Dýrafræði
Vöktun skógarmítla
Síðan 2015 hefur Náttúrufræðistofnun verið þátttakandi í samstarfsverkefninu
VectorNet, sem er á vegum European Centre for Disease Prevention and Control (ECDC) og European Food Safety Authority (EFSA). Markmið verkefnisins er að kortleggja útbreiðslu sýklabera í Evrópu. Á Íslandi felst þátttakan í
vöktun á skógarmítlum (Ixodes ricinus), auk miðlunar upplýsinga um aðrar tegundir stórmítla (Ixodidae) og lúsmý
(Culicoides reconditus). Verkefnið hefur stuðlað að farsælu samstarfi við sérfræðinga hjá UK Health Security Agency, þar sem skordýrafræðingur stofnunarinnar hefur hlotið dýrmæta þekkingu og reynslu sem áður var takmörkuð hér á landi.
Á Íslandi hafa fundist 12 tegundir stórmítla (Ixodidae): lundamítill (Ceratixodes uriae), klettamítill (Scaphixodes caledonicus), brekkumítill (S. Rothschildi), skógarmítill (Ixodes ricinus), broddgaltamítill (I. Hexagonus), dádýramítill (I. cf scapularis), hundamítill (Rhiphicephalus sanguineus s.l.), rakkamítill (Dermacentor variabilis), skjaldbökumítill (Hyalomma aegyptium), stjörnumítill (Amblyomma americanum) og Haemaphysalis erinacei og Ixodes frontalis, sem hafa ekki hlotið íslenskt heiti. Aðeins þrjár þessara tegunda eru landlægar: lundamítill, klettamítill og brekkumítill. Skógarmítill er ekki talinn landlægur þar sem ekki hefur tekist að sýna fram á að hann klári lífsferil sinn hér á landi.
Undanfarin ár hefur markviss leit að skógarmítlum í íslenskri náttúru skilað 44 eintökum á þremur stöðum: í Mýrdal, á Skógum undir Eyjafjöllum og á Höfn í Hornafirði. Hins vegar hefur reynst árangursríkara að safna skógarmítlum beint af farfuglum sem koma til landsins á vorin, í tengslum við fuglamerkingar.
Í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands var á árunum 2016–2024 safnað 1.611 skógarmítlum. Vorið 2024 fannst ný mítlategund á Íslandi þegar kvendýr af tegundinni Ixodes frontalis fannst á skógarþresti við komu hans til landsins. Skógarþröstur er algengasti hýsillinn sem ber með sér mítla til landsins en auk hans hafa mítlar fundist á svartþresti og laufsöngvara. Einnig er vitað að steindepill og þúfutittlingur hafa borið skógarmítla til landsins.
Hluti þeirra skógarmítla sem safnað hefur verið hefur verið rannsakaður með tilliti til sýkla í samstarfi við UK Health Security Agency og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Vísindagrein með niðurstöðum rannsóknarinnar er til ritrýningar í tímaritinu Parasites & Vectors.
Nýir landnemar smádýra
Náttúrufræðistofnun fylgist með breytingum á smádýrafánu landsins, þar á
meðal landnámi nýrra tegunda. Stundum finnast tegundir sem ekki hafa verið skráðar áður en það þýðir ekki endilega að þær séu nýir landnemar. Í sumum tilvikum geta tegundir hafa verið til staðar lengi án þess að hafa vakið athygli. Breytingar á veðurfari og umhverfisaðstæðum geta skapað hagstæðari skilyrði fyrir slíkar tegundir og gert þær sýnilegri.
Að finna fágætar tegundir krefst þekkingar, athygli og skipulagðrar vinnu. Stöðugt berast til landsins tegundir sem hingað til hafa ekki átt hér náttúruleg heimkynni. Þær koma oftast með innflutningi varnings en sumar berast einnig af sjálfsdáðum. Með hlýnandi loftslagi og aukinni gróðursæld skapast smám saman aðstæður sem gera slíkum tegundum kleift að nema hér land. Það er hins vegar oft erfitt að meta hvenær nýfundnar tegundir hafa náð varanlegri fótfestu. Landnám getur tekið nokkur ár þar sem nýjar tegundir þurfa tíma til að festa sig í sessi á nýjum svæðum. Aukinn innflutningur varnings eykur einnig líkurnar á að smádýr berist til landsins. Ekki eru þó allir nýliðarnir velkomnir, þar sem sumir geta valdið tjóni á garðagróðri og öðru gróðurlendi.
Ljósgildrur sem notaðar eru við fiðrildavöktun hafa reynst afar gagnlegar til að fylgjast með landnámi nýrra tegunda og þróun þeirra hér á landi. Dæmi um nýlega landnema sem hafa náð að festa sig í sessi eru birkikemba (Heringocrania unimaculella), birkiglitmölur (Argyresthia goedartella), grenivefari (Epinotia tedella) og vorflugan Micropterna sequax.