Fara í innihald

Grasafræði

Flóra Íslands

Hjá Náttúrufræðistofnun er unnið að skráningu plöntutegunda á Íslandi og kortlagningu á útbreiðslu þeirra. Einnig er aflað upplýsinga um búsvæði plantna og tekin sýni af sem flestum tegundum til varðveislu í plöntusafni stofnunarinnar. Að auki eru stundaðar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni plantna, sem spanna allt frá stofnerfðafræði, flokkunarfræði og tegundalíffræði til plöntusamfélaga og líflandafræði.
Árið 2024 hlaut Náttúrufræðistofnun 2,5 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til að halda áfram að kortleggja útbreiðslu framandi mosategundarinnar hæruburstar (Campylopus introflexus). Rannsóknin byggði á fyrri athugunum sem bentu til þess að hæruburst gæti reynst ágeng tegund og haft neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika með því að mynda þéttar breiður og ryðja staðbundnum gróðri úr vegi. Helstu háhitasvæði landsins voru skoðuð, þar sem tegundin hafði annaðhvort þegar fundist eða talið var líklegt að hún hefði náð fótfestu. Meðal svæða sem rannsökuð voru má nefna Hengilssvæðið, Geysi, Hveravelli, Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið, Vonarskarð og Þingeyjarsveit. Á hverjum stað var útbreiðsla hæruburstar skráð, flatarmál vaxtarsvæða mælt og jarðvegshiti mældur til að varpa ljósi á kjöraðstæður fyrir mosann. Auk þess var sýnum safnað til að staðfesta tegundagreiningu. Niðurstöður sýndu að hæruburst hefur fest sig í sessi á nokkrum rannsóknarsvæðum og að tegundin geti auðveldlega breiðst út víðar ef ekki er fylgst grannt með þróuninni. Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar var birt í desember 2024. Þar er gerð grein fyrir útbreiðslu mosans og þeim umhverfisþáttum sem geta haft áhrif á vöxt hans. Skýrslan mun nýtast sem grunnur að frekari rannsóknum og tillögum að varúðarráðstöfunum til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika jarðhitasvæða.
Útbreiðsla hæruburstar var könnuð á nokkrum háhitasvæðum, meðal annars TorfajökulssvæðinuÚtbreiðsla hæruburstar var könnuð á nokkrum háhitasvæðum, meðal annars á Torfajökulssvæðinu. Ljósm. Olga Kolbrún Vilmundardóttir.
Á árinu var einnig birt ný vísindagrein í tímaritinu Plants sem tengist rannsóknum á íslenskum æðplöntum.
Á árinu var áhersla lögð á tvö verkefni sem tengjast vistfræði plantna og landnámi þeirra. Annars vegar var unnið að rannsókn á tveimur burknategundum, skollakambi (Struthiopteris spicant) og tunguskollakambi (S. fallax), sem vaxa á ólíkum búsvæðum, meðal annars í heitum jarðvegi við Deildartunguhver. Í rannsókninni var vistfræðileg og arfgerðarleg aðlögun tegundanna borin saman, meðal annars með erfðarannsóknum (GBS), með það að markmiði að kanna hvort marktækur erfðafræðilegur munur væri á þeim. Hins vegar var unnið að rannsókn sem byggir á áratugalangri gagnaseríu um landnám plantna á Surtsey. Þar var prófuð vel þekkt vistfræðikenning um dreifingarhætti plantna, sem gerir ráð fyrir að frælögun hafi áhrif á dreifingarleiðir. Sérstaklega var skoðað hvort tegundir með svokallaða „langdrægni-eiginleika“ hefðu yfirburði í landnámi á Surtsey og hvort staðsetning nýrra landnámstilvika samræmdist væntingum út frá dreifingarháttum. Niðurstöður úr þessum rannsóknum munu birtast í vísindagreinum á næstu árum.

Vöktun válistaplantna

Reglulegt eftirlit er haft með fundarstöðum plantna á válista til að meta ástand tegunda og fylgjast með breytingum í stofnstærð. Verkefnið er unnið í samstarfi við Grasagarðinn í Reykjavík, Lystigarð Akureyrar og náttúrustofur á landinu.
Sumarið 2023 var flæðarbúi (Spergularia salina) í fyrsta sinn skráður í Viðey. Tegundin er friðlýst og hefur áður aðeins fundist á þremur stöðum á Vesturlandi, þar sem hún vex á sjávarfitjum og leirum. Sumarið 2024 var útbreiðsla plöntunnar könnuð í Viðey, en þar sem rannsóknin fór fram utan blómgunartíma væri æskilegt að endurtaka hana síðar til að fá skýrari mynd af útbreiðslunni.
Í september var farin vettvangsferð um landið til að skoða vaxtarstaði rauðberjalyngs (Vaccinium vitis-idaea), blæaspar (Populus tremula), þyrnirósar (Rosa spinosissima), skeggburkna (Asplenium septentrionale), burstajafna (Lycopodium clavatum) og mosaburkna (Hymenophyllum wilsonii). Sú síðastnefnda hefur ekki fundist undanfarin ár þrátt fyrir ítrekaða leit og fannst hún heldur ekki árið 2024. Í ferðinni var útbreiðsla tegundanna metin og gróðursamsetning á 15 vaxtarstöðum skráð.
Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) í ReyðarfirðiRauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea), ásamt fleiri tegundum, í Reyðarfirði. Ljósm. Magnus Göransson.

Funga Íslands – sveppir

Náttúrufræðistofnun safnar gögnum um sveppi, skráir tegundir, kortleggur útbreiðslu og rannsakar búsvæði. Jafnframt er safnað sýnum af sem flestum tegundum til varðveislu í sveppasafni stofnunarinnar.
Almenningur gegnir mikilvægu hlutverki í öflun upplýsinga um sveppi, þar sem fólk hefur oft samband við stofnunina með fyrirspurnir eða sendir inn eintök sem vakið hafa athygli þess. Sveppafræðingur stofnunarinnar heldur úti Facebook-hópnum Funga Íslands – sveppir ætir eður ei, þar sem fólk getur fengið fræðslu um sveppi sem það finnur og deilt myndum af þeim. Árið 2024 fundust víða um land ýmsir áhugaverðir sveppir, sem margir eru nú varðveittir í sveppasafni stofnunarinnar.
Fræðiheiti
Íslenskt heiti
Upplýsingar
Sporormiella tela
Mynd af taðsveppinum Hulutaðnurta
Hulutaðnurta
Taðsveppur fannst á gæsaskít sem safnað var í júlí 2002 í Ásbyrgi og við Eldgjá. Upphaflega tókst aðeins að greina hann sem taðnurtu. Þegar sambærilegur sveppur fannst á gæsaskít í New York-borg árið 2023 voru íslensku sýnin send til nánari greiningar. Kjarnsýrur náðust úr sýninu frá Eldgjá, og þegar tegundinni S. Tela var lýst sem nýrri sveppategund snemma árs 2024 voru íslensku sýnin tvö tekin með í umfjölluninni um hana. Ljósm. Sigrid Jakob.
Volvopluteus gloiocephalus
mynd af  Garðsokkþekja
Garðsokkþekja
Tegundin fannst í matjurtagarði í Fossvogsdal í Kópavogi snemma í júlí 2024, þar sem nokkuð mörg aldin ljóss svepps höfðu sprottið upp innan um grænmetið. Tegundin fannst fyrst árið 2012 í matjurtagarði í Mosfellsbæ og sennilega einnig í trjábeði í Reykjavík í júníbyrjun 2023, þó það hafi ekki verið staðfest. Ljósm. Ingólfur Birgisson.
Lepista nuda
Sveppurinn Fjólujússa
Fjólujússa
Tegund sem hefur fundist nokkrum sinnum hérlendis, yfirleitt með fá aldin í görðum í þéttbýli, fannst í ágúst á bæ í Reykholtsdal í Borgarfirði. Þar hafði hún myndað fjölda aldina á bletti með moltu. Ljósm. Lilja Otta.
Ampelomyces quisqualis
holsveppur Ampelomyces quisqualis
Tegundin er vankyns holsveppur sem sníkir á asksveppnum kattartungumélu (Golvinomyces sordidus), sem sjálfur sníkir á kattartungu (Plantago maritima). Þessi sveppasníkjusveppur fannst við höfnina á Hólmavík í lok júlí 2024 og stækkar þar með þekkt útbreiðslusvæði kattartungumélu, sem áður hafði fundist á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Gróhirslur voru dökkar og mjókkuðu til beggja enda. Gróin voru glær, sléttveggja og nokkuð hólklaga en mjókkuðu ögn að aftan og mældust um 9 µm að lengd. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.
Fuligo septica (var. rufa)
(Roða)Tröllasmjör
Slímsveppur sem fannst í fáeinum eintökum efst á viðarkurlshaug, sem hafði hitnað í, á bílastæði við Kjarnamela í Kjarnaskógi á Akureyri í byrjun ágúst 2024. Sagt er að tröllasmjör hafi fundist á blautu timbri í vermireitum og gróðurhúsum fyrir 60–70 árum og verið lýst sem „mjúku sveppaslími með sterkum litum“. Þar sem þessi frumvera hafði rauðbrúnan litatón er líklegt að um afbrigðið rufa sé að ræða, sem sumar heimildir telja ekki ástæðu til að greina frá aðaltegundinni. Þroskuð gróhirsla frumverunnar var sítrónugul að innan með dökkum hjúpi. Þetta er fyrsti fundur tröllasmjörs hérlendis í um 60 ár og sá fyrsti sem hægt er að staðfesta. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.
Coprinellus flocculosus
sveppur kallaður Hnökrablekill
Hnökrablekill
Tegundin fannst í viðarkurli á Eiðum í Eiðaþinghá í byrjun ágúst 2024. Náttúrufræðistofnun barst faglega frágengið þurrkað sýni, sem leiddi í ljós að einkenni frumna í ljósum hnökrum á hatti, sem og stærð og lögun gróa, pössuðu við lýsingu tegundarinnar. Ljósm. Valdemar Gomes.
Spinellus fusiger
Oksveppur Spinellus fusiger
Oksveppur, sem sníkir á hattsveppum, einkum á helmum (Mycena-tegundum), fannst í blönduðum grenilundi í Vaglaskógi í Fnjóskadal. Þar löfðu langir, dökkir gróhirsluberar hans niður úr hatti aldina skógskottu (Gymnopus dryophilus), sem þar voru nokkur saman. Sveppurinn myndaði bæði vankyns gró í gróhirslum og tilkomumikil okgró þar sem kynæxlun átti sér stað. Þetta er fyrsti skráði fundur þessa sveppasníkjusvepps hérlendis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.
Collariella bostrychodes
mynd af Gormstrýnebba
Gormstrýnebba
Tegundin fannst á dauðri asparglyttu (Phratora vitellinae), sem er bjöllutegund sem lifir á laufum aspa- og víðitrjáa, í tilraun þar sem kannað var hvort snerting við sveppinn mjölkylfing (Cordyceps farinosa), sem sníkir á skordýrum, myndi duga til að drepa bjölluna. Frá dauðri bjöllunni stóðu út tveir gráleitir, krullaðir brúskar, sem reyndust vera hár askhirslu. Neðri hluti háranna var þráðbeinn, en endarnir voru uppsnúnir eins og mjókkandi gormur, með víðustu snúningana neðst og þá grennstu við endann, alls 8–10 snúninga. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.
Tremiscus helvelloides
Hlaupsveppur Tremiscus helvelloides
Um 55 mm hár laxableikur hlaupsveppur, tungulaga til næstum trektlaga. Efri hluti að innanverðu er með með óreglulegum fellingum. Tegundin er rotsveppur sem vex aðallega á niðurgröfnum barrviði, sagi og viðarkurli. Hún er sögð vera tiltölulega fjallsækin en er fremur fátíð í Evrópu. Eintak af sveppinum fannst í greniskógi á Tumastöðum í Fljótshlíð um miðjan ágúst 2024. Gró voru ljós og sléttveggja, sporbaugótt til digurhólklaga með nokkuð þvera en ávala enda, 12–15 × 7,0 µm að stærð. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.
Exidia recisa
Hlaupsveppur Víðibólstur
Víðibólstur
Ljósbrúnn hlaupsveppur, sem vex á uppistandandi dauðum greinum og stofnum víðis, fannst rétt norðan Rauðavatns í Reykjavík í lok mars 2022 á dauðum stofni víðitegundar. Í desember 2024 fannst hann einnig á dauðum víði við Álftavatn í Grímsness- og Grafningshreppi. Sveppurinn var greindur sem víðibólstur, sem einkennist af fellingum á brún hvers hlaupkennds aldins og myndar allstór bjúglaga kólfgró. Þetta er fyrsti staðfesti fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson.
Gomphidius maculatus
sveppurinn Lerkigompur
Lerkigompur
Tegundin fannst fyrst í Kjarnaskógi við Akureyri árið 1984 en tegundin tengist lerki og lerkisveppi (Suillus grevillei). Lerkigompur fannst aftur í Suðurdal Skriðdals sunnan Víðilækjar seinnihluta ágúst 2024. Þetta er annar skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Mikael Jeppson.
Tveir sænskir sveppafræðingar heimsóttu sveppasafn Náttúrufræðistofnunar í ágúst 2024 og greindu sveppasýni. Tuttugu sýni, sem áður höfðu verið greind sem bláfótarhadda (Inocybe calamistrata), reyndust tilheyra þremur mismunandi tegundum: Inosperma subhirsutum (12 sýni), Inosperma praetermissum (5 sýni) og Inosperma gracilentum (3 sýni). Af þessu var ályktað að megnið af þeim sýnum í safninu, sem áður höfðu verið greind sem bláfótarhadda, tilheyri í raun skyldum tegundum sem líkjast henni. Auk þess voru sex áður ógreind höddusýni greind og reyndust vera Inosperma geraniodorum (2 sýni), Inocybe phaeocystidiosa (1 sýni), Inocybe favrei (2 sýni) og Inocybe lindrothii (1 sýni). Nokkur ógreind sýni af belgsveppum voru skoðuð. Sum reyndust ekki nægilega þroskuð til að hægt væri að greina þau, en önnur voru greind til tegunda. Á ferð sinni um landið söfnuðu sveppafræðingarnir sýnum og frekari upplýsingar um þau verða væntanlega tiltækar þegar greiningu lýkur.

Greiningar á myglusveppum

Náttúrufræðistofnun hefur frá árinu 2006 tekið á móti sýnum úr byggingum til greiningar á myglusveppum sem þar kunna að vaxa. Sýnin berast hvoru tveggja frá einstaklingum og fyrirtækjum. Þar sem mygla í húsnæði getur verið heilsuspillandi hefur aukin þekking á áhrifum hennar leitt til talsverðrar eftirspurnar eftir greiningum.
Árið 2024 voru greind alls 1.093 sýni, þar af 1.017 sýni sem fyrirtæki af ýmsu tagi sendu inn til greiningar af fyrirtækjum af ýmsu tagi og 76 sýni frá almenningi. Meðalafgreiðslutími frá móttöku sýna til afhendingar niðurstaðna var 8,4 dagar. Greiningarniðurstöður sýna að funga rakra bygginga er nokkuð fjölbreytt og til þessa hafa yfir hundrað tegundir innimyglu verið greindar á Náttúrufræðistofnun. Sumar tegundir eru afar algengar, aðrar hafa aðeins fundist einu sinni, og allt þar á milli.
Meðal algengustu sveppategunda sem greinst hafa í sýnum úr húsnæði eru tegundir af ættkvíslinni Cladosporium, einkum Cladosporium sphaerospermum og Cladosporium cladosporioides. Einnig má nefna tegundir úr smáeskingsætt (Microascaceae), svo sem Microascus paisii (áður Scopulariopsis brumptii). Algengar eru líka tegundir af Aspergillus-ættkvíslinni, þar á meðal Aspergillus versicolor (litafrugga) og Aspergillus glaucus (áður Eurotium herbariorum, gráfrugga). Þá má nefna Monodictys putredinis, Sterigmatobotrys macrocarpus, Chaetomium globosum (kúlustrýnebba), Tritirachium oryzae og Sarocladium strictum (áður Acremonium strictum) sem dæmi um aðrar tegundir sem finnast reglulega.
Myglusveppir á ætisskálÆtisskál með 149 þyrpingum af litafruggu og öðrum myglusveppum úr loftsýni í íbúðarhúsi þar sem mygla fannst í september 2024. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.

Frjómælingar

Náttúrufræðistofnun hefur um árabil sinnt mælingum á frjókornum í andrúmslofti og greint þau til tegunda með það að markmiði að afla upplýsinga um magn og tegundafjölbreytni. Upplýsingarnar nýtast meðal annars einstaklingum með frjóofnæmi.
Náttúrufræðistofnun hefur á undanförnum árum unnið að þróun sjálfvirks frjóvöktunarkerfis til að mæta vaxandi eftirspurn eftir rauntímagögnum um magn og tegundir frjókorna í andrúmslofti. Verkefnið er unnið með stuðningi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og byggir á notkun hátæknibúnaðarins SwisensPoleno Mars, sem greinir frjókorn með stafrænni heilmyndun og gervigreind.
Sjálfvirkar frjómælingar hófust á Akureyri seint að sumri 2022 og þann 15. maí 2024 var annað mælitæki sett upp á þaki húsnæðis stofnunarinnar í Urriðaholti í Garðabæ. Með þessu fyrirkomulagi birtast niðurstöður mælinga á vef stofnunarinnar innan nokkurra mínútna frá því að þær berast og graf er uppfært á klukkustundar fresti. Þessi hraða miðlun upplýsinga gerir einstaklingum með frjóofnæmi og heilbrigðisstarfsfólki kleift að bregðast fyrr við háum styrk frjókorna og eykur jafnframt nákvæmni frjókornaspár, sem spáir fyrir um fjölda frjókorna næstu daga. Með tilkomu sjálfvirka kerfisins var vikulegum tölvupóstsendingum til áskrifenda hætt og í staðinn eru allar upplýsingar nú aðgengilegar á vef stofnunarinnar.
Náttúrufræðistofnun tekur einnig þátt í evrópska verkefninu EUMETNET AutoPollen Programme (2024–2028), sem miðar að þróun sjálfvirks frjóvöktunarkerfis í álfunni. Markmið verkefnisins er að bæta nákvæmni í greiningu frjókorna og samræma gagnaöflun milli landa. Þessi samhæfing nýtist jafnt í heilbrigðisvísindum, loftslagsrannsóknum og rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni.
Árið 2024 birtist grein í tímaritinu Allergy þar sem fjallað er um áhrif loftslagsbreytinga á frjókornaspár. Háþróuð tölvulíkön voru notuð til að spá fyrir um daglegan styrk frjókorna í 23 borgum víðs vegar um heiminn og sýna niðurstöður að slík líkön geta veitt nákvæmari spár, sem geta skipt sköpum fyrir lífsgæði fólks með frjóofnæmi. Þá birtist í tímaritinu Scientific Data grein um frjótímabil þriggja helstu ofnæmisvaldandi trjátegunda í Evrópu: elris (Alnus), birkis (Betula) og ólífu (Olea), þar sem notuð voru gögn frá 34 Evrópulöndum frá árunum 1980–2022.
Náttúrufræðistofnun tók þátt í stærstu alþjóðlegu ráðstefnu ársins á sviði loftlíffræði og kynnti þar fyrstu niðurstöður af notkun SwisensPoleno Mars á Íslandi, rannsókn á fjarlægðardreifingu birkifrjókorna (Betula spp.) til landsins og samanburð á gras- og birkifrjókornatímabilum á Akureyri og í Kraká í Póllandi á árunum 1998–2023.
Árið 2024 var unnið að tveimur vísindagreinum sem byggjast á þessum rannsóknum og verða þær birtar árið 2025. Í fyrri greininni er sjónum beint að uppruna birkifrjókorna (Betula spp.) á Íslandi, með sérstakri áherslu á dreifingu þeirra með vindum frá öðrum löndum. Í seinni greininni eru borin saman frjókornatímabil birkis og grasa á Akureyri (65°N) og í Kraká í Póllandi (50°N), með sérstakri áherslu á áhrif landfræðilegrar legu og veðurfars á styrk og tímasetningu frjókornalosunar. Báðar greinarnar eru mikilvægt framlag til loftlíffræði og auka skilning á flutningi frjókorna til Íslands. Þekkingin hefur bæði vísindalegt gildi og gildi fyrir lýðheilsu, sérstaklega fyrir einstaklinga með frjókornaofnæmi.Birkireklar tilbúnir að dreifa frjóum sínumBirkireklar tilbúnir að dreifa frjóum sínum. Ljósm. Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz.

Gróðureldar

Gróðureldar geta valdið verulegum skemmdum á vistkerfum og losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Endurvöxtur gróðurs og landnám plantna og dýra á sér stað í kjölfar gróðurelda, þótt hraði þeirra ferla sé breytilegur. Áhrif bruna velta meðal annars á því á hvaða árstíma eldurinn varð, hversu djúpt bruninn náði, hvaða tegund gróðurlendis brann, hvort svæði var albrunnið eða á blettum og hvort lífrænn jarðvegur er til staðar eftir brunann.
Frá árinu 2006 hefur Náttúrufræðistofnun kortlagt og skráð flesta stærra gróðurelda utan þéttbýlis. Misjafnt er á milli ára hversu mikið er um elda og þar skiptir árferði miklu máli og veðurfar á útmánuðum, einkum á suður- og vesturhluta landsins. Árið 2024 var hagstætt hvað gróðurelda varðar og engir umfangsmiklir eldar áttu sér stað, að undanskildum eldum við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga, samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem sér um skipulegar skráningar á útköllum slökkviliða. Eldarnir við gosstöðvarnar voru á svæðum sem fljótlega fóru undir hraun.
Árið 2024 tók Náttúrufræðistofnun þátt, ásamt fleiri aðilum, í verkefni Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra um endurskoðun á forvörnum og viðbragðsáætlunum vegna gróðurelda. Aðkoma stofnunarinnar að verkefninu byggðist á tveggja áratuga kortlagningu og rannsóknum stofnunarinnar á gróðureldum og verður áframhald á þeirri vinnu á næstu misserum.