Fara í innihald
Náttúrufræðistofnun hefur þá lagalegu skyldu að varðveita og miðla upplýsingum um náttúru Íslands. Því hlutverki gegnir stofnunin meðal annars með útgáfu áreiðanlegra rita og korta, miðlun fræðsluefnis á netinu, þátttöku í Vísindavöku Rannís og virkum samskiptum við skóla, nemendur, almenning og fræðasamfélagið. Einnig stendur stofnunin fyrir Hrafnaþingi, röð opinna fræðsluerinda sem haldin eru yfir vetrartímann.

Útgáfa

Náttúrufræðistofnun gefur út fjölbreytt efni sem tengist rannsóknastarfi og náttúruvernd. Meðal útgáfu stofnunarinnar eru rannsóknaskýrslur, válistar, ársskýrslur, fræðsluefni, kort, kortasjár og þrívíddarlíkön. Á árinu 2024 gaf stofnunin út níu rannsóknaskýrslur. Ársskýrslur eru gefnar út árlega en þær veita yfirlit yfir starfsemi stofnunarinnar ásamt tölulegum rekstrarupplýsingum. Sum rit eru gefin út óreglulega, þar á meðal Fjölrit Náttúrufræðistofnunar, sem síðast kom út árið 2023. Til viðbótar við ritútgáfu heldur stofnunin úti vefsetrinu www.natt.is, þar sem finna má rannsóknarniðurstöður, fræðsluefni og aðrar upplýsingar um íslenska náttúru.

Skýrslur

Náttúrufræðistofnun sinnir fjölbreyttum þjónustuverkefnum en stærstu verkefnin felast í aðkeyptri ráðgjöf vegna framkvæmda á sviði orkumála, vegagerðar, skipulagsmála, auk annarra umhverfistengdra verkefna. Öll miða verkefnin að því að afla grunngagna um náttúrufar á tilteknum svæðum sem nýtast við að leggja faglegt mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og meta áhrif mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna. Niðurstöður slíkra verkefna eru teknar saman í skýrslum fyrir verkkaupa. Á árinu 2024 gaf stofnunin út níu rannsóknarskýrslur:
Aðferðir við ákvörðun á vistmegni mikið breyttra vatnshlota. Unnið fyrir Umhverfisstofnun í samvinnu við Veðurstofu Íslands og Hafrannsóknastofnun.
Jarðgrunnskortlagning og skriðuföll við Stóra-Dal. Unnið í samvinnu við Ofanflóðasjóð.

Þrívíddarlíkön

Loftljósmyndastofa Náttúrufræðistofnunnar vann fjölmörg verkefni árið 2024 og var nýtt af bæði nemendum og rannsóknarhópum við úrvinnslu líkana fyrir ýmis verkefni.
Stofan nýtir myndmælingatækni til að búa til myndkort, hæðarlíkön og þrívíddalíkön úr ljósmyndum teknum úr lofti. Gossvæðið á Reykjanesskaga var myndað 21 sinni á árinu úr flugvél Garðaflugs vegna tíðra eldgosa á svæðinu. Hæðarlíkön sem unnin eru úr myndunum nýtast til að reikna flatarmál, rúmmál og kvikustreymi hraunanna. Einnig voru unnin 20 myndkort og hæðarlíkön úr drónaflugum í tengslum við verkefnið vöktun náttúruverndarsvæða. Líkönin eru aðgengileg almenningi á umbrotasjá Náttúrufræðistofnunnar og birt á Sketchfab til fróðleiks og skemmtunar. Sketchfab er vettvangur fyrir birtingu þrívíddarlíkana og viðbótarveruleika á netinu, sem veitir notendum innsýn í jarðfræðielga atburði með gagnvirkum hætti.

Fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni

Á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2024, gaf Náttúrufræðistofnun út þrjár nýjar fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni og bætti þeim við tvær fyrri sögur sem komu út árið 2023. Myndasögurnar mynda nú eina heild og fjalla m mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og þær ógnir sem að henni steðja. Hvatinn að því að velja líffræðilega fjölbreytni sem viðfangsefni myndasagnanna er átak vísindasamfélagsins, Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana til að vekja athygli á mikilvægi þess að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og sporna gegn hnignun hennar. Líffræðileg fjölbreytni er grundvöllur lífs á jörðinni og forsenda þess að vistkerfi haldist í jafnvægi.
Fyrsta sagan kynnir hugtökin vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni þar sem þau eru sett í samband við Ísland og heiminn í heild. Önnur sagan fjallar um hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, orsakir hennar og gildi. Þriðja sagan leggur áherslu á röskun og eyðingu búsvæða, sem er ein helsta ógnin við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu. Fjórða sagan beinir sjónum að framandi og ágengum tegundum á Íslandi, en fjölgun þeirra hefur aukist með auknum samgöngum og vöruflutningum. Fimmta og síðasta sagan fjallar um einstök og viðkvæm vistkerfi á Íslandi, svo sem jarðhitavistkerfi og kóralsvæði, sem oft fá litla umfjöllun.
Myndasögurnar eru aðgengilegar á vef Náttúrufræðistofnunar og eru ætlaðar bæði ungum og eldri lesendum sem vilja fræðast um líffræðilega fjölbreytni og verndun hennar.
Mynd úr fræðslumyndasögu um líffræðilega fjölbreytni Myndir úr fræðslumyndasögum um líffræðilega fjölbreytni. Myndirnar teiknaði Vala Steingrímsdóttir og textinn er eftir Unnar Inga Sæmundarson.
Dæmi 2 um fræðslumyndasögur
Dæmi 3 um fræðslumyndasögur

Hönnunarstaðall

Vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn í nýja Náttúrufræðistofnun var ráðist í gerð sameiginlegs hönnunarstaðals með það að markmiði að skapa skýra og samræmda ásýnd fyrir hina nýju stofnun. Auglýsingastofan ENNEMM var fengin til verksins og hafði umsjón með þróun nýja útlitsins.
Hönnunarstaðallinn felur í sér nýtt merki, letur, litasamsetningu og framsetningarreglur sem gilda um allt efni stofnunarinnar, meðal annars leiðarlínur um notkun merkisins og framsetningu skjala.
Einkennistákn stofnunarinnar er mosagrænt blóm í sexhyrndu formi og er meginreglan að birta það með nafni stofnunarinnar í kolagráu letri. Heimilt er að nota merkið eitt og sér án nafnsins. Þegar skýrleiki merkisins er ekki tryggður, til dæmis á lituðum grunni eða ljósmyndum, má nota einlita útgáfu þess í hvítu eða svörtu.
Auk einkennistáknsins voru hönnuð tíu aukatákn sem endurspegla breidd starfsemi stofnunarinnar og henta vel sem auðkenni fyrir tengd viðfangsefni. Aukatáknin eru í sama sexhyrnda grunnformi og einkennistáknið og æskilegt að nota þau í mosagrænum, kolagráum eða hvítum lit.
Einkennislitir stofnunarinnar eru mosagrænn og kolagrár. Til viðbótar er notað litaspjald með fjölda aðreinandi lita sem nýtast meðal annars í framsetningu gagna í töflu- og línuritaformi. Leturtegund stofnunarinnar heitir Source Sans Pro og inniheldur tólf stílbrigði.
Með tilkomu hönnunarstaðalsins hefur nýtt útlit þegar verið tekið í notkun á bréfsefni, skýrslum og kynningarefni stofnunarinnar.

Fræðsla og miðlun

Bókasafn

Bókasafn Náttúrufræðistofnunar er sérfræðisafn á sviði náttúruvísinda, staðsett í Garðabæ og á Akureyri. Tilgangur safnsins er að þjóna starfsfólki stofnunarinnar og að koma upp aðgengilegu safni heimilda um náttúru Íslands. Almenningi er velkomið að heimsækja safnið til að glugga í bækur og tímarit á staðnum en útlán eru einungis afgreidd til starfsfólks og annarra bókasafna. Nauðsynlegt er að gera boð á undan sér til að tryggja viðveru safnstjóra. Bækur og tímarit bókasafnsins eru skráð í , sem hýsir landskerfi íslenskra bókasafna ásamt öðrum gagnasöfnum, þar á meðal Landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum, sem stofnunin tekur þátt í.

Vefir

Á vefjum Náttúrufræðistofnunar Íslands, www.ni.is, Landmælinga Íslands, www.lmi.is og Rannsókna­stöðvarinnar við Mývatn, www.ramy.is, má finna aðgengilegar upplýsingar og lýsandi myndir af náttúru Íslands. Fjallað er um helstu rannsóknir og verkefni og greint frá niðurstöðum þeirra. Tilgangur vefjanna er að miðla upplýsingum um starfsemina til almennings og fræðasamfélagsins.  
Þegar ákveðið var að sameina stofnanirnar þrjár hófst vinna við hönnunarstaðal sem lagður var til grundvallar við útlitshönnun vefs nýrrar Náttúrufræðistofnunar. Nýi vefurinn er hannaður í vefsumjónarkerfinu Drupal. Unnið var að greiningu eldri vefja stofnananna þriggja til að móta uppbyggingu og innihald nýs vefjar sem stefnt er að því að opni fyrri hluta árs 2025.

Kortasjárkerfi

Miðlun landupplýsinga í kortasjám hefur lengi verið eitt af hlutverkum Náttúrufræðistofnunnar. Fyrir nokkrum árum hönnuðu starfsmenn stofnunarinnar nýtt kerfi fyrir kortasjár. Kerfið er byggt á opnum hugbúnaði og stöðlum. Með hugbúnaðarsmíðinni var allt utanumhald um kortasjár einfaldað auk þess að alltaf var haft í huga að hugbúnaðurinn nýttist öðrum opinberum aðilum. Með opnu kortasjárumhverfi myndast því tækifæri til að aðstoða opinbera aðila við að miðla landupplýsingum sínum eins og lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar gera ráð fyrir. Kortasjárkerfið hefur gert það að verkum að mun auðveldara er að samþætta ólík gögn. Á árinu kom ný og öflug útgafa af örnefnaritli sem nýtist þeim sem skrá örnefni í örnefnagrunninn. Einnig var unnið í þróunarverkefni með Hagstofu Íslands þar sem notuð eru nýjustu gögn frá px-vef þeirra. Ýmsar endur­bætur voru unnar fyrir átaksverkefnið Strandhreinsun Íslands sem Umhverfis- og orkustofnun hefur umsjón með.

Samfélagsmiðlar

Náttúrufræðistofnun nýtir samfélagsmiðla til að efla upplýsingamiðlun og stuðla að beinum og gagnvirkum samskiptum við almenning. Á Youtube-rás stofnunarinnar eru 152 upptökur sem hafa verið spilaðar um 51.700 sinnum. Áskrifendur eru nú 346, samanborið við 300 árið áður. Á Facebook hefur fylgjendahópurinn vaxið úr 3.500 í ríflega 3.700 milli ára. Þar eru fréttir af starfsemi stofnunarinnar birtar, fyrirspurnum svarað og efni miðlað um umhverfis- og náttúrufarsmál sem eru í brennidepli hverju sinni. Á Instagram hefur fylgjendahópurinn einnig aukist lítillega, úr 1.200 í 1.350 á árinu. Þar er áhersla lögð á sjónræna miðlun með myndum og fróðleik um íslenska náttúru. Stofnunin er einnig með aðgang á LinkedIn, þar sem markmiðið er að efla tengsl við samstarfsaðila og fræðasamfélagið.

Gagnagrunnar

Áfram var unnið að uppsetningu, samræmingu og keyrslu gagna í PosgreSQL-gagnagrunn, sem leysir af hólmi einfaldari grunna og skrár. Jarðvísindagögn úr gagnagrunnunum eru birt í gegnum EPOS-verkefnið og hafist var handa við birtingu gagna úr hryggdýragrunni í alþjóðlegu gagnagáttina GBIF (Global Biodiversity Information Facility). 
Sérfræðingar nota í auknum mæli tölfræðiforrit og landupplýsingakerfi til að sækja og vinna með gögnin úr gagnagrunnunum. Áfram er lögð áhersla á að gera gögnin aðgengilegri í kortasjám, niðurhalsþjónustum, mælaborðum, alþjóðlegum gagnagáttum og á vef stofnunarinnar.

Dagur jarðbreytileikans

Alþjóðlegur dagur jarðbreytileikans (e. Geodiversity Day) er haldinn ár hvert 6. október til að vekja athygli á mikilvægi jarðfræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærri nýtingu jarðefna. Náttúrufræðistofnun tók þátt í deginum með því að kynna þetta mikilvæga málefni og stuðla að aukinni vitund um gildi jarðbreytileika. 
Þema dagsins árið 2024 var „Varðveitum fortíðina, tryggjum sjálfbæra framtíð“, sem undirstrikar mikilvægi þess að vernda jarðbreytileika og læra af jarðsögulegum atburðum, sérstaklega þeim sem tengjast náttúruhamförum eins og flóðum, skriðuföllum og loftslagsbreytingum. Jafnframt var lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu jarðefna og aukna endurnýtingu þeirra auðlinda sem þegar hafa verið teknar úr jörðu. Þá er mikilvægt að samfélög heims geri sér grein fyrir að jarðmyndanir eru takmarkaðar auðlindir sem í flestum tilvikum er ekki hægt að endurheima.

Hrafnaþing

Hrafnaþing er röð fræðsluerinda sem að jafnaði eru haldin á tveggja vikna fresti yfir vetrarmánuðina. Þar kynna starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir sínar, auk þess sem gestafyrirlesurum er boðið að flytja erindi. Hrafnaþing fer ýmist fram í húsakynnum stofnunarinnar í Garðabæ eða á Akureyri en er jafnframt alltaf í beinni útsendingu á netinu.
Á árinu 2024 voru haldin níu Hrafnaþing:
Sverrir Thoroddsen: Fuglamerkingar í 45 ár 
Gunnar Þór Hallgrímsson: Uglur á Íslandi 
Þorgerður Ólafsdóttir: Esseyja/Island Fiction 
Ingibjörg Smáradóttir: Myrkurgæði, hvað er nú það? 
Mynd af brandugluÁ hrafnaþingi var fjallað um uglur á Íslandi, meðal annars branduglu. Ljósm. Gunnar Þór Hallgrímsson.

Vísindavaka

Náttúrufræðistofnun tók þátt í Vísindavöku 2024, sem haldin var í Laugardalshöll 28. september. Þar kynnti stofnunin verkefni tengd Copernicus-áætlun Evrópusambandsins, sem veitir frjálsan aðgang að gervihnattagögnum fyrir umhverfisvöktun, loftslagsrannsóknir og náttúruvernd.
Á kynningarborði stofnunarinnar gátu gestir fræðst um hvernig Copernicus-gögn eru notuð á Íslandi til að fylgjast með breytingum í náttúrunni. Sýnd voru dæmi um notkun gervihnattamynda og kortasjár til að greina landbreytingar og vakta loftgæði. Gestir fengu innsýn í hvernig þessi tækni styður við vísindastarf og stefnumótun í náttúruvernd.
Auk þess var boðið upp á fjarkönnun með þrívíddargleraugum og fyrir yngri gesti var sérstakt föndurhorn, þar sem börn gátu útbúið sitt eigið gervitungl.
Mynd af starfsfólki Náttúrufræðistofnunar sem stóð vaktina á Vísindavöku 2024Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar stóð vaktina á Vísindavöku 2024. Ljósm. Gunnar Haukur Kristinsson.