Náttúruminjaskrá
Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með undirbúningi B- og C-hluta
náttúruminjaskrár og ber samkvæmt lögum um náttúruvernd ábyrgð á skráningu náttúruminja og mati á verndargildi þeirra. Stofnunin skilar jafnframt tillögum til umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra um náttúruminjar sem ætti að setja í forgang til friðlýsingar eða friðunar og þar með skrá á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (B-hluta). Jafnframt leggur hún fram tillögur fyrir C-hluta náttúruminjaskrár sem inniheldur aðrar náttúruminjar með hátt verndargildi.
Náttúrufræðistofnun lagði fram fyrstu
tillögur fyrir B-hluta náttúruminjaskrár árið 2018 þar sem lögð var áhersla á verndarsvæði fyrir vistgerðir og fugla, auk sex jarðminjasvæða. Árið 2020 voru lagðar fram fleiri tillögur, að þessu sinni um verndun fossa og mikilvægra selasvæða. Árið 2022 var samþykkt að Umhverfisstofnun undirbyggi kynningu á 15 svæðum sem metin voru í hæsta forgangi. Sérstakt forsamráð við sveitarfélög og landeigendur fór fram eða var í undirbúningi við lok árs 2023 og hafði Náttúrufræðistofnun ráðgjafarhlutverk í því ferli. Tillaga að framkvæmdaáætlun fyrir B-hluta var auglýst vorið 2024 og tóku fulltrúar Náttúrufræðistofnunar þátt í samráðsfundum Umhverfisstofnunar víða um land. Stofnunin á einnig fulltrúa í ráðgjafarnefnd um náttúruminjaskrá sem skilaði áliti sínu á tillögunni til ráðherra. Framkvæmdaáætlunin er á þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar fyrir vorþing 2025.
Árið 2024 var áfram unnið að skráningu náttúruminja fyrir C-hluta náttúruminjaskrár þar sem áfram var lögð höfuðáhersla á jarðminjar. Unnið var undirbúningi sérstaks verklags við mat á verndargildi jarðminjasvæða og það tekið í notkun samhliða frekari skráningu og úrvinnslu gagna. Í lok árs 2024 voru 480 jarðminjar skráðar í gagnagrunn stofnunarinnar.
Að Fjallabaki, horft frá Pokahrygg til vesturs að Rauðufossafjöllum. Ljósm. Kristján Jónasson.Jarðminjalisti IUGS – Alþjóðleg viðurkenning á íslenskum jarðminjum
Jarðminjar njóta ekki aðeins verndar á landsvísu, heldur er alþjóðlegt gildi þeirra einnig metið. Alþjóðajarðfræðisambandið (IUGS) hefur ákveðið að gefa út þrjá jarðminjalista yfir 100 merkustu jarðminjastaði heims, og í ágúst 2024 birtist annar listinn undir heitinu
The Second 100 IUGS Geological Heritage Sites. Fyrsti listinn var gefinn út árið 2022 í tilefni af 60 ára afmæli IUGS og sá þriðji er ráðgerður árið 2026. Markmið jarðminjalistanna er að vekja athygli á mikilvægi jarðminja fyrir vísindi og fræðslu, veita þeim alþjóðlega viðurkenningu og stuðla að varðveislu þeirra.
Árið 2024 hlutu tveir íslenskir jarðminjastaðir viðurkenningu sem alþjóðlega mikilvægir jarðminjastaðir á lista IUGS. Náttúrufræðistofnun tilnefndi eldstöðina
Reykjanes á listann vegna tengsla hennar við Mið-Atlantshafshrygginn. Á svæðinu má sjá gliðnun jarðlaga, misgengi, gossprungur og fjölbreytta gossögu, auk jarðhitasvæða sem eru sérlega áhugaverð. Reykjanes er þegar á náttúruminjaskrá og innan
Reykjaness jarðvangs. Alþjóðlegt samband landmótunarfræðinga (International Association of Geomorphologists) tilnefndi
Vatnajökul sem alþjóðlega mikilvægan jarðminjastað vegna samspils jökuls og eldvirkni. Jökulhlaup og sandar eru fágæt jarðfræðileg fyrirbæri í heiminum en við Vatnajökul finnast með bestu dæmum um þau. Í Vatnajökli eru einnig virkar megineldstöðvar, fjölbreyttir jöklar og margbreytileg landform mynduð af jökli. Vatnajökull er
þjóðgarður og á
heimsminjaskrá UNESCO.
Náttúrufar friðlýstra svæða
Á árinu 2024 vann Náttúrufræðistofnun að náttúrufarslýsingum og mati á verndargildi friðlýstra svæða víða um land, aðallega í tengslum við gerð stjórnar- og verndaráætlana á vegum Umhverfisstofnunar.
Meðal svæða sem voru til skoðunar má nefna náttúruvættið Dynjanda í Arnarfirði, landslagsverndarsvæðið norðan Dyrfjalla, náttúruvættið Stórurð, friðlandið Látrabjarg, landslagsverndarsvæðið Kerlingarfjöll, friðlandið Vífilsstaðavatn í Garðabæ og náttúruvættin Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás í Reykjavík. Auk þess vann stofnunin náttúrufarslýsingu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, sem hluta af stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hoffellslambatungur í Nesjum.
Nefndir og ráð
Vorið 2023 skipaði matvælaráðherra stýrihóp um verndun hafsvæða innan íslenskar lögsögu. Hópnum var falið að rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins með áherslu á virka svæðisvernd. Náttúrufræðistofnun átti fulltrúa í stýrihópnum og skilaði hópurinn
lokaskýrslu í ágúst 2024.
Sérfræðingar stofnunarinnar sitja einnig í samstarfshópum Náttúruverndarstofnunar, annars vegar vegna vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun landslagsverndarsvæðis Kerlingarfjalla og hins vegar vegna stjórnunar- og verndaráætlunar Dynjanda. Auk þess á stofnunin fulltrúa í ýmsum öðrum nefndum og ráðum, þar á meðal samráðsvettvangi um ráðstöfun tekna af sölu veiðikorta, sérfræðinganefnd um framandi lífverur, verkefnisstjórn rammaáætlunar og ráðgjafarnefnd fagstofnana vegna laga um stjórn vatnamála.
Útflutningsleyfi fyrir náttúrugripi
Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með útgáfu leyfa fyrir útflutning náttúrugripa
samkvæmt lögum um stofnunina nr. 54/2024. Á árinu 2024 var veitt 65 leyfi fyrir slíkan útflutning en í flestum tilfellum var hann í rannsóknarskyni. Algengast er að flytja út jarðfræðisýni, svo sem berg og set, en einnig plöntu- og dýrasýni, vatn, örverur og fleira.