Fara í innihald

Dýrafræði

Vöktun skógarmítla

Síðan 2015 hefur Náttúrufræðistofnun verið þátttakandi í samstarfsverkefninu VectorNet, sem er á vegum European Centre for Disease Prevention and Control (ECDC) og European Food Safety Authority (EFSA). Markmið verkefnisins er að kortleggja útbreiðslu sýklabera í Evrópu. Á Íslandi felst þátttakan í vöktun á skógarmítlum (Ixodes ricinus), auk miðlunar upplýsinga um aðrar tegundir stórmítla (Ixodidae) og lúsmý (Culicoides reconditus). Verkefnið hefur stuðlað að farsælu samstarfi við sérfræðinga hjá UK Health Security Agency, þar sem skordýrafræðingur stofnunarinnar hefur hlotið dýrmæta þekkingu og reynslu sem áður var takmörkuð hér á landi.
Á Íslandi hafa fundist 12 tegundir stórmítla (Ixodidae): lundamítill (Ceratixodes uriae), klettamítill (Scaphixodes caledonicus), brekkumítill (S. Rothschildi), skógarmítill (Ixodes ricinus), broddgaltamítill (I. Hexagonus), dádýramítill (I. cf scapularis), hundamítill (Rhiphicephalus sanguineus s.l.), rakkamítill (Dermacentor variabilis), skjaldbökumítill (Hyalomma aegyptium), stjörnumítill (Amblyomma americanum) og Haemaphysalis erinacei og Ixodes frontalis, sem hafa ekki hlotið íslenskt heiti. Aðeins þrjár þessara tegunda eru landlægar: lundamítill, klettamítill og brekkumítill. Skógarmítill er ekki talinn landlægur þar sem ekki hefur tekist að sýna fram á að hann klári lífsferil sinn hér á landi.
Undanfarin ár hefur markviss leit að skógarmítlum í íslenskri náttúru skilað 44 eintökum á þremur stöðum: í Mýrdal, á Skógum undir Eyjafjöllum og á Höfn í Hornafirði. Hins vegar hefur reynst árangursríkara að safna skógarmítlum beint af farfuglum sem koma til landsins á vorin, í tengslum við fuglamerkingar.
Í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands var á árunum 2016–2024 safnað 1.611 skógarmítlum. Vorið 2024 fannst ný mítlategund á Íslandi þegar kvendýr af tegundinni Ixodes frontalis fannst á skógarþresti við komu hans til landsins. Skógarþröstur er algengasti hýsillinn sem ber með sér mítla til landsins en auk hans hafa mítlar fundist á svartþresti og laufsöngvara. Einnig er vitað að steindepill og þúfutittlingur hafa borið skógarmítla til landsins.
Hluti þeirra skógarmítla sem safnað hefur verið hefur verið rannsakaður með tilliti til sýkla í samstarfi við UK Health Security Agency og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Vísindagrein með niðurstöðum rannsóknarinnar er til ritrýningar í tímaritinu Parasites & Vectors.

Nýir landnemar smádýra

Náttúrufræðistofnun fylgist með breytingum á smádýrafánu landsins, þar á meðal landnámi nýrra tegunda. Stundum finnast tegundir sem ekki hafa verið skráðar áður en það þýðir ekki endilega að þær séu nýir landnemar. Í sumum tilvikum geta tegundir hafa verið til staðar lengi án þess að hafa vakið athygli. Breytingar á veðurfari og umhverfisaðstæðum geta skapað hagstæðari skilyrði fyrir slíkar tegundir og gert þær sýnilegri.
Að finna fágætar tegundir krefst þekkingar, athygli og skipulagðrar vinnu. Stöðugt berast til landsins tegundir sem hingað til hafa ekki átt hér náttúruleg heimkynni. Þær koma oftast með innflutningi varnings en sumar berast einnig af sjálfsdáðum. Með hlýnandi loftslagi og aukinni gróðursæld skapast smám saman aðstæður sem gera slíkum tegundum kleift að nema hér land. Það er hins vegar oft erfitt að meta hvenær nýfundnar tegundir hafa náð varanlegri fótfestu. Landnám getur tekið nokkur ár þar sem nýjar tegundir þurfa tíma til að festa sig í sessi á nýjum svæðum. Aukinn innflutningur varnings eykur einnig líkurnar á að smádýr berist til landsins. Ekki eru þó allir nýliðarnir velkomnir, þar sem sumir geta valdið tjóni á garðagróðri og öðru gróðurlendi.
Ljósgildrur sem notaðar eru við fiðrildavöktun hafa reynst afar gagnlegar til að fylgjast með landnámi nýrra tegunda og þróun þeirra hér á landi. Dæmi um nýlega landnema sem hafa náð að festa sig í sessi eru birkikemba (Heringocrania unimaculella), birkiglitmölur (Argyresthia goedartella), grenivefari (Epinotia tedella) og vorflugan Micropterna sequax.
Barkarbjöllur tilheyra ranabjallnaætt (Curculionidae) og verpa eggjum undir trjáberki, þar sem lirfurnar alast upp og grafa göng í innra lag barkarins. Þær geta valdið tjóni á trjám og jafnframt borið sýkingar á milli þeirra. Frá árinu 2021 hefur verið grunur um að barkarbjöllur hafi náð að festa sig í sessi hér á landi. Þrátt fyrir að engin eintök hafi borist Náttúrufræðistofnun til staðfestingar, gáfu ljósmyndir vísbendingar um tilvist þeirra. Á síðustu árum hafa tvær nýjar bjöllutegundir fundist á Mógilsá, sem geta lifað á eggjum og lirfum barkarbjallna. Þar sem þessar bjöllur hafa fundist í auknum mæli, ákváðu skordýrafræðingar hjá Náttúrufræðistofnun og Landi og skógi að rannsaka hvort barkarbjöllur væru til staðar á svæðinu.
Frá vori til hausts 2024 voru settar út fallgildrur á Mógilsá til að leita að barkarbjöllum. Nokkur fjöldi barkarbjallna veiddist í gildrurnar, auk þess sem fallinn sitkagrenibolur fannst þakinn götum eftir bjöllur. Svipuð ummerki komu í ljós á trjábol í Heiðmörk, þar sem lirfur, púpur og nýklaktar bjöllur fundust. Í Fossvogi sáust einnig merki um barkarbjöllur en engin eintök fundust þar.
Líklegt er að um tegund úr Hylastes-ættkvíslinni sé að ræða, en eintök hafa verið send í raðgreiningu til að greina tegundina nákvæmlega. Enn er óljóst hvort þessar bjöllur muni valda miklum skaða í íslenskri skógrækt en full ástæða er til að fylgjast grannt með útbreiðslu þeirra. Kortlagning á dreifingu tegundarinnar verður eitt af verkefnum ársins 2025.
Húskakkalakki (Blattella germanica) Húskakkalakki (Blattella germanica) er dæmi um tegund sem hefur numið hér land. Ljósm. Erling Ólafsson.
Barkarbjalla Barkarbjalla virðist hafa náð að festa sig í sessi hér á landi. Ljósm. Erling Ólafsson.
Fiðrildið gulygla (Noctua pronuba) Gulygla (Noctua pronuba) er fiðrildi sem kemur reglulega fram í fiðrildavöktuninni. Ljósm. Erling Ólafsson.

Vöktun fiðrilda

Vöktun fiðrilda hélt áfram líkt og áður í samstarfi við náttúrustofur landsins, Landbúnaðarháskóla Íslands og einstaklinga. Árið 2024 var 30. árið frá því að vöktunin hófst árið 1995. Fiðrildum er safnað með ljósgildrum sem eru virkar í 30 vikur á ári, frá miðjum apríl fram í miðjan nóvember. Náttúrufræðistofnun hefur alfarið umsjón með tveimur vöktunarstöðvum, í Kollafirði og Fljótshlíð, auk þess að starfa með heimamanni að rekstri tveggja stöðva undir Eyjafjöllum. Greining afla frá þessum fjórum stöðvum fer fram á stofnuninni, sem veitir einnig öðrum aðilum stuðning eftir þörfum og getu, en úrvinnslan er mjög tímafrek.
Samfelld vöktun veitir dýrmætar upplýsingar um fiðrildafánu landsins, samsetningu hennar og lífshætti einstakra tegunda. Einnig gefst kostur á að fylgjast með flækingum frá meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum. Fiðrildafánan er undir áhrifum af ríkjandi veðurfari, þar á meðal vindi, hitastigi, úrkomu og þurrkum, en náttúruhamfarir, svo sem eldgos, geta einnig haft áhrif á afkomu tegunda. Loftslagsbreytingar eru staðreynd og þeim fylgja breytingar á gróðurfari. Gögn vöktunarinnar sýna að þessar breytingar hafa áhrif á fiðrildastofna og útbreiðslu þeirra.
Árið 2023 var útbúinn nýr gagnagrunnur fyrir vöktun fiðrilda og þá var hafist handa við að tryggja örugga varðveislu gagnasería. Í upphafi árs 2025 innihélt grunnurinn upplýsingar um 891.494 greind eintök, fiðrildi og vorflugur, sem veiðst hafa í ljósgildrur frá árinu 1995. Árið 2024 voru samtals greind til tegunda 49.886 fiðrildi og 5.189 vorflugur. Markmiðið er að allir sem sinna fiðrildavöktun á Íslandi geti nýtt gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar til að varðveita gögn sín.
Fiðrildavertíðin 2024 markaði tímamót, þar sem þá voru liðnir þrír áratugir frá því að vöktun fiðrilda hófst. Nú liggur fyrir 30 ára gagnasería frá Tumastöðum í Fljótshlíð og 20 ára sería frá Mógilsá og Rauðafelli. Í lok árs 2025 munu verða liðin 20 ár frá því vöktun hófst að Skógum undir Eyjafjöllum.
Ákveðið hefur verið að ljúka fiðrildavöktun á Tumastöðum en vöktunin á Mógilsá, Rauðafelli og Skógum mun halda áfram með breyttu fyrirkomulagi. Þar sem kvikasilfursperur, sem notaðar hafa verið frá upphafi, eru ekki lengur fáanlegar er nauðsynlegt að skipta yfir í LED-perur. Úrvinnsla gagna er í vinnslu og fyrirhugað er að birta grunngögn í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar.

Botndýr á Íslandsmiðum

Markmið verkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum (BioIce) er að afla yfirlitsþekkingar um tegundafjölbreytni botnlægra hryggleysingja innan íslenskrar efnahagslögsögu með því að efla rannsóknir í flokkunarfræði sjávarhryggleysingja, byggja upp heildstætt vísindasafn með eintökum af hverri tegund og skrá útbreiðslu tegunda og algengi í samræmdan gagnagrunn. Fyrsti leiðangur verkefnisins var sumarið 1991, en verkefninu var formlega ýtt úr vör árið 1992 í umsjá þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands, Sandgerðisbæjar og fjölda erlendra sérfræðinga og stofnana. Sýnatöku lauk árið 2004 og síðan frumvinnslu sýna var lokið árið 2012 hafa Náttúrufræðistofnun og Hafrannsóknastofnun haft yfirumsjón með flokkunarfræðilegum rannsóknum verkefnisins og skráningu nýrra sem eldri athugana í samræmdan gagnagrunn um tegundafjölbreytni botndýra á Íslandmiðum. Síðustu þrjú árin hefur rannsóknaáherslan beinst að kóral- og svampdýrum, sem hvorir tveggja eru tegundahópar sem móta einstaklega lífrík búsvæði á botni sjávar. Niðurstöðum verkefnisins er að hluta til miðlað á vef stofnunarinnar og með útgefnu efni.
Mynd af ránsvampi af ættkvíslinni Cladorhizida sp.Ránsvampur af ættkvíslinni Cladorhizida sp. Ljósm. Hafrannsóknastofnun.
Gulur mjúkur kórallHornkórall, mjúkur kórall af ættbálknum Alcyonacea. Ljósm. Hafrannsóknastofnun.
Mynd af marflækju (Gorgonocephalus sp.)Marflækja af ættkvíslinni Gorgonocephalus sp. Ljósm. Hafrannsóknastofnun.
Í árslok 2024 innihélt gagnagrunnur um botndýr á Íslandsmiðum tiltækar upplýsingar um 19.551 sýnatökustað botnlægra sjávarhryggleysingja og heildarfjöldi skráðra tegunda og stærri flokkunarheilda á þessum stöðum var 164.945. Nánari umfjöllun er að finna í kafla um dýrasöfn.
Dagana 15.–22. september 2024 dvaldi doktorsnemi við Háskólann í Færeyjum, Þjóðminjasafn Færeyja og Háskólann í Kaupmannahöfn í rannsóknastöðinni í Sandgerði, þar sem hann vann að rannsóknum á burstaormum af ætt hreistubaka (Polynoidae) úr vísindasafni Náttúrufræðistofnunar. Verkefnið er hluti af doktorsverkefni hans. Við Ísland er þekkt 41 tegund hreisturbaka en líklegt er að raunverulegur tegundafjöldi sé mun meiri.
Dagana 21.–22. ágúst 2024, heimsótti belgískur dýrafræðingur vísindasafn stofnunarinnar til að rannsaka eintök af kóngaætt (Buccinidae), í tengslum við uppgötvun á áður óþekktri tegund, Buccinum palssoni. Nafneintak tegundarinnar (holotype) sem tegundarheitið er bundið við, ásamt þremur stoðeintökum (paratypes), eru fengin úr sýnum verkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum og eru varðveitt á Náttúrufræðistofnun. Tegundin er nefnd til heiðurs Jónbirni Pálssyni, fyrrum fiskafræðingi á Hafrannsóknastofnun.
Birt var grein í vísindatímaritinu Micropaleontolo sem fjallar um endurskoðun á flokkunarkerfi sjö stórvaxinna og lítt þekktra götungategunda (Foraminifera) af ættkvíslinni Lenticulina auk þess sem útbreiðsla þeirra á Íslandsmiðum er skráð með tilliti til hitastigs, dýpis og seltu. Þá var birt veggspjald á haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands, um útbreiðslu og fjölbreytni hryggleysingja á íslenskum hafsvæðum.

Vetrarfuglatalningar

Vetrarfuglatalningar eru meðal elstu samfelldu vöktunarverkefna hér á landi og ná yfir flestar fuglategundir. Skipulagðar talningar á fuglum að vetrarlagi hófust árið 1952 og hafa farið fram árlega síðan. Talningarnar fylgja stöðluðum aðferðum og fara fram á fyrirfram ákveðnum dögum í kringum áramót. Frá upphafi hefur áhugafólk um allt land lagt sitt af mörkum í sjálfboðavinnu og árlega taka yfir hundrað manns þátt í verkefninu. Megintilgangur vetrarfuglatalninga er að safna gögnum um fjölda og dreifingu fugla á veturna, sem nýtast til vöktunar einstakra stofna.
Árið 2024 var 73. ár vetrarfuglatalninga á Íslandi en talningar fóru fram bæði í desember þess árs og í janúar 2025. Alls var talið á 213 svæðum þar sem samtals 156.180 fuglar af 73 tegundum voru skráðir. Líkt og áður var æðarfugl algengasti fuglinn í talningunum. Niðurstöður talninga eru birtar á vef stofnunarinnar.
Mynd af teistuTeista í Keflavíkurhöfn. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd af gulöndGulönd í Fossvogsdal. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd af hettumáfHettumáfur í Hafnarfirði. Ljósm. Erling Ólafsson.

Farhættir skrofu

Skrofa er farfugl sem verpir á Íslandi, þó eingöngu í Ystakletti á Heimaey og á nokkrum úteyjum Vestmannaeyja. Frá árinu 2006 hefur verið fylgst með farháttum skrofu í Ystakletti með dægurritum, sem safna meðal annars upplýsingum um farleiðir og vetrarstöðvar fuglanna. Verkefnið er unnið í samvinnu við Háskólann í Barcelona, Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrustofu Suðurlands.
Skrofur sem fylgst hefur verið með leggja oftast af stað frá Vest­manna­eyjum um miðjan september og tekur ferðalagið á vetrarstöðvarnar í Suður-Atlantshafi um 40 daga. Farleiðin er meðfram ströndum Vestur-Evrópu og Norður-Afríku áður en hún liggur yfir Atlantshafið í átt að Brasilíu og svo suður með ströndinni að Argentínu. Þar dvelja fuglarnir fram í miðjan mars. Farleiðin til baka liggur upp með strönd Suður-Ameríku og svo frá Norðaustur-Brasilíu yfir Atlantshafið langleiðina að Nýfundnalandi og þaðan til Vestmannaeyja. Skrofurnar koma svo á varpstöðvarnar í Ystakletti undir lok apríl.
Sumarið 2024 voru dægurritar endurnýjaðir á níu af tíu skrofum sem höfðu fengið dægurrita árið 2023 og einni sem hafði fengið dægurrita árið 2022, en sá hafði þá safnað gögnum í tvö ár. Frá upphafi verkefnisins hafa alls 225 dægurritar verið settir út og 185 náðst aftur. Alls voru merktar tíu skrofur, allt ungar í hreiðri, og 36 fuglar endurheimtust. Í verkefninu hafa 169 varpfuglar og 87 ungar verið merktir en af þeim hafa 113 varpfuglar náðst aftur að minnsta kosti einu sinni. Jafnframt hafa fjórir ungar endurheimst eftir að þeir hófu sjálfir varp. Fjórar af þeim skrofum sem fengu dægurrita árið 2024 voru upphaflega merktar árið 2006, á fyrsta ári verkefnisins.
Á síðasta ári lauk meistaraverkefni við Háskólann í Barcelona á Spáni sem byggðist á gögnum úr verkefninu. Þar var sjónum beint að árstíðabundnu mynstri og dreifingu farflugs sjófugla á úthafinu.
Kort sem sýnir farleiðir skrofu

Vöktun skarfastofna

Fyrir um 50 árum síðan hófst vöktun skarfastofna hér á landi með talningum á dílaskörfum og toppskörfum á hreiðrum í þekktum skarfabyggðum á vestanverðu landinu. Hreiðrin voru talin af ljósmyndum, teknum úr flugvél í 700 feta hæð. Náttúrufræðistofnun tók við verkefninu frá Háskóla Íslands árið 2016 og eru stofnar beggja skarfstegundanna metnir árlega. Rannsóknin er styrkt með fé sem fæst af sölu veiðikorta.
Nánast öll þekkt skarfavörp á Íslandi eru ljósmynduð úr flugvél í maí ár hvert og hreiður talin af myndunum. Samkvæmt mati á varpstofnum skarfa á Íslandi 2024 eru skráð 3.835 dílaskarfshreiður og 5.720 toppskarfshreiður. Árið áður varð hrun hjá báðum tegundum í illviðrum seint í maí, þar sem fjöldi dílaskarfshreiðra minnkaði um 37% og toppskarfshreiðra um 45% á milli ára. Í kjölfar óveðursins fannst mikill fjöldi sjórekinna lunda, súlna og rita, einkum í Faxaflóa, en ekki bar mikið á dauðum skörfum. Sú staðreynd vekur von um að báðir skarfsstofnarnir verði fljótir að rétta úr kútnum og benda talningarnar árið 2024 til þess.
Mynd af toppskarfi í HafnarfjarðarhöfnToppskarfur í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd af dílaskarfi við HamarskotslækDílaskarfur við Hamarskotslæk. Ljósm. Erling Ólafsson.

Mynd af toppskarfi í KeflavíkurhöfnToppskarfur í Keflavíkurhöfn. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fjöldi dílaskarfs- og toppskarfshreiðra
á tímabilinu 2016–2024

Vöktun arnarstofnsins

Fylgst hefur verið arnarstofninum á Íslandi í meira en heila öld en reglubundin vöktun hófst um 1960. Árlega er fylgst með breytingum á stofnstærð, afkomu og útbreiðslu tegundarinnar. Vöxtur og þróun stofnsins er því afar vel þekkt og ekki til svo nákvæmar upplýsingar um nokkra aðra fuglategund hér á landi.
Á árinu 2024 urpu að minnsta kosti 68 arnarpör og 43 þeirra komu upp að minnsta kosti 55 ungum, þar af var 51 ungi merktur. Þetta er svipaður árangur og árið 2023 þegar 43 pör komu upp 56 ungum. Stofninn telur nú ríflega 90 varppör og heildarfjöldi fugla er áætlaður um 350. Hann hefur vaxið jafnt og þétt frá því um 1970, eftir langvarandi hnignun.
Erfðarannsóknir á Íslandi, Grænlandi, Noregi, Danmörku og Eistlandi hafa sýnt að arnarstofnarnir á Íslandi og Grænlandi eru aðgreindir hvor frá öðrum og frá meginlandinu. Leiðir þeirra hafa skilist að stuttu eftir síðasta jökulskeið ísaldar og einkennast af litlum erfðabreytileika, sem endurspeglar smæð og einangrun stofnanna. Mögulegt er að lág frjósemi hafarna á Íslandi tengist skyldleikaæxlun.
Til þessa hafa verið sett senditæki á 72 unga erni og í árslok 2024 voru 49 þeirra enn á lífi. Gögn sýna að ungir fuglar ferðast víða áður en þeir ná kynþroska við 5–6 ára aldur. Með þessari tækni er nú hægt að kortleggja búsvæðaval arna með miklu meiri nákvæmni en áður. Einstakar staðsetningar voru um 4,5 milljónir talsins í byrjun febrúar 2025.
Vöktunin er unnin í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Háskóla Íslands og heimamenn.
Mynd sem sýnir fuglafræðinga merkja arnarungaUnnið að arnarmerkingum sumarið 2024. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.
Mynd af hafarnarungaHafarnarungi. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.
Mynd sem sýnir fálkamóður fóðra unga sínaFálkamóðir fóðrar unga sína tvo. Ljósm. Nick Dunlop.

Vöktun fálka

Rannsóknir á stofnvistfræði fálka á Norðausturlandi hafa verið stundaðar síðan 1981. Helsta markmið með vöktun fálka er að fylgjast með breytingum á stofni tegundarinnar og tryggja að alltaf séu til upplýsingar um þróun og ástand stofnsins. Samhliða þessu er rannsökuð stofn- og atferlissvörun fálka við stofnsveiflu rjúpunnar. Rjúpa hefur verið aðalfæða fálka á rannsóknasvæðinu öll árin og eru tengsl tegundanna mjög sterk. Sem hluti af þessu langtímaverkefni er unnið að þróun stofnlíkans fyrir fálka.
Sumarið 2024 var gagna aflað um stærð varpstofns fálka á rannsóknasvæðinu, tímasetningu varps, viðkomu og fæðu. Samtals eru þarna þekkt 88 fálkaóðul og voru 87 þeirra heimsótt til að meta ábúð. Þrjátíu eða 34% voru í ábúð og af þeim var varp staðfest á þremur óðulum (10% óðala í ábúð). Pörin komu upp samtals sjö ungum. Meðalfjöldi unga á varppar var 2,3 og fuglarnir hófu varp á tímanum 12. til 23. apríl. Þetta er lélegasti varpárangur fálka frá upphafi rannsókna. Fæðuleifum var safnað við tvö hreiður og samtals fundust þar 93 fuglar sem flokkuðust í 10 tegundir. Mikilvægasta bráðin var rjúpa (54% miðað við fjölda) og í öðru sæti var heiðagæs (35%), aðrar tegundir voru mun sjaldgæfari (vógu 1‒2%).
Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019 og varpstofninn vorið 2024 var sá minnsti sem mælst hefur frá upphafi rannsókna. Fækkunin kemur á óvart því viðkoma fálka var mjög góð árin 2018 og 2019, en þessir árgangar hafa ekki skilað sér inn í varpstofninn. Líklega endurspeglar þessi fækkun í varpstofni fálka há afföll geldfugla og þar af leiðandi lélega nýliðun og mögulega skipta einnig máli aukin afföll óðalsfálka. Líklegur áhrifavaldur hér er fuglaflensa, en síðan 2022 eru fjögur staðfest tilvik um fálka sem drápust úr fuglaflensu.

Vöktun rjúpnastofnsins

Rjúpan er grasbítur og lykiltegund í íslensku vistkerfi. Stofnstærð hennar er mjög breytileg á milli ára, fjöldinn rís og hnígur og talað er um stofnsveiflur. Þessar sveiflur eru náttúruleg fyrirbæri og hafa verið við lýði um aldir. Margir vísindamenn telja að drifkraftar slíkra stofnbreytinga stafi að miklu leyti af tengingum innan fæðuvefsins. Í tilviki rjúpunnar má horfa til þátta líkt og fæðuvefstenginga rjúpunnar við beitarplöntur, meinvirka sjúkdóms­valda og sérhæfð rándýr. Enn fremur er rjúpa ein vinsælasta bráð skotveiðimanna á Íslandi. Kröfur samtímans er að allar slíkar veiðar skulu vera sjálfbærar og til að tryggja slíkt þarf bæði öfluga vöktun og skilvirka veiðistjórnun.
Náttúrufræðistofnun hefur sinnt vöktun rjúpunnar í áratugi en það er gert árlega með rjúpnatalningum, mælingum á viðkomu og aldursgreiningum úr veiði og varpstofni. Á sama tíma sér Náttúruverndarstofnun [áður Umhverfisstofnun] um skráningu á veiði og sókn. Gagnasafnið er hægt að nota til að útbúa stofnlíkan sem metur stofnstærð, viðkomu og afföll. Líkanið er einnig hægt að nota sem vísindalegan grunn veiðiráðgjafar við að meta leyfilegan fjölda veiðidaga og æskilegan afla. Gagnaraðir um stofnstærð, viðkomu og afföll má nota til að ráða í ástand stofnsins til lengri tíma litið.
Til að varpa ljósi á þá þætti sem kunna að hafa áhrif á stofnbreytingar rjúpu hafa fræðimenn við Náttúrufræði­stofnun, í samstarfi við vísindamenn víðar að, rannsakað bæði tengsl fálka og rjúpu og heilbrigði rjúpunnar. Þar sem fálki er sérhæfður með tilliti til fæðuvals og rjúpan er hans aðalfæða, er líf þessara tveggja tegunda samofið. Á Norðausturlandi eru stundaðar fálkarannsóknir sem felast í því að meta árlega stofnstærð fálka, viðkomu og fæðu. Niðurstöður rannsóknanna hafa styrkt skoðun okkar á því að fálkinn sé meðal áhrifavalda í stofnsveiflu rjúpunnar. Tengsl fálka og rjúpu mynda gagnvirkt samband rándýrs og bráðar og stofnstærð tegundanna tveggja helst í hendur en með töf; fálkastofninn nær hámarki um þremur til fjórum árum á eftir rjúpnastofninum.
Mynd sem sýnir rjúpu á flugiRjúpa á flugi á Austurlandi. Ljósm. Ólafur K. Nielsen.
Tvær rjúpur að voriRjúpur að vori á Siglufirði. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd sem sýnir rjúpukarra á flugiRjúpukarri á Austurlandi. Ljósm. Ólafur K. Nielsen.
Rjúpnatalningar vorið 2024 sýndu nokkrar breytingar á stofnstærð samanborið við árið 2023. Á Suðurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðvesturlandi var almenna reglan fækkun á milli ára en miðað við síðustu 20 ár er stofninn yfir meðallagi að stærð í þessum landshlutum. Á Norðausturlandi og Austurlandi fjölgaði rjúpum en það var þó ekki einhlítt og á nokkrum talningasvæðum var fækkun.
Varpárangur rjúpu hefur verið metinn árlega á Norðausturlandi og Vesturlandi í lok júlí og í byrjun ágúst en sumarið 2023 var sett aukið átak í ungatalningar og talið í öllum landshlutum og var þetta endurtekið 2024. Talningar í ár sýndu slaka viðkomu hjá rjúpum á Norðausturlandi, Vestfjörðum, og á Austurlandi. Á Suðurlandi, Vesturlandi og á Norðvesturlandi var viðkoman alls ekki góð en þó svipuð því sem verið hefur tíðast síðasta áratuginn eða svo. Líklegasta skýringin á lélegri viðkomu hjá rjúpunni í ár er hart hret sem gerði í fyrstu viku júní og rigningatíð á ungatíma í síðari hluta júní og í júlí.
Breytingar á holdastuðli ungra og fullorðinna fugla á Norðausturlandi hafa verið metnar síðan árið 2006. Árið 2024 var holdafar rjúpna með ágætum og hærra en við var búist vegna lélegrar viðkomu. Munur var á holdafari milli aldurs og kyns og ungir fuglar, og þá sérstaklega kvenfuglar, voru almennt í verra ástandi heldur en fullorðnir fuglar.
Samstarfsaðilar við vöktun rjúpunnar eru umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Náttúruverndarstofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrustofur Suðvesturlands, Vesturlands, Norðausturlands og Austurlands, SKOTVÍS, Fuglavernd og áhugafólk um líffræði rjúpunnar.

Visterfðamengjafræði rjúpunnar

Náttúrufræðistofnun vinnur að því að skilgreina og rannsaka erfðamengi rjúpunnar (Lagopus muta) með það að markmiði að öðlast dýpri skilning á líffræði, vistfræði og þróunarsögu tegundarinnar. Um er að ræða lang­tíma­verkefni sem hófst árið 2020 og er unnið í samstarfi við sérfræðinga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Svíþjóð.
Leitast er við að kanna tengsl erfðaupplags og örverusamfélaga við stofnbreytingar í rjúpu með því að nýta gagnasöfn og vefjasýni sem safnað var á árunum 2006–2018 í verkefninu Heilbrigði rjúpunnar. Efniviðurinn nýtist til að rannsaka heilraðgreind erfðamengi fugla, bakteríusamfélög og litningsenda (e. telomeres). Með þessari breiðu vísindalegu nálgun er ætlunin að greina erfðabreytileika og skilgreina svæði eða gen í erfða­menginu sem kunna að tengjast náttúruvali og aðlögun vegna ólífræns og lífræns áreitis. Slíka upplýsingar geta varpað ljósi á mögulega framtíðarstöðu rjúpunnar á Íslandi á tímum loftslagsbreytinga.

Vöktun hrafna

Vöktun hrafnsóðala á völdum svæðum hefur staðið yfir síðan 1981. Markmiðið er að rannsaka ábúð óðala, skrá varpútbreiðslu, meta varpárangur og fylgjast með breytingum á stofni. Þar sem hrafnar verpa á sömu stöðum ár eftir ár gefur ábúð á óðulum mikilvægar vísbendingar um þróun varpstofnsins. Vöktunin nær til svæða í Þing­eyjar­sýslu frá 1981, á Austurlandi á tímabilinu 1981–1987, Suðvesturlandi á árunum 1981–1987 og aftur frá 2009, auk Vesturlands þar sem vöktunin hófst 2009. Í tengslum við fálkatalningar í Þingeyjarsýslu hefur skipulega verið leitað að hrafnshreiðrum, auk þess sem heimildum um hrafnavarp hefur verið safnað víðs vegar um landið.
Á árinu 2024 voru heimsótt um 70 hrafnsóðul í Þingeyjarsýslu, um 50 á Suðvesturlandi og 20 á Vesturlandi. Síðan vöktunin hófst hefur verpandi hröfnum fækkað á flestum stöðum á landinu. Undantekning er höfuðborgarsvæðið þar sem hröfnum hefur fjölgað mikið síðan 2010 samhliða nýjum venjum fuglanna en þar má æ oftar sjá hrafna verpa í trjám. Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur, sem lést í nóvember síðastliðnum, hafði umsjón með vöktun hrafna á Suðvestur- og Vesturlandi um árabil. Árið 2024 sinnti hann verkefninu þrátt fyrir veikindi sín.
Mynd af hrafni við Hamarskotslæk í HafnarfirðiHrafn við Hamarskotslæk í Hafnarfirði. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd sem sýnir hrafn í æti við Hamarskotslæk í HafnarfirðiHrafn í æti við Hamarskotslæk í Hafnarfirði. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd af margæs á ÁlftanesiMargæs á Álftanesi. Ljósm. Erling Ólafsson.

Vöktun margæsa

Margæsir hafa viðdvöl á Íslandi vor og haust á leið sinni milli varpstöðva í A-Kanada og vetrarstöðva á Írlandi. Í 65 ár hefur vetrarstofninn verið metinn með árlegum talningum á vetrarstöðvum en markmiðið með verkefninu vöktun margæsa er að meta stærð farstofns og varpárangur. Árið 2001 hófust talningar á margæsum á Íslandi á haustin samtímis talningu á Írlandi, til að auka nákvæmni á heildarstofnstærðarmati. Talningarnar fara fram í október þegar allt að 70% fuglanna hafa safnast saman í Strangford Lough á austurströnd N-Írlands, áður en þeir dreifast suður um austurströnd og yfir á vesturströnd landsins.
Á sama tíma og talning á Írlandi fer fram eru margæsir einnig taldar um vestanvert Ísland. Með talningunni hér á landi fæst mat á hve stór hluti stofnsins er enn á Íslandi á talningardegi. Að meðaltali eru um 10% stofnsins enn hér á landi á þessum tíma en hlutfallið sveiflast talsvert, á bilinu 0–29%. Þann 9. október 2024 var flogið á alla helstu hauststaði margæsa í Faxaflóa og Breiðafirði, þar sem samtals 484 fuglar fundust. Margæsastofninn í upphafi vetrar reyndist 29.613 fuglar og voru 1,6% þess fjölda enn á Íslandi. Ungahlutfall var með minnsta móti eða 1,25%, samanborið við 17,5% árið 2023. Líklega stafar það af óhagstæðu tíðarfari á varpstöðvum, síðbúnum leysingum og lélegri sprettu.

Stærð margæsastofns að hausti 2020–2024

Vöktun grágæsa

Náttúrufræðistofnun tekur þátt í vöktun grágæsa, verkefni sem byggir á áralangri sögu talninga og rannsókna á stofninum. Upphaf þess má rekja til talninga á vetrarstöðvum grágæsa á Bretlandseyjum sem hófust árið 1960 en eftir 1990 bættust einnig við talningar hér á landi. Samhliða talningum hefur varpárangur verið metinn með því að greina hlutfall unga. Á árunum 1995–2000 áttu sér stað umfangsmiklar merkingar á grágæsum, meðal annars á Íslandi, og voru þær nýttar til að meta dánartíðni. Frá svipuðum tíma hafa veiðitölur verið skráðar auk þess sem veiðiafli hefur verið aldursgreindur. Vöktunin er unnin í samvinnu við British Trust for Ornithology (BTO), Joint Nature Conservation Committee (JNCC), á Englandi, NatureScot í Skotlandi, Umhverfisstofnun, Náttúrustofu Austurlands og Verkís.
Frá árinu 2004 hefur verið lagt mat á hversu margar grágæsir eru á Íslandi á þeim tíma sem talningar fara fram á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum. Þessi úttekt byggir á talningum bæði úr lofti og af landi, auk gagna frá almenningi. Í nóvember 2024 voru grágæsir taldar í Bretlandi og á sama tíma var lagt mat á fjölda þeirra hér á landi (26.169 fuglar). Í Bretlandi fara einnig fram hausttalningar á heiðagæsum. Samhliða þeim var upplýsingum safnað hér á landi í október (10.040 fuglar). Mat á fjölskyldustærðum fór fram síðsumars og að hausti. GPS-merkingar á grágæsum fóru fram í samstarfi við Verkís og Náttúrustofu Austurlands. Samantekt talninga fyrir árin 2023 og 2024 er enn í vinnslu hjá BTO.
Mynd af grágæs og snjógæs á Hamarskotslæk í HafnarfirðiGrágæs og snjógæs á Hamarskotslæk í Hafnarfirði. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd af lóuþræl við Garð á GarðskagaLóuþræll við Garð á Garðskaga. Ljósm. Erling Ólafsson.
Mynd af hrossagauk við Ástjörn í HafnarfirðiHrossagaukur við Ástjörn í Hafnarfirði. Ljósm. Erling Ólafsson.

Vöktun mófugla

Náttúrufræðistofnun hefur um árabil vaktað mófugla á tveimur svæðum, á Mýrum í Borgarbyggð frá 2006 og við neðanvert Markarfljót frá 2007. Markmið verkefnisins er að meta varpþéttleika og breytingar á fjölda yfir tíma. Talningarraðirnar sem fengist hafa úr vöktuninni eru þær lengstu sinnar tegundar hér á landi. Til mófugla teljast vaðfuglar, nokkrar spörfuglategundir, rjúpa og kjói en auk mófugla eru aðrar tegundir sem sjást við athuganir skráðar.
Sumarið 2024 fór fram átjánda talningin á Mýrum og sú sautjánda við Markarfljót og gengu talningar vel. Talið var á 201 punkti á Mýrum og 55 punktum við Markarfljót.
Meðalfjöldi sex algengustu tegunda vaðfugla (heiðlóu, hrossagauks, jaðrakans, lóuþræls, spóa og stelks) eftir svæðum og árum er birtur á vef Náttúrufræðistofnunar. Á Mýrum hefur verið þróunin verið neikvæð fyrir nokkrar tegundir, sérstaklega hrossagauk og heiðlóu. Hins vegar hefur jaðrakan fjölgað mikið síðan talningar hófust og einnig gætir fjölgunar hjá stelk.
Fjöldi fugla við Markarfljót hefur verið nokkuð breytilegur og hjá flestum tegundum ekki komið fram skýr leitni. Þó virðist heiðlóu hafa fækkað lítillega á meðan hrossagauk virðist hafa fjölgað nokkuð. Hjá sumum tegundum má sjá niðursveiflu á gosárunum 2010 og 2011 þegar gaus í Eyjafjallajökli og síðar Grímsvötnum.
Nú er unnið að endurskoðun válista fugla og munu talningagögn frá Mýrum og Markarfljóti nýtast við mat á vaðfuglastofnum. Ljóst er að fleiri tegundir úr þessum hópi munu bætast við á válistann.

Vöktun refastofnsins

Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með verkefninu vöktun refastofnsins, þar sem fylgst er með stofnbreytingum, viðkomu og vanhöldum íslenskra refa. Verkefnið er einstakt samstarfsverkefni milli veiðimanna og vísindamanna, þar sem veiðimenn um mestallt land leggja til gögn með því að senda stofnuninni hræ af felldum dýrum. Hræin eru nýtt til ýmissa mælinga, þar á meðal aldursgreininga. Niðurstöður aldursgreininga mynda grunninn að líftöflum, þar sem lagt er mat á hlutfall refa í hverjum aldursflokki og félagsgerð — þ.e. hvort þeir eru grendýr eða hlaupadýr — sem eru á lífi ár hvert. Út frá þessum gögnum, ásamt veiðigögnum, er unnið stofnlíkan og hingað til hefur verið miðað við stærð hauststofnsins á landinu í heild. Í friðlandi Hornstranda byggist stofnmat á vísitölum um fjölda gota (ábúðaþéttleika) og gotstærð, sem er sama aðferð og notuð er á öðrum búsvæðum tegundarinnar við norðurheimskautið.
Árið 2024 voru 305 innsendir refir krufðir og mældir. Kjálkar þeirra voru hreinsaðir og mældir og vígtennur dregnar úr til aldursgreiningar. Tekin voru vöðva- og eyrnasýni úr öllum krufðum dýrum til frekari rannsókna, mælinga og varðveislu í vísindasafni, ásamt kjálkum og tönnum. Öll gögn voru færð í gagnagrunn, sem virkjaður var í lok árs 2023. Mikill tími hefur farið í að bæta við og yfirfara fyrirliggjandi upplýsingar, auk þess að hnitsetja eins marga refi og hægt er. Grenjaskrá, sem hefur verið í vinnslu frá árinu 2016, hefur verið samkeyrð við gögn um veidd dýr. Í lok árs 2024 var búið að koma inn færslum um tæplega 13.000 mæld og aldursgreind dýr. Enn er þó talsverð vinna eftir við að yfirfara og villuprófa gögnin, laga þau og bæta við upplýsingum sem vantar, sérstaklega varðandi hnitun staðsetninga veiddra dýra.
Í umfangsmikilli rannsókn, sem hófst í febrúar 2023 og er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís, er unnið að greiningu á stofngerð íslensku tófunnar og stöðu hennar í fæðuvef. Gögnin eru fengin úr verkefninu vöktun refastofnsins, með sérstakri áherslu á þrjú landsvæði: Árnessýslu, N-Ísafjarðarsýslu og N-Múlasýslu. Á árinu voru tekin sýni úr refakjálkum til mælinga á stöðugum samsætum sem gefa til kynna fæðusamsetningu refa í Árnessýslu frá tímabilinu 1979–2020. Niðurstöður greininganna bárust í nóvember 2024 og er unnið að túlkun og framsetningu gagnanna í meistaraverkefni við Háskóla Íslands. Sambærileg gögn lágu þegar fyrir frá Vestfjörðum og Austurlandi.
Lífssýni til heilraðgreiningar erfðaefnis voru valin úr 62 refum af þremur landsvæðum: Vestfjörðum, Austurlandi og Suðvesturlandi. Unnið hefur verið að greiningunum, tölfræðilegri úrvinnslu og túlkun gagnanna, auk svipfarsmælinga refakjálka og skrifa á vísindagreinum um niðurstöður rannsóknanna sem hluta af doktorsverkefni við Háskóla Íslands. Fyrstu niðurstöður benda til þess að nokkur munur sé á svipgerð og að genaflæði milli refa á þessum svæðum sé takmarkað.
Gögn um aldursgreiningar og samsetningu veiða samkvæmt veiðitölum hafa verið notuð til að þróa drög að stofnlíkani sem á að meta stofnstærð á mismunandi landsvæðum. Líkanið er sett upp þannig að veiðitölur sveitafélaga endurspegli úrtak úr heildarstofni á hverju landsvæði og innsend sýni gefi mynd af stofninum innan þess landsvæðis. Aldursdreifing er reiknuð út frá innsendum sýnum til að meta lífslíkur, sem eru breytilegar eftir árstíma, aldurshópum og jafnvel lengri tímabilum í takt við stofnbreytingar. Nú er verið er að prufukeyra líkanið og sannreyna hvort það geti endurspeglað landfræðilegan mun. Til þess er nauðsynlegt að kortleggja flutning refa á milli landsvæða.
Mynd af ref á HornströndumRefur, karldýr (sama dýr og á mynd lengst til hægri). Ljósm. Ester Rut Unnsteinsdóttir.
Mynd af ref á HornströndumÞessi refur var við Miðdalsvatn í Hornbjargi, spakt karldýr sem var ekki með yrðlinga en hélt til á svæðinu allt sumarið. Ljósm. Ester Rut Unnsteinsdóttir.
Mynd af ref á Hornströndum sem horfir beint í myndavélinaRefur á vappi við Hornbjargsvita, hann var þar ásamt læðu af sama lit. Þau voru ekki með yrðlinga. Ljósm. Ester Rut Unnsteinsdóttir.
Í október fór af stað doktorsverkefni við Háskóla Íslands með áherslu á rannsóknir á ferðum refa. Á meðan beðið er eftir nothæfum senditækjum hefur tíminn verið nýttur til að skoða útbreiðslu litarafbrigða og breytingar á hlutfalli hvítra og mórauðra refa eftir tímabilum. Jafnframt er unnið að því að greina fæðu refa með erfðaefni (mDNA) úr saursýnum og prófað verður að einangra erfðaefni einstakra refa úr saur. Þeirri aðferð hefur áður verið beitt, til dæmis í Noregi. Ef hún reynist árangursrík gæti það skapað möguleika á að greina erfðaefni refa um allt land með ódýrari og einfaldari hætti en áður hefur verið gert.
Á síðasta ári áttu Sveitarfélagið Skagafjörður, Náttúrustofa Norðurlands vestra og Náttúrufræðistofnun samstarf um meistaraverkefni við Háskólann í Glasgow. Verkefnið felst í að nýta veiðigögn til að greina refastofninn í sveitarfélaginu. Þar sem ekki var til löng gagnaröð með aldursgreiningum og mælingum frá svæðinu, var stuðst við gögn úr refaveiðiskýrslum, sem innihéldu upplýsingar um ábúð refa (fjölda gota), staðsetningar grenja og gotstærð. Unnið var að þróun spálíkans til að meta annars vegar búsvæðanotkun og hins vegar áhrif veiða. Meistararitgerðin ber heitið Population Dynamics of the Icelandic Arctic Fox: Resilience of a Climate Change Flagship Species. Áformað er að birta vísindagrein um niðurstöðurnar.
Síðastliðið haust var unnið að B.S.-verkefni í líffræði við Háskóla Íslands þar sem greind var stærð kjálka hjá íslenska melrakkanum. Notuð voru gögn og sýni úr vísindasafni Náttúrufræðistofnunar til að kanna hvort og þá hvernig eyrnamaur gæti haft áhrif á stærð kjálka. Niðurstöður mælinga benda til þess að sýking af völdum eyrnamaurs hafi engin áhrif á stærð kjálka. Þó ber að túlka þennan samanburð með fyrirvara og leiðrétta fyrir þá staðreynd að eyrnamaur finnst eingöngu í refum á Vestfjörðum.
Á árinu 2024 birtist þriðja og síðasta greinin í ritröðinni Íslenski melrakkinn í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Greinin fjallar um sjúkdóma og aðra skaðvalda sem hafa fundist í refum á Íslandi eða gætu borist hingað.