerð hér á landi og ábyrgðin fluttist til Landmælinga Íslands. Árið 1965 keypti stofnunin Íslandskortalagerinn og filmur og árið 1973 fékk stofnunin einnig útgáfu- og höfundarrétt á kortunum. Árið 1985 voru sett lög um Landmælingar Íslands (nr. 31/1985) og við endurskoðun árið 1990 (nr. 47/1990) var stofnunin færð undir nýtt umhverfisráðuneyti.
Stofnunin tileinkaði sér nýja tækni. Árið 1991 fékk hún búnað til vinnslu gervitunglamynda og ári síðar eignaðist hún gervitunglamyndir af öllu landinu, teknar á tímabilinu 1986–1992. Árið 1993 hófst GPS-mæling á grunnstöðvanetinu ISN93 sem leysti Hjörsey 1955 af hólmi. Netið, sem samanstóð af 119 mælistöðvum, lagði grunn að stafrænni kortagerð og byggðist verkefnið á samstarfi við fjölda stofnana og sveitarfélög auk þess sem þýska kortastofnunin lánaði tækjabúnað og sérfræðinga til verksins.
Árið 1996 var ákveðið að flytja Landmælingar Íslands til Akraness. Starfsemi hófst þar 1. janúar 1999 og um helmingur starfsfólks sagði upp. Um svipað leyti hófst vinna við stafrænan gagnagrunn í mælikvarða 1:50.000 (IS 50V). Grunnurinn byggði upphaflega á eldri kortum en hefur verið uppfærður með nýjum gögnum í samstarfi við opinbera aðila. Fyrsta formlega útgáfan kom út árið 2003 og hefur hann verið uppfærður reglulega síðan og er líklega mest notaði kortagrunnur landsins.
Um aldamót urðu breytingar. Síðasta kerfisbundna loftmyndaflugið á vegum stofnunarinnar var sumarið 1998, næstu tvö ár var myndatakan boðin út og árið 2000 lauk um hálfrar aldar sögu loftmyndatöku hjá stofnuninni. Einkaaðilar tóku þá við hlutverkinu. Í ársbyrjum bauð stofnunin að nýju út loftmyndaþekju af Íslandi og er gert ráð fyrir að hún verði tilbúin í árslok 2027.
Stofnunin beindi sjónum að stafrænum lausnum, fjarkönnun og uppbyggingu gagnagrunna. Grunnstöðvanetið er undirstaða nákvæmra landmælinga, stafrænnar kortagerðar og landfræðilegra upplýsingakerfa. Árið 2004 var ISN93-netið endurmælt og ISN2004 tekið í notkun. Endurmæling fór aftur fram sumarið 2016.
Á 50 ára afmæli stofnunarinnar 2006 voru sett ný lög um landmælingar og grunnkortagerð (nr. 103/2006) þar sem kveðið var á um að stofnunin skyldi hætta allri framleiðslu og sölu prentaðra korta. Kortalager og kortaútgáfa voru seld Iðnmennt.
Mynd sem sýnir danska landmælingamenn á Íslandi í kringum árið 1900Danskir landmælingamenn á Íslandi í kringum árið 1900. Ljósm. Náttúrufræðistofnun.
Mynd sem sýnir fólk að störfum við kortagerð hjá Landmælingum ÍslandsStarfsfólk Landmælinga Íslands vinnur að kortagerð. Ljósm. Náttúrufræðistofnun.
Unnið að endurmælingu á grunnstöðvanetinu árið 2004Unnið að endurmælingu á grunnstöðvanetinu árið 2004. Ljósm. Náttúrufræðistofnun.
Á árunum 2002–2006 voru keyptar SPOT 5-gervitunglamyndir sem leiddu til útgáfu skýjalausrar myndaþekju af öllu landinu árið 2006. Myndirnar nýttust meðal annars við uppfærslu IS 50V-kortagrunnsins og CORINE-verkefnið sem Landmælingar Íslands hafa haft umsjón með hér á landi frá árinu 2007. CORINE miðar að því að safna, samræma og uppfæra upplýsingar um landgerðir í Evrópu.
Árið 2008 hófst undirbúningur innleiðingar INSPIRE-tilskipunar Evrópusambandsins sem miðar að því að gera opinberar landfræðilegar upplýsingar aðgengilegar. Árið 2011 voru samþykkt ný lög (nr. 44/2011) um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar þar sem grundvallaratriði INSPIRE-tilskipunarinnar voru innleidd og var framkvæmd laganna falin Landmælingum Íslands.
Sama ár var gefið út samræmt hæðarkerfi fyrir Ísland með viðmiðuninni ISH2004. Líkt og ISN93 skapaði grunn að samræmdu hnitakerfi fyrir landið veitti ISH2004 grunn að samræmdu hæðarkerfi, sem er mikilvægt fyrir margvíslegar framkvæmdir, svo sem vegagerð og jarðgangnagerð, sem og á sviðum umhverfisvöktunar, skipulags- og áætlanagerðar. Verkefnið stóð yfir í 18 sumur í samstarfi við Vegagerðina og Landsvirkjun. Stöðugt er unnið að viðhaldi kerfisins og mælingum bætt inn í það.
Árið 2009 hóf stofnunin uppbyggingu GNSS-jarðstöðvanets sem er lykilþáttur í viðhaldi og vöktun grunnstöðva- og hæðarnets landsins. Netið nýtist í vísindarannsóknum og eykur nákvæmni og afköst við landmælingar og leiðsögu.
Í janúar 2013 voru öll gögn Landmælinga Íslands gerð gjaldfrjáls, sem margfaldaði notkun þeirra. Stofnunin byggði upp stórt og merkilegt safn korta, ljósmynda og loftmynda. Kortasafnið telur um 2.700 kort, loftmyndasafnið um 140.000 myndir, og einnig eru varðveittar teikningar og ljósmyndir frá mælingum Dana á árunum 1900–1940. Lokið hefur verið við skráningu og skönnun allra þessara gagna og eru þau þannig aðgengileg öllum í Loftmyndasjá og Kortasafni. Stofnunin bar ábyrgð á örnefnagrunninum og vann að skráningu, viðhaldi og miðlun í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, samkvæmt lögum nr. 22/2015, um örnefni. Í árslok 2024 voru skráð 188.600 örnefni í grunninn.
Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á miðlun kortagagna Landmælinga Íslands í gegnum hugbúnað sem starfsfólk stofnunarinnar þróaði (MapView) eða í gegnum kortaþjónustur. Sá hugbúnaður er einnig notaður af öðrum íslenskum stofnunum til birtingar kortagagna.
Landmælingar Íslands lögðu mikla áherslu á samstarf innanlands sem utan, sem stuðlaði að bættri þekkingu og aðgengi að landupplýsingum. Stofnunin var m.a. landstengiliður Copernicus-áætlunar Evrópusambandsins, virkur þátttakandi í UN-GGIM starfi Sameinuðu þjóðanna, meðlimur Eurogeographics, samtaka evrópskra korta- og fasteignastofnana auk þess að vera mjög virk í norrænu samstarfi norrænna korta- og landmælingastofnana.
Starfsfólk tók frá upphafi þátt í könnuninni Stofnun ársins, þar sem starfsumhverfi og starfsánægja ríkisstarfsmanna eru metin. Stofnunin skoraði jafnan hátt og hlaut alls sjö sinnum fimmta sæti eða hærra, þar af tvisvar fyrsta sæti í sínum stærðarflokki.
Við sameiningu Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, 1. júlí 2024, störfuðu 24 starfsmenn hjá Landmælingum Íslands.
Frá stofnun Landmælinga Íslands árið 1956 og þar til stofnunin sameinaðist með öðrum stofnunum árið 2024, gegndu eftirfarandi einstaklingar stöðu forstjóra:
  • Geir G. Zoëga (1956–1959)
  • Ágúst Böðvarsson (1959–1976)
  • Bragi Guðmundsson (1976–1985)
  • Birgir Guðjónsson (1985)
  • Ágúst Guðmundsson (1985–1998)
  • Magnús Guðmundsson (1999–2018)
  • Eydís Líndal Finnbogadóttir (2018–2021)
  • Gunnar Haukur Kristinsson (2022–2024)

    Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn

    Lógó Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn
    Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý) var stofnuð með lögum um verndun Mývatns og Laxár árið 1974. Markmið hennar var að stuðla að rannsóknum sem nýtast mættu við verndun svæðisins og lífríkis þess. Lögin voru hluti sáttagerðar milli ríkisstjórnarinnar og landeigenda á svæðinu eftir harða deilu um virkjunaráform í Laxá, svokallaða Laxárdeilu. Hefðu virkjunaráform náð fram að ganga hefði lífríki Laxár ofan Brúa verið nánast þurrkað út og lífríki Mývatns orðið fyrir óbætanlegum skaða. Áætlanir voru meðal annars um að gera röð uppistöðulóna í Laxárdal, færa farveg árinnar í skurð upp undir heiðarbrún og jafnvel leiða ána í göngum út úr Mývatni. Eins voru miklir vatnaflutningar áætlaðir þar sem Suðurá og Skjálfandafljót komu við sögu. Mývatn var jafnvel nefnt sem mögulegt uppistöðulón með umtalsverðri hækkun vatnsborðs. Á þessum tíma höfðu litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á lífríki Mývatns og Laxár en ýmsir málsmetandi náttúrufræðingar bentu á sérstöðu svæðisins og verndargildi þess. Heimamenn vissu það auðvitað manna best, en málflutningur þeirra var gjarnan afgreiddur sem rómantík og eiginhagsmunagæsla.
    Þegar sátt náðist í Laxárdeilunni árið 1973, eftir að heimamenn höfðu jafnvel gripið til þess örþrifaráðs að sprengja stíflu í Miðkvísl Laxár, nærri útfalli Mývatns, var ákveðið að friðlýsa svæðið með lögum og koma á fót náttúrurannsóknastöð við vatnið. Nú er hálf öld liðin frá lagasetningunni 1974, stofnun verndarsvæðisins og Ramý.
    Árið 1974 var komið upp bráðabirgðahúsnæði fyrir rannsóknastöð á Geirastöðum með stuðningi Seðlabankans. Engar fjárveitingar fylgdu til starfseminnar í fyrstu en Náttúruverndarráð tók að sér rekstur húsnæðisins, þar sem friðlandið var í umsjá þess. Húsnæðið eitt laðaði strax að sér vísindafólk frá Háskóla Íslands og Veiðimálastofnun og í samvinnu þessara stofnana voru strax lögð drög að vöktun lífríkisins, sem smám saman þróaðist í víðtæka náttúruvöktun sem enn er stunduð. Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði og Gísli Már Gíslason prófessor í vatnalíffræði léku lykilhlutverk í upphafi með því að beina rannsóknum sínum og nemenda sinna að vatninu og ánni.
    Framan af fékk Ramý engar fjárveitingar og var Líffræðistofnun Háskóla Íslands burðarás starfseminnar og kom í hlut hennar að undirbúa vöktun lífríkisins með vissum grundvallarrannsóknum. Árið 1985 fékkst fyrst fjárveiting til að ráða sérfræðing til rannsóknastöðvarinnar og var Árni Einarsson ráðinn í það starf. Seinna, þegar stöðin var gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun, varð hann forstöðumaður stöðvarinnar og gegndi því starfi til ársins 2024. Árið 2009 fékkst aukafjárveiting til að ráða fastan starfsmann til viðbótar, Unni Jökulsdóttur, sem starfaði sem fræðslu- og kynningarstjóri. Annað starfsfólk var að mestu leyti ráðið til sumarstarfa eða að erlendir sjálfboðaliðar komu í starfsþjálfun. Árið 1987 flutti rannsóknastöðin í gamla prestshúsið á Skútustöðum, steinhús frá 1927, sem beið niðurrifs. Var húsið gert upp og hefur þjónað sem rannsóknastöð æ síðan. Samvinna Háskóla Íslands og rannsóknastöðvarinnar gat af sér verðmætt gagnasafn um langtímabreytingar á vistkerfi Mývatns og Laxár. Áhugi vísindasamfélagsins — og fólks almennt — á Mývatni jókst við þetta.
    Á árunum 2023–24 var gamla skólahúsið á Skútustöðum tekið undir starfsemi nokkurra ríkisstofnana, Vatnajökulsþjóðgarðs, Ramý, Umhverfisstofnunar og Landgræðslunnar. Ramý flutti hluta af starfsemi sinni þangað en náttúruvöktunardeildin var áfram í prestshúsinu. Árið 2024 urðu ennfremur þau tímamót að rannsóknastöðin varð hluti af nýrri Náttúrufræðistofnun sem skapaðist við sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Ramý. Vegna lögformlegrar stöðu Ramý í Laxársáttmálanum er stöðin sýnileg eining innan hinnar nýju stofnunar.
    Rifsborgir, bráðabirgðahús Ramý við Mývatn Rifsborgir, bráðabirgðahús Ramý við Mývatn árið 1982. Ljósm. Árni Einarsson.
    Núverandi húsnæði Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn að Skútustöðum, tekið í notkun árið 1987. Ljósmynd: Árni Einarsson.Núverandi húsnæði Ramý við Mývatn að Skútustöðum, tekið í notkun árið 1987. Ljósm. Árni Einarsson.
    Teikning af skúföndum eftir Árna EinarssonTeikning af skúföndum á Mývatni eftir Árna Einarsson.
    Allt til ársins 2004 laut Ramý stjórn, sem hafði meðal annars það hlutverk að vera ráðgefandi um náttúruvernd í friðlandinu. Í stjórninni áttu sæti fulltrúar frá sveitarstjórnum, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruverndarráði. Lengst af gegndu þeir Arnþór Garðarsson og síðar Gísli Már Gíslason formennsku. Þegar stjórnir ríkisstofnana voru lagðar niður tók fagráð við hlutverki stjórnar með fulltrúum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Háskóla Íslands, Veiðimálastofnun og sveitarstjórn Skútustaðahrepps. Fagráðið var lagt niður við sameininguna 2024.
    Vöktun lífríkis í Mývatni og Laxá hefur verið eitt af höfuðviðfangsefnum stöðvarinnar. Hún felst í að skrásetja ástand lífríkisins með reglubundnum hætti ár eftir ár og miðar að því að: (a) fá gögn um almennan breytileika milli ára og yfir lengri tímabil; (b) koma auga á langtímabreytingar svo að hægt verði að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða ef þörf er á og (c) greina hvaða þættir lífríkisins breytast í takt, svo að setja megi fram tilgátur um orsakatengsl. Við val á viðfangsefnum er lögð áhersla á að nota einfaldar, hagkvæmar og áreiðanlegar aðferðir og vakta helstu þrep í fæðukeðjunni. Fylgst er með stofnum vatnafugla, fiska, vatnaskordýra og krabbadýra, einnig þörungagróðri í svifi og á botni. Ennfremur er fylgst með efnasamsetningu uppsprettuvatns. Guðni Guðbergsson fiskifræðingur og Eydís Salome Eiríksdóttir jarðefnafræðingur, sem nú starfa á Hafrannsóknastofnun, unnu um langt árabil þétt með rannsóknastöðinni að vöktun Mývatns.
    Fjölmargir erlendir vísindamenn hafa unnið við rannsóknir við Mývatn í samvinnu við Ramý. Á engan er hallað þó nefnt sé sérstaklega starf Anthony R. Ives, prófessors við háskólann í Wisconsin í Madison, sem hefur heimsótt stöðina með nemendum sínum árlega í tvo áratugi og leitað svara við grundvallarspurningum um gangverk lífríkisins í Mývatni með hugvitsamlegum mælingum og tilraunum. Af öðrum hópum ber að nefna fjölþjóðlega sveit fisk- og erfðafræðinga tengda Hólaskóla undir forystu Bjarna Kristófers Kristjánssonar og hóp frá háskólanum í Wisconsin í Madison undir stjórn Claudio Gratton sem greindi áhrif mýflugna á vistkerfi vatnsbakkans.
    Á starfstíma Ramý, 1974–2024, birtust liðlega 330 fræðigreinar og skýrslur um Mývatn og Laxá sem tengdust starfsemi stöðvarinnar með einum eða öðrum hætti. Þar af eru 164 ritrýndar greinar eða bókarkaflar með beinni rannsóknaraðild Ramý. Á síðustu árum komu að meðaltali út 4–6 ritrýndar greinar árlega og hefur sá fjöldi farið vaxandi.