Hönnunarstaðall
Vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn í nýja Náttúrufræðistofnun var ráðist í gerð sameiginlegs hönnunarstaðals með það að markmiði að skapa skýra og samræmda ásýnd fyrir hina nýju stofnun. Auglýsingastofan ENNEMM var fengin til verksins og hafði umsjón með þróun nýja útlitsins. Hönnunarstaðallinn felur í sér nýtt merki, letur, litasamsetningu og framsetningarreglur sem gilda um allt efni stofnunarinnar, meðal annars leiðarlínur um notkun merkisins og framsetningu skjala.
Einkennistákn stofnunarinnar er mosagrænt blóm í sexhyrndu formi og er meginreglan að birta það með nafni stofnunarinnar í kolagráu letri. Heimilt er að nota merkið eitt og sér án nafnsins. Þegar skýrleiki merkisins er ekki tryggður, til dæmis á lituðum grunni eða ljósmyndum, má nota einlita útgáfu þess í hvítu eða svörtu.
Auk einkennistáknsins voru hönnuð tíu aukatákn sem endurspegla breidd starfsemi stofnunarinnar og henta vel sem auðkenni fyrir tengd viðfangsefni. Aukatáknin eru í sama sexhyrnda grunnformi og einkennistáknið og æskilegt að nota þau í mosagrænum, kolagráum eða hvítum lit.
Einkennislitir stofnunarinnar eru mosagrænn og kolagrár. Til viðbótar er notað litaspjald með fjölda aðreinandi lita sem nýtast meðal annars í framsetningu gagna í töflu- og línuritaformi. Leturtegund stofnunarinnar heitir Source Sans Pro og inniheldur tólf stílbrigði.
Með tilkomu hönnunarstaðalsins hefur nýtt útlit þegar verið tekið í notkun á bréfsefni, skýrslum og kynningarefni stofnunarinnar.