Við framkvæmd vöktunar árið 2024 var unnið samkvæmt þeirri áætlun sem sett var fram til ársins 2025, þar sem vöktunarverkefnum var skipt upp í fimm flokka helgaða fuglum, vistgerðum, spendýrum, jarðminjum og ferðamannastöðum.
Vöktun fugla fór fram samkvæmt áætlun og gekk vel. Verkefnin innan fuglavöktunar eru fjölbreytt og fela meðal annars í sér vöktun á mófuglum um allt land og bjargfuglar, vatnafuglar og fuglar á leirum eru vaktaðir vítt og breitt um landið. Einnig fellur vöktun útvaldra tegunda, á borð við kríu og skúm, undir vöktun á náttúruverndarsvæðum.
Landvistgerðir eru vaktaðar með því að heimsækja snið um allt land á um 10 ára fresti en fylgst er með fjöruvistgerðum á Reykjanesi á hverju ári. Árið 2024 gekk vöktun samkvæmt áætlun en farið var í 40 landvistgerðarsnið og fjögur fjörusnið.
Spendýravöktun á náttúruverndarsvæðum felur í sér ítarlegt eftirlit með ábúð refagrenja í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og friðlandinu á Hornströndum, auk þess sem hagamýs eru vaktaðar á fjórum stöðum á landinu.
Jarðminjar eru vaktaðar með drónamyndatökum sem nýtast til myndkortagerðar fyrir endurskoðun á C-hluta náttúruminjaskrár, en árið 2024 voru fjórar jarðminjar myndaðar í þeim tilgangi. Það voru Mælishólar í Jökuldal, Tröllabörn við Suðurlandsveg, hamrar á milli Gljúfursár og Salthöfða og gervigígar í Aðaldal.
Vöktun á ferðamannastöðum felst í að taka yfirlitsmyndir af svæðunum og er endurtekin ljósmyndun notuð til að vakta ástand staðanna. Einnig er traðk metið og stígar mældir til að meta álagið á svæðin, ásamt því að skima fyrir sérstökum breytingum á jarðminjum og gróðri svæðanna. Á þessu ári voru alls 25 ferðamannastaðir vaktaðir.
Vöktunarárið 2024 gekk almennt mjög vel og nú, sex árum eftir að vöktunin hófst, er mögulegt að greina fáeinar breytingar á svæðum, sérstaklega innan ferðamannastaða. Framundan er að taka saman mælingar og greina gögn frá þessum stöðum, með sérstaka áherslu á birtingu gagna sem geta nýst við stefnumótun. Þá er einnig á dagskrá að endurskoða vöktunaráætlunina og áherslur verkefnisins til næstu ára, en ný áætlun verður gerð fyrir árin 2026–2029.
Hellir í Purkhólahrauni á Snæfellsnesi. Ljósm. Agustín Marínez.