Stjórn vatnamála
Innleiðing rammatilskipunar Evrópusambandsins um verndun vatns (
Directive 2000/60/EC) hefur staðið yfir hér á landi frá árinu 2011 og gengur undir heitinu stjórn vatnamála. Umhverfis- og orkustofnun fer með yfirumsjón verkefnisins en Náttúrufræðistofnun, Veðurstofa Íslands og Hafrannsóknastofnun leggja til gögn og sérfræðiþekkingu við framkvæmd tilskipunarinnar, eins og kveðið er á um í lögum nr. 36/2011 og reglugerð nr. 935/2011, um stjórn vatnamála.
Tilskipunin nær til grunnvatns og alls yfirborðsvatns, það er straumvatna, stöðuvatna, lóna, árósavatns, strandsjávar og jökla, og miðar að því að vernda vatn og vistkerfi þess, tryggja viðvarandi gott ástand vatnsauðlindarinnar og stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar. Með heildstæðri stjórn vatnamála er gert ráð fyrir að allir sem nýta vatn eða valda álagi á vatnsauðlindina taki þátt í verkefninu, þvert á sveitarfélagamörk. Verkefnið byggir því á víðtæku samstarfi stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda, náttúruverndar- eða umhverfisnefnda, ráðgjafa, hagsmunaaðila og almennings.
Á árinu 2024 hlaut Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum, þar á meðal Náttúrufræðistofnun, styrk úr LIFE-áætlun Evrópusambandsins til verkefnisins LIFE ICEWATER. Markmið verkefnisins er að bæta og flýta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi, efla þekkingu á notkun, ástandi og eiginleikum vatns, tryggja samhæfða stjórnsýslu og bæta vatnsgæði, meðal annars með úrbótum í fráveitu og hreinsun fráveituvatns. Þá verður lögð áhersla á fræðslu til almennings og hagaðila um mikilvægi vatns. Verkefnið verður unnið á árunum 2025–2030 og er áætlaður heildarkostnaður um 5,8 milljarðar króna. LIFE-styrkurinn er einn sá stærsti sem Ísland hefur hlotið úr evrópskum samkeppnissjóði og nemur 3,5 milljörðum króna, eða um 60% af áætluðum heildarkostnaði, og dreifist á samstarfsaðilana.
Norrænt samstarf um innleiðingu vatnatilskipunar er náið og haldnar eru sameiginlegar ráðstefnur annað hvert ár til að samhæfa ferlið og deila þekkingu. Dagana 25.–26. september 2024 var haldin norræn
ráðstefna í Gautaborg undir yfirskriftinni
Implementation of measures in surface and groundwater: Successes and difficulties in the Nordic countries. Fulltrúar frá öllum aðildarlöndunum tóku þátt, þar á meðal nokkrir frá Íslandi, meðal annars frá Náttúrufræðistofnun. Fyrri dagurinn fól í sér erindi um stöðu innleiðingar í hverju landi fyrir sig en seinni daginn var unnið í fimm umræðuhópum. Ísland átti fulltrúa í öllum hópunum og tók fulltrúi stofnunarinnar þátt í hópi um nýjar aðferðir og tækni við vöktun vatnshlota, meðal annars notkun fjarkönnunar, dróna og sameindaerfðafræðilegra aðferða (eDNA).