Fara í innihald
Kaflaskil - Rannsóknir

Þverfaglegar rannsóknir

Mývatn

Náttúrufræðistofnun starfrækir Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem hefur það hlutverk að stunda rannsóknir á náttúru Mývatns og Laxár og vatnasviðs þeirra. Markmiðið er að afla vísindalegrar þekkingar sem nýtist við verndun svæðisins í víðum skilningi. Í því felst að fá yfirlit yfir náttúru svæðisins og breytingar á henni, rannsaka orsakasamhengi í vistkerfi Mývatns og Laxár og kanna áhrif af umsvifum manna. Rannsóknaverkefnin eru mörg en hér er greint frá þeim sem áhersla var lögð á árið 2024.

Hið síkvika vistkerfi Mývatns

Verkefnið felst í að skrá breytingar á vistkerfi Mývatns og rekja orsakasamhengi í fæðuvef, næringarefnakeðjum og birtuskilyrðum. Þá er einnig unnið að þróun reiknilíkana sem lýsa vistkerfinu.
Rannsóknir á lífríki Mývatns hafa í sívaxandi mæli beinst að fæðuvef vatnsins, sem sýnir hvernig efni berst frá einu fæðuþrepi til annars. Vöktun hefur leitt í ljós miklar og sveiflukenndar breytingar. Um nokkurra ára skeið ríkir gjarnan góðæri með góðum átuskilyrðum fyrir fugl og fisk eru góð en á tveimur til þremur misserum getur þetta ástand snúist við og orðið að hallæri með nær algerum átuskorti. Þá bregst viðkoma bleikju og vatnafugla án þess að sjáanlegar breytinar verði á ytra umhverfi vatnsins, svo sem veðurfari, súrefnisástandi eða grunn­vatni. Yfirleitt tekur lífríkið tvö til þrjú ár að jafna sig en svo endurtekur sagan sig. Fyrsta skráða hrunið varð 1970.
Mynd sem sýnir kúluskít (Aegagropila linnaei) sem er orðinn mjög sjaldgæfur í Mývatni, einkum vegna næringarefnamengunar Kúluskítur (Aegagropila linnaei) er orðinn mjög sjaldgæfur í Mývatni, einkum vegna næringarefnamengunar. Ljósm. Árni Einarsson.
Ekki er talið að þessar öfgakenndu sveiflur hafi verið viðfarandi langt aftur í tímanngeta varla hafa staðið mjög lengi. Þótt lífríkið hafi án efa verið einhverjum sveiflum undirorpið alla tíð hljóta lægðirnar yfirleitt að hafa verið mildari. Lífríkishrunin hafa hindrað eðlilega endurnýjun bleikjustofnsins og gert hann sérstaklega viðkvæman fyrir veiði. Sveiflurnar virðast eiga rætur í innviðum fæðuvefsins sjálfs en síður í utanaðkomandi þáttum. Margt bendir til þess að slæðumý (Tanytarsus gracilentus) sé undirrót þeirra. Lirfur tegundarinnar geta náð svo miklum þétt­leika á botni vatnsins að fæða gengur til þurrðar og stofninn hrynur. Aðrir lífverustofnar fylgja með, þar sem þeir eru ýmist keppinautar lirfanna eða standa ofar í fæðuvefnum. Með aðstoð reiknilíkans hefur verið líkt eftir atburða­rás sveiflunnar. Niðurstöður benda til að lífríki Mývatns sé mjög viðkvæmt jafnvel fyrir smávægilegum breytingum á ytri aðstæðum. Lífríkislag botnsins hefur sennilega mikil áhrif á næringarefnaskipti milli botnsets og vatnbols og stjórn­ar eft til vill hve mikill blábakteríublóminn er hverju sinni. Áhersla er nú lögð á að rannsaka þessi efnaskipti nánar.
Helstu undirverkefni undanfarinna ára eru:
  • Áhrif mýlirfa á framleiðslu kísilþörunga
  • Áhrif kísilþörunga á mýlifur
  • Áhrif mýlirfa á efnaflæði milli vatns og botnsets
  • Vöktun lífríkis.
Fyrirhugað er að hefja rannsóknir á áhrifum hornsíla á átustofna og næringarefnaveltu. Eins er æskilegt að kanna útbreiðslu og lífsskilyrði kúluskíts í öðrum vötnum en Mývatni þar sem hann er nánast horfinn.

Blábakteríur og áhrif þeirra í vistkerfi Mývatns

Markmið verkefnisins er að kortleggja helstu tegundir blábaktería (Cyanobacteria) í Mývatni í tíma og rúmi og mæla niturbindingu þeirra, áhrif á birtuskilyrði og eituráhrif.
Mývatn breytist á tvo vegu. Annars vegar eru sveiflur sem vara í 5–9 ár og einkennast af lágmarksárum með átuskorti (fátt af mýi og krabbadýrum), viðkomubresti hjá bleikju og fuglum og mikilli fjölgun blábaktería. Hins vegar er langtímahnignun þar sem birtuskilyrði versna, botngróður dregst saman, blábakteríumor verður þéttara og varir lengur á sumrin og mýi og silungi fækkar. Þó blábakteríumor sé náttúrulegt í hinu frjósama Mývatni virðist það nú orðið þykkara, útbreiddara og vara lengur fram á haust en áður. Árin 2014 og 2015 var það mjög þykkt.
Þykkt blábakteríumor í Mývatni.Þykkt blábakteríumor í Mývatni. Ljósm. Árni Einarsson.
Á milli blábakteríuáranna hafa komið tímabil þar sem vatnið er tiltölulega tært, stundum mjög tært allt sumarið, en tíðni slíkra tilfella virðist fara minnkandi. Á sama tímabili hefur græn­þörunga­teppið, sem áður einkenndi Syðriflóa, látið undan síga og árið 2024 var það horfið að mestu. Líklegasta skýringin á hvarfi þörungamottunnar er birtuleysi af völdum blábaktería.
Áhrif blábakteríanna eru þó ekki öll neikvæð. Niturbinding þeirra stuðlar að frjósemi vatnsins og þær eru mikilvæg fæða fyrir bitmý og þar með allt lífríki Laxár.
Helstu vinnutilgátur fræðimanna um sveiflur blábaktería í Mývatni hafa snúist um að mýlirfur og/eða hornsíli hafi, í krafti fjöldans, veruleg áhrif á framboð fosfórs í vatninu. Þannig geti þau í raun „kveikt eða slökkt” á blábakteríublómanum, mýlirfurnar með því að breyta súrefnisástandi og/eða
Helstu undirverkefni eru:
  • Tegundasamsetning og útbreiðsla blábaktería í svifi Mývatns (hafið)
  • Niturbinding blábaktería í svifi og á botni í Mývatni (hafið)
  • Áhrif blábaktería á svifdýr (ekki hafið)
  • Áhrif blábaktería á mýlirfur (ekki hafið)
  • Saga blábakteríumors í Mývatni fyrir 1970 (hafið)
  • Eiturefni í blábakteríum Mývatns (ekki hafið)
  • Blábakteríur í svifi annarra vatna á Íslandi (ekki hafið)
  • Samkeppni blábaktería og grænþörungasvifs (hafið)
  • Áhrif blábaktería á botngróður (hafið)

Fiskstofnar í Mývatnssveit: Stofnsamsetning, umhverfi og erfðamynstur

Markmið verkefnisins er að greina útlits- og erfðabreytileika fiska í Mývatni og nágrenni og setja í samhengi við stofnstærðir, stofnbreytingar, fæðuframboð og aðra umhverfisþætti.
Bleikju hefur stórfækkað í vatninu á síðustu áratugum. Stofn hennar hefur illa þolað síendurtekinn fæðuskort sem fylgir átusveiflum í vatninu, sem aftur hefur neikvæð áhrif á tímgun. Langan tíma tók að aðlaga veiðisókn þessum nýja veruleika. Til eru veiðitölur allt frá árinu 1900, auk ítarlegrar frásagnar af veiðinni á síðari hluta 19. aldar. Eftir stöðugleikatímabil frá 1922–1972 fór bleikjuveiði hrakandi og gripið var til róttækrar sóknar­takmörkunar. Vöktun stofnsins hófst með núverandi sniði árið 1986 og hefur meðal annars sýnt að oft hefur mjög lítið verið af smábleikju. Nú er jafnframt stuðst við loftmyndir af riðastöðvum sem gefa vísbendingu um hrygningarvirkni stofnsins.
Hornsíli úr MývatniHornsíli úr Mývatni. Ljósm. Árni Einarsson.
Hornsílastofninn í Mývatni hefur verið mjög stór frá því vöktun hófst um 1989 og hefur þéttleikinn verið meiri í Ytriflóa en Syðriflóa. Stofnstærðin hefur þó sveiflast mjög. Enn sem komið er hafa rannsókir ekki stutt þá tilgátu að hornsílin éti upp mýið og knýi þannig mýsveiflurnar. Er nú unnið með rannsóknatilgátur sem gera ráð fyrir að stór sílastofn geti fækkað í stofnum vissra mikilvægra átutegunda og þannig ýkt lífríkissveiflur, og auk þess hraðað umsetningu fosfórs í vatninu og hvatt þannig til blábakteríu­blóma.
Gjáarlontur eru smávaxin bleikju­afbrigði sem finnast í hraunhellum við Mývatn. Þetta eru margir litlir og einangraðir stofnar sem hafa mikið verndargildi, einkum út frá þróunarfræðilegu sjónarmiði. Hópur tengdur Hólaskóla rannsakar nú erfða­breytileika og þróun gjáarlonta með tilliti til umhverfis­aðstæðna. Þá er sérstakt bleikju­afbrigði í Mývatni, krús, sem brýnt er að rannsaka af sömu ástæðum.

Vatnafuglastofnar á Mývatni og Laxá

Mývatn er rómað fyrir mikinn fjölda og fjölbreytni vatnafugla. Viðkoma margra andategunda mótast af átusveiflum; í árum með lítilli átu tekst sjaldan að koma upp ungum en í átuárum gengur oftast vel. Veðurlag ræður sjaldan úrslitum. Flestar hinna 14 andartegunda á Mývatni og Laxá lifa á mýlirfum og krabbadýrum á vatnsbotninum. Viðkoma flórgoða er hins vegar háð hornsílafjölda í vatninu.
Engin einsleit þróun er hjá varpstofnum hinna fjölmörgu vatnafuglategunda á svæðinu. Flórgoði, gargönd og skúfönd hafa sýnt verulega fjölgun en ástæða er til að gefa gaum að viðkomubresti og fækkun duggandar og straumandar. Breytingar á stærð varpstofnanna eru tvenns konar. Annars vegar eru skamm­tíma­sveiflur sem endurspegla breytingar í átumagni og skila sér gjarnan í fjölda fullorðinna fugla næstu árin á eftir. Hins vegar koma fram langtímabreytingar sem eru mismunandi eftir fuglastofnum. Ekki er vitað fyrir víst hvað veldur þessum breytingum en líkur eru á að þær tengist skilyrðum á vetrarstöðvum fuglanna. Einnig gætu breytingar á netaveiði í Mývatni líka skipt máli. Aðeins duggönd sýnir eindregna lang­tíma­hnignum. Viðkoma hennar hefur verið lítil það sem af er 21. öldinni og mikil fækkun verið í varpstofninum undanfarin ár. Líklegir orsakavaldar eru minnkandi krabbadýraáta og rýrnun þörungamottunnar, auk samkeppni við náskylda en harðgerðari tegund, skúfönd, sem nam hér land um aldamótin 1900 og hefur fjölgað mikið síðan.
Straumendur á MývatniStraumendur á Mývatni. Ljósm. Árni Einarsson.
Í Laxá endurspeglast ástand mála af lífríkissveiflunum í Mývatni. Lífríki í efri hluta árinnar er afar fjölbreytt og einkennist öðru fremur af bitmýi, urriða, húsönd og straumönd. Bitmýslirfur sía svifþörunga og blábakteríur úr árvatninu og nærast á þeim. Þegar blá­bakteríu­mor er í Mývatni eykst stofnstærð bitmýs mikið miðað og í stað einnar kynslóðar koma oft tvær yfir sumarið. Þetta hefur bein áhrif á afkomu húsandar, straumandar og urriða. Hrun straum­andar­stofnsins sem hófst 2009 er óvenjulegt og áhyggjuefni. Skoða þarf hvort aukið afrán urriða á andarungum eigi þátt í því en fiskarnir í ánni hafa stækkað verulega eftir að stangveiðimenn tóku að sleppa veiddum fiskum í stað þess að aflífa þá.

Landnotkun og umhverfi fyrr á tímum

Landslag við Mývatn og Laxá er mótað af mannvist í ellefu hundruð ár. Verkefnið felst í kortlagningu fornaldarbyggðar með loft­myndatökum og aldursgreiningum á vettvangi, sem nýlega er lokið, og skógareyðingar í héraðinu, sem endurspeglast í útbreiðslu fornra kolagrafa og aldri þeirra. Jafnframt þessu er unnið að samanburðarathugunum á Suðurlandi.
Fornleifafræðingar vinna að kortlagningu og aldursgreiningu fornaldarbyggðar við MývatnFornleifafræðingar vinna að kortlagningu og aldursgreiningu fornaldarbyggðar við Mývatn. Ljósm. Árni Einarsson.

Surtsey

Náttúrufræðistofnun stundar rannsóknir og sinnir reglubundinni vöktun á náttúrufari Surtseyjar í samvinnu við aðrar stofnanir og vísindamenn. Á hverju ári skipuleggur stofnunin vísindaleiðangra til eyjarinnar í samvinnu við Surtseyjarfélagið og Umhverfisstofnun [nú Náttúruverndarstofnun]. Vöktun á lífríki á sér stað árlega þar sem athygli er beint að nýjum landnemum, myndun jarðvegs, framvindu gróðurs, samfélögum lífvera, smádýrum og fuglum. Á tveggja ára fresti fara fram jarðfræði­rannsóknir þar sem fylgst er með jarðfræðilegum breytingum í eynni. Jarðfræðingar verða næst við rannsóknir í eynni árið 2025 en vöktun á lífríki fór fram dagana 15.–18. júlí 2024. Auk vísindafólks frá Náttúrufræðistofnun tóku þátt í leiðangrinum aðilar frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Eldheimum í Vestmanna­eyjabæ. Landhelgisgæslan sá um flutning leiðangursfólks til eyjarinnar. 
Ástand gróðurs var með ágætum sumarið 2024. Fjöldi tegunda stóð í stað frá árinu áður og gefur það fyrirheit um að þurrkatíðin 2023 hafi ekki haft langvarandi áhrif á æðplöntuflóru Surtseyjar. Vöktun á landnámi æðplantna fór fram á hefðbundinn hátt og sýna niðurstöður að heldur hefur dregið úr því hin síðari ár. Alls fundust 58 tegundir á lífi en tvær tegundir voru horfnar frá síðasta ári, þ.e. fjallavíðir (Salix arctica) og blásveifgras (Poa glauca). Ein tegund, mýrasef (Juncus alpinoarticulatus), fannst á nýjum stað. Hún hafði áður vaxið á apalhrauni á suðurhluta eyjarinnar en var horfin þaðan árið 2023 en fannst aftur sumarið 2024. Nýr fundarstaður mýrasefs er við gíginn Surtung. Friggjargras (Platanthera hyperborea) fannst nú aftur á sama stað og áður, þó ekki í blóma, en það fannst ekki árið á undan. 
Æðplöntuflóra var kortlögð í 1 ha reitum yfir alla eyjuna en það verkefni hefur verið endurtekið á um 10 ára fresti, síðast árin 2014 og 2015. Miklar breytingar hafa orðið á útbreiðslu æðplöntu­tegunda síðasta áratug. Útbreiðsla sumra tegunda hefur minnkað verulega, svo sem melablóms (Arabidopsis petraea), skammkrækils (Sagina procumbens), og vegarfa (Cerastium fontanum), en aðrar tegundir hafa bætt við sig eins og til dæmis holurt (Silene uniflora), hundasúra (Rumex acetosella), baldursbrá (Tripleurospermum maritimum), vallarsveifgras (Poa pratensis), blóðberg (Thymus praecox) og tungljurt (Botrychium lunaria). Gróður heldur áfram að þéttast og breiðast út í eynni, sérstaklega í fuglavarpi og á skjólsælli stöðum, en einnig sáust merki um rofskemmdir vegna sandfoks þar sem vindálag er.
Rannsóknir á smádýrum fóru einnig fram með hefðbundnum aðferðum. Fallgildrur voru settar í mælireiti og tjaldgildra reist í máfavarpinu. Einnig var háfað og leitað eftir smádýrum víðs vegar. Veðurskilyrði til smádýrasöfnunar voru hagstæð framan af en versnuðu eftir því sem á leið. Af þeim sökum var tjaldgildrunni pakkað saman óvenju snemma þetta árið. Í leiðangrinum fundust þrjár nýjar tegundir smádýra: fíflalús (Uroleucon taraxaci), dverglodda (Trichoniscus pusillus) og mýrasnigill (Deroceras laeve). Fíflalús var sérstaklega áberandi á fæðuplöntu sinni, sem er túnfífill.
Vísindamenn frá Náttúrufræðistofnun í Surtsey sumarið 2024Vísindamenn að störfum í Surtsey sumarið 2024. Ljósm. Járngerður Grétarsdóttir.
Í máfavarpinu voru engar talningar gerðar að þessu sinni. Þar var mikið líf en þó virtist heldur minna um svartbak og sílamáf en áður. Fýll verpur víðs vegar um Surtsey en fýlsungar sátu í hreiðrum á bjargbrúnum, í máfavarpinu og í hrauntaumum á móbergsbunkum. Færri spörfuglar voru á ferð en áður en nokkur pör af þúfutittlingi, sólskríkju og maríuerlu voru á eynni með unga. Engin merki voru um grágæsir en þær hafa orpið á eynni um nokkurn tíma. Hrafns­laupur var í Surtungi og sáust tveir hrafnar á flugi en einn dauður ungi fannst við gíginn. Teista var í varpi við Gústafsberg og einn lundi sat uppi í bergi á suðurhluta eyjunnar.
Landbúnaðarháskóli Íslands hélt áfram rannsóknum á vistkerfisvirkni, þar sem kolefnis­jöfnuður, vistkerfisöndun og heildar­ljóstillífun voru mæld í föstum vöktunarreitum. Þá voru einnig mældir endurkastsstuðlar en rigning truflaði þær mælingar. Auk þess var lýst jarðvegssniðum við gróna vöktunarreiti í fuglabyggðinni og við reiti sem voru undir minni áhrifum frá fuglum.
Umhverfisstofnun skráði rusl í fjöru á norður­tanga Surtseyjar en ströndin er vöktuð samkvæmt aðferðafræði OSPAR-samningsins um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins. Auk vísindafólks var erlendur sjónvarpsmaður með í för, sem safnaði myndefni og tók viðtöl fyrir frönsku sjónvarpsstöðina TF1 til notkunar í dagskrárgerð.
Ný vefmyndavél var sett upp á veðurstöðinni en engar myndir höfðu borist frá eynni frá janúar vegna bilunar á eldri vél. Á Pálsbæ voru unnin ýmis viðhaldsverk. Við komuna á eyna stóðu dyrnar á skálanum opnar þar sem læsingar á hurðarhlera höfðu losnað og hurðin fokið upp í vor. Skemmdir voru þó litlar, draglokum var skipt út, hjarir endurnýjaðar og dyrakarmur lagfærður. Að auki var sett upp ný tunna sem safnar rennuvatni af þaki Pálsbæjar en í Surtsey er ekkert ferskvatn.

Vöktun náttúruverndarsvæða

Vöktun náttúruverndarsvæða er langtímaverkefni sem felur í sér mælingar á fjölbreyttum þáttum náttúrufars innan verndarsvæða. Megintilgangur vöktunarinnar er að greina breytingar á lífríki og jarðminjum svæðanna, hvort sem þær stafa af áhrifum loftslagsbreytinga eða afleiðingum ferðamannaumferðar og landnotkunar. Slík vöktun krefst reglubundinna og endurtekinna athugana yfir langan tíma sem gerir það kleift að skilja hvernig og hvers vegna náttúran tekur breytingum. Sérstök áhersla er lögð á að vakta þá náttúrufarsþætti sem eru undirstaða náttúruverndargildis svæðanna, svo sem gróður, jarðminjar, fugla og spendýr.
Vöktun náttúruverndarsvæða er umfangsmikið verkefni sem kallar á vel ígrundaða forgangsröðun á þeim svæðum sem skal vakta ásamt vönduðu vali á vöktunarþáttum. Þetta krefst náinnar samvinnu við fagaðila í náttúrufarsrannsóknum, verndun og stefnumótun. Verkefnið, sem hófst árið 2019, hefur verið þróað með það að markmiði að gefa sem besta mynd af raunverulegum breytingum á náttúruverndarsvæðum sem getur nýst við mat og stefnumótun svæðanna.
Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með verkefninu, sem er unnið í nánu samstarfi við náttúrustofur landsins. Hver náttúrustofa hefur umsjón með vöktun og öflun gagna í sínu umdæmi og sér jafnframt um samskipti við hagaðila innan þess. Náttúrufræðistofnun annast skipulagningu og samræmingu vöktunarinnar í samvinnu við náttúrustofurnar og sér um móttöku, varðveislu og utanumhald allra gagna sem safnað er. Verkefnið er unnið samkvæmt heildstæðri vöktunaráætlun fyrir allt landið, þar sem sömu aðferðir eru notaðar og vöktunar­gögnum skilað í sameiginlegan gagnagrunn.
Verkefni sem falla undir vöktun náttúruverndarsvæða eru margvísleg en þau eiga það sameiginlegt að vera unnin á svæðum sem þegar eru vernduð eða lagt hefur verið til að vernda. Verndarmarkmiðin eru mismunandi eftir svæðum en reglubundin vöktun er nauðsynleg til að meta hvort þessum markmiðum sé náð. Auk þess er vöktun ómissandi þáttur við endurskoðun verndunaráætlana, sem tryggir að stefna og aðgerðir séu ávallt viðeigandi og árangursríkar.
Við framkvæmd vöktunar árið 2024 var unnið samkvæmt þeirri áætlun sem sett var fram til ársins 2025, þar sem vöktunarverkefnum var skipt upp í fimm flokka helgaða fuglum, vistgerðum, spendýrum, jarðminjum og ferðamannastöðum.
Vöktun fugla fór fram samkvæmt áætlun og gekk vel. Verkefnin innan fuglavöktunar eru fjölbreytt og fela meðal annars í sér vöktun á mófuglum um allt land og bjargfuglar, vatnafuglar og fuglar á leirum eru vaktaðir vítt og breitt um landið. Einnig fellur vöktun útvaldra tegunda, á borð við kríu og skúm, undir vöktun á náttúruverndarsvæðum.
Landvistgerðir eru vaktaðar með því að heimsækja snið um allt land á um 10 ára fresti en fylgst er með fjöruvistgerðum á Reykjanesi á hverju ári. Árið 2024 gekk vöktun samkvæmt áætlun en farið var í 40 landvistgerðarsnið og fjögur fjörusnið.
Spendýravöktun á náttúruverndarsvæðum felur í sér ítarlegt eftirlit með ábúð refagrenja í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og friðlandinu á Hornströndum, auk þess sem hagamýs eru vaktaðar á fjórum stöðum á landinu.
Jarðminjar eru vaktaðar með drónamyndatökum sem nýtast til myndkortagerðar fyrir endur­skoðun á C-hluta náttúruminjaskrár, en árið 2024 voru fjórar jarðminjar myndaðar í þeim tilgangi. Það voru Mælishólar í Jökuldal, Tröllabörn við Suðurlandsveg, hamrar á milli Gljúfursár og Salthöfða og gervigígar í Aðaldal.
Vöktun á ferðamannastöðum felst í að taka yfirlitsmyndir af svæðunum og er endurtekin ljósmyndun notuð til að vakta ástand staðanna. Einnig er traðk metið og stígar mældir til að meta álagið á svæðin, ásamt því að skima fyrir sérstökum breytingum á jarðminjum og gróðri svæðanna. Á þessu ári voru alls 25 ferðamannastaðir vaktaðir.
Vöktunarárið 2024 gekk almennt mjög vel og nú, sex árum eftir að vöktunin hófst, er mögulegt að greina fáeinar breytingar á svæðum, sérstaklega innan ferðamannastaða. Framundan er að taka saman mælingar og greina gögn frá þessum stöðum, með sérstaka áherslu á birtingu gagna sem geta nýst við stefnumótun. Þá er einnig á dagskrá að endurskoða vöktunaráætlunina og áherslur verkefnisins til næstu ára, en ný áætlun verður gerð fyrir árin 2026–2029.Purkhólahrauni á SnæfellsnesiHellir í Purkhólahrauni á Snæfellsnesi. Ljósm. Agustín Marínez.

Vistgerðir á Íslandi

Lýsing á vistgerðum á Íslandi og kortlagning þeirra, sem lokið var árið 2016, er eitt af umfangsmestu verkefnum sem Náttúrufræðistofnun hefur ráðist í en það var unnið í samvinnu við ýmsar stofnanir. Flokkunarkerfið byggir á samræmdri og viðurkenndri flokkun vistgerða í Evrópu og nær yfir landvistgerðir, ferskvatnsvistgerðir og fjöruvistgerðir. Allar upplýsingar um þessar vistgerðir eru aðgengilegar í ritinu Vistgerðir á Íslandi og á vef stofnunarinnar. 
Notkun vistgerðaflokkunar og vistgerðakortsins hefur vaxið jafnt og þétt hin síðari ár sem endurspeglar mikilvægi þessarra upplýsinga fyrir samfélagið. Til að auðvelda notendum vistgerðaflokkun voru útbúnir greiningarlyklar fyrir landvistgerðir og fjöruvistgerðir sem leiða notandann niður á þá vistgerð sem best fellur að því landi sem er til skoðunar.
Flokkun vistgerða með fjarkönnun hefur ekki verið án áskorana, auk þess sem náttúra Íslands tekur sífelldum breytingum. Síðustu ár hafa verið unnar ýmsar leiðréttingar á landvistgerðakortinu út frá athugasemdum frá notendum og nýjum gögnum sem safnast hafa í vettvangsúttektum. Leiðréttingar hafa ýmist verið svæðisbundnar eða tengdar ákveðnum vistgerðum. Árið 2018 var gefin út 2. útgáfa rastakortsins og 3. útgáfa leit dagsins ljós í mars 2024. Hún inniheldur meðal annars lagfæringar við strendur alls landsins, endurskoðaðar upplýsingar um útbreiðslu rimamýravistar fyrir landið allt og nýjar hraunbreiður sem mynduðust í eldgosunum á Reykjanesskaga árin 2021–2024, auk þess sem ýmsar aðrar svæðisbundnar leiðréttingar voru gerðar. Kortið er aðgengilegt til niðurhals á vef Náttúrufræðistofnunar og þar má nálgast upplýsingar um breytingasögu kortsins.
Núverandi kort er að miklu leyti byggt á gervitunglamyndum frá árunum 2011–2013, auk eldri mynda. Nú er í undirbúningi heildarendurskoðun kortsins með flokkun nýrra gervitunglamynda, auk þess sem unnið er með prófanir á gögnum og aðferðum og byggt upp grunngagnasafn með tiltækum upplýsingum um skráningar vistgerða á vettvangi.
Vistgerðaflokkunin hefur lítillega verið endurskoðuð frá því að flokkunarkerfið leit dagsins ljós, en tvær landgerðir, Skógarkerfill og fleiri áþekkar tegundir og Uppgræðslur, hafa bæst í flokkunarkerfið og má nú finna í kortinu. Að auki hafa verið unnar rannsóknir á tilgátuvistgerð, sem ber vinnuheitið skeljasandsengi, en hún líkist mjög bresku vistgerðinni machair sem finnst einvörðungu á norðvestanverðum Bretlandseyjum. Til skoðunar er hvort tilefni sé til að bæta nýrri landvistgerð við flokkunarkerfið og kynna skeljasandsengi fyrir viðeigandi aðilum á Bretlandseyjum. Niðustöður rannsóknanna eru birtar í skýrslu Náttúrufræðistofnunar.
Esjuhlíðar einkennast af skógrækt og skógarkerfliLandgerðin skógarkerfill og fleiri áþekkar tegundir, ásamt skógrækt, er algeng í Esjuhlíðum. Ljósm. Olga Kolbrún Vilmundardóttir.

Skógvist

Náttúrufræðistofnun tekur þátt í rannsóknarverkefninu Skógvist sem miðar að því að skoða áhrif skógræktar og uppvaxtar náttúrulegra birkiskóga á lífríki, jarðvegs­eiginleika og kolefnishringrás mólendis. Rannsóknin beinist að fimm mismunandi hópum lífvera: jarðvegsdýrum, hryggleysingjum á yfirborði, sveppum og fléttum, plöntum og varpfuglum. Rannsóknarsvæðin eru á Fljótsdalshéraði á Austurlandi og í Skorradal og Norðurárdal á Vesturlandi. Á þessum svæðum eru gerðar mælingar í gróðursettum lerki-, stafafuru- og sitkagreniskógum, sem og í náttúrulegum birkiskógum á mismunandi aldri. Til samanburðar er skoðað beitt mólendi. Rannsóknarniðurstöðurnar veita dýrmætar upplýsingar um þróun lífríkis með aldri og tegund skóganna og gögnin hafa einnig nýst til að skoða áhrif eldgosa á jarðveg og gróðurfar.
Mælingar í verkefninu hafa farið fram árin 2002–2006, 2015 og nú síðast sumarið 2024 þegar reitir í Skorradal voru endurmældir og starfsfólk Náttúrufræðistofnunar rannsakaði þar gróður og fugla. Skógvistarverkefnið er unnið að tilstuðlan Lands og skógar og taka Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrustofa Norðurlands vestra og Háskólinn á Akureyri þátt í verkefninu auk Náttúrufræðistofnunar.
Unnið að rannsóknum í birkiskóginum í SkorradalUnnið að rannsóknum í birkiskóginum í Skorradal. Ljósm. Járngerður Grétarsdóttir.

Stjórn vatnamála

Innleiðing rammatilskipunar Evrópusambandsins um verndun vatns (Directive 2000/60/EC) hefur staðið yfir hér á landi frá árinu 2011 og gengur undir heitinu stjórn vatnamála. Umhverfis- og orkustofnun fer með yfirumsjón verkefnisins en Náttúrufræðistofnun, Veðurstofa Íslands og Hafrannsóknastofnun leggja til gögn og sérfræðiþekkingu við framkvæmd tilskipunarinnar, eins og kveðið er á um í lögum nr. 36/2011 og reglugerð nr. 935/2011, um stjórn vatnamála.
Tilskipunin nær til grunnvatns og alls yfirborðsvatns, það er straumvatna, stöðuvatna, lóna, árósavatns, strandsjávar og jökla, og miðar að því að vernda vatn og vistkerfi þess, tryggja viðvarandi gott ástand vatnsauðlindarinnar og stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar. Með heildstæðri stjórn vatnamála er gert ráð fyrir að allir sem nýta vatn eða valda álagi á vatnsauðlindina taki þátt í verkefninu, þvert á sveitarfélagamörk. Verkefnið byggir því á víðtæku samstarfi stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda, náttúruverndar- eða umhverfisnefnda, ráðgjafa, hagsmunaaðila og almennings.
Á árinu 2024 hlaut Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum, þar á meðal Náttúrufræðistofnun, styrk úr LIFE-áætlun Evrópusambandsins til verkefnisins LIFE ICEWATER. Markmið verkefnisins er að bæta og flýta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi, efla þekkingu á notkun, ástandi og eiginleikum vatns, tryggja samhæfða stjórnsýslu og bæta vatnsgæði, meðal annars með úrbótum í fráveitu og hreinsun fráveituvatns. Þá verður lögð áhersla á fræðslu til almennings og hagaðila um mikilvægi vatns. Verkefnið verður unnið á árunum 2025–2030 og er áætlaður heildarkostnaður um 5,8 milljarðar króna. LIFE-styrkurinn er einn sá stærsti sem Ísland hefur hlotið úr evrópskum samkeppnissjóði og nemur 3,5 milljörðum króna, eða um 60% af áætluðum heildarkostnaði, og dreifist á samstarfsaðilana.
Norrænt samstarf um innleiðingu vatnatilskipunar er náið og haldnar eru sameiginlegar ráðstefnur annað hvert ár til að samhæfa ferlið og deila þekkingu. Dagana 25.–26. september 2024 var haldin norræn ráðstefna í Gautaborg undir yfirskriftinni Implementation of measures in surface and groundwater: Successes and difficulties in the Nordic countries. Fulltrúar frá öllum aðildarlöndunum tóku þátt, þar á meðal nokkrir frá Íslandi, meðal annars frá Náttúrufræðistofnun. Fyrri dagurinn fól í sér erindi um stöðu innleiðingar í hverju landi fyrir sig en seinni daginn var unnið í fimm umræðuhópum. Ísland átti fulltrúa í öllum hópunum og tók fulltrúi stofnunarinnar þátt í hópi um nýjar aðferðir og tækni við vöktun vatnshlota, meðal annars notkun fjarkönnunar, dróna og sameindaerfðafræðilegra aðferða (eDNA).