Fræðiheiti | Íslenskt heiti | Upplýsingar |
---|---|---|
Sporormiella tela ![]() | Hulutaðnurta | Taðsveppur fannst á gæsaskít sem safnað var í júlí 2002 í Ásbyrgi og við Eldgjá. Upphaflega tókst aðeins að greina hann sem taðnurtu. Þegar sambærilegur sveppur fannst á gæsaskít í New York-borg árið 2023 voru íslensku sýnin send til nánari greiningar. Kjarnsýrur náðust úr sýninu frá Eldgjá, og þegar tegundinni S. Tela var lýst sem nýrri sveppategund snemma árs 2024 voru íslensku sýnin tvö tekin með í umfjölluninni um hana. Ljósm. Sigrid Jakob. |
Volvopluteus gloiocephalus ![]() | Garðsokkþekja | Tegundin fannst í matjurtagarði í Fossvogsdal í Kópavogi snemma í júlí 2024, þar sem nokkuð mörg aldin ljóss svepps höfðu sprottið upp innan um grænmetið. Tegundin fannst fyrst árið 2012 í matjurtagarði í Mosfellsbæ og sennilega einnig í trjábeði í Reykjavík í júníbyrjun 2023, þó það hafi ekki verið staðfest. Ljósm. Ingólfur Birgisson. |
Lepista nuda ![]() | Fjólujússa | Tegund sem hefur fundist nokkrum sinnum hérlendis, yfirleitt með fá aldin í görðum í þéttbýli, fannst í ágúst á bæ í Reykholtsdal í Borgarfirði. Þar hafði hún myndað fjölda aldina á bletti með moltu. Ljósm. Lilja Otta. |
Ampelomyces quisqualis ![]() | Tegundin er vankyns holsveppur sem sníkir á asksveppnum kattartungumélu (Golvinomyces sordidus), sem sjálfur sníkir á kattartungu (Plantago maritima). Þessi sveppasníkjusveppur fannst við höfnina á Hólmavík í lok júlí 2024 og stækkar þar með þekkt útbreiðslusvæði kattartungumélu, sem áður hafði fundist á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Gróhirslur voru dökkar og mjókkuðu til beggja enda. Gróin voru glær, sléttveggja og nokkuð hólklaga en mjókkuðu ögn að aftan og mældust um 9 µm að lengd. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. | |
Fuligo septica (var. rufa) ![]() | (Roða)Tröllasmjör | Slímsveppur sem fannst í fáeinum eintökum efst á viðarkurlshaug, sem hafði hitnað í, á bílastæði við Kjarnamela í Kjarnaskógi á Akureyri í byrjun ágúst 2024. Sagt er að tröllasmjör hafi fundist á blautu timbri í vermireitum og gróðurhúsum fyrir 60–70 árum og verið lýst sem „mjúku sveppaslími með sterkum litum“. Þar sem þessi frumvera hafði rauðbrúnan litatón er líklegt að um afbrigðið rufa sé að ræða, sem sumar heimildir telja ekki ástæðu til að greina frá aðaltegundinni. Þroskuð gróhirsla frumverunnar var sítrónugul að innan með dökkum hjúpi. Þetta er fyrsti fundur tröllasmjörs hérlendis í um 60 ár og sá fyrsti sem hægt er að staðfesta. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. |
Coprinellus flocculosus ![]() | Hnökrablekill | Tegundin fannst í viðarkurli á Eiðum í Eiðaþinghá í byrjun ágúst 2024. Náttúrufræðistofnun barst faglega frágengið þurrkað sýni, sem leiddi í ljós að einkenni frumna í ljósum hnökrum á hatti, sem og stærð og lögun gróa, pössuðu við lýsingu tegundarinnar. Ljósm. Valdemar Gomes. |
Spinellus fusiger ![]() | Oksveppur, sem sníkir á hattsveppum, einkum á helmum (Mycena-tegundum), fannst í blönduðum grenilundi í Vaglaskógi í Fnjóskadal. Þar löfðu langir, dökkir gróhirsluberar hans niður úr hatti aldina skógskottu (Gymnopus dryophilus), sem þar voru nokkur saman. Sveppurinn myndaði bæði vankyns gró í gróhirslum og tilkomumikil okgró þar sem kynæxlun átti sér stað. Þetta er fyrsti skráði fundur þessa sveppasníkjusvepps hérlendis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. | |
Collariella bostrychodes ![]() | Gormstrýnebba | Tegundin fannst á dauðri asparglyttu (Phratora vitellinae), sem er bjöllutegund sem lifir á laufum aspa- og víðitrjáa, í tilraun þar sem kannað var hvort snerting við sveppinn mjölkylfing (Cordyceps farinosa), sem sníkir á skordýrum, myndi duga til að drepa bjölluna. Frá dauðri bjöllunni stóðu út tveir gráleitir, krullaðir brúskar, sem reyndust vera hár askhirslu. Neðri hluti háranna var þráðbeinn, en endarnir voru uppsnúnir eins og mjókkandi gormur, með víðustu snúningana neðst og þá grennstu við endann, alls 8–10 snúninga. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. |
Tremiscus helvelloides ![]() | Um 55 mm hár laxableikur hlaupsveppur, tungulaga til næstum trektlaga. Efri hluti að innanverðu er með með óreglulegum fellingum. Tegundin er rotsveppur sem vex aðallega á niðurgröfnum barrviði, sagi og viðarkurli. Hún er sögð vera tiltölulega fjallsækin en er fremur fátíð í Evrópu. Eintak af sveppinum fannst í greniskógi á Tumastöðum í Fljótshlíð um miðjan ágúst 2024. Gró voru ljós og sléttveggja, sporbaugótt til digurhólklaga með nokkuð þvera en ávala enda, 12–15 × 7,0 µm að stærð. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson. |
Exidia recisa ![]() | Víðibólstur | Ljósbrúnn hlaupsveppur, sem vex á uppistandandi dauðum greinum og stofnum víðis, fannst rétt norðan Rauðavatns í Reykjavík í lok mars 2022 á dauðum stofni víðitegundar. Í desember 2024 fannst hann einnig á dauðum víði við Álftavatn í Grímsness- og Grafningshreppi. Sveppurinn var greindur sem víðibólstur, sem einkennist af fellingum á brún hvers hlaupkennds aldins og myndar allstór bjúglaga kólfgró. Þetta er fyrsti staðfesti fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson. |
Gomphidius maculatus ![]() | Lerkigompur | Tegundin fannst fyrst í Kjarnaskógi við Akureyri árið 1984 en tegundin tengist lerki og lerkisveppi (Suillus grevillei). Lerkigompur fannst aftur í Suðurdal Skriðdals sunnan Víðilækjar seinnihluta ágúst 2024. Þetta er annar skráði fundur tegundarinnar hérlendis. Ljósm. Mikael Jeppson. |